Jafnlaunastofa sveitarfélaga

Mannréttindi

""

Borgarráð og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa samþykkt að Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga komi á fót Jafnlaunastofu. Henni er ætlað að veita sveitarfélögum stuðning við að uppfylla ákvæði jafnréttislaga um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf.

Jafnlaunastofa mun einnig veita stjórnendum sveitarfélaga stuðning við að fylgja jafnlaunaákvæðum laga og innleiða og viðhalda jafnlaunavottun.  það verður gert m.a.  með fræðslu  og ráðgjöf á sviði jafnlaunamála.

Sveitarfélögin sýna fordæmi

Samkvæmt glænýrri launarannsókn Hagstofunnar, var óleiðréttur launamunur kynjanna 14,8% á almennum vinnumarkaði, 14,0% hjá ríkisstarfsmönnum og 7,4% meðal starfsfólks sveitarfélaga árið 2019.

Leiðrétti launamunurinn sama ár var 5,4% á almennum vinnumarkaði, 3,4% hjá ríkisstarfsmönnum og 3,1% á meðal starfsfólks sveitarfélaganna. Athygli vekur að sveitarfélögin skera sig úr hvort heldur er í óleiðrétta eða leiðrétta launamuninum. En leiðrétti launamunurinn lækkaði  umtalsvert hjá sveitarfélögunum milli áranna 2015 og 2016, úr 5,1% í 3,2% í kjölfar endurskoðunar á starfsmatskerfi sveitarfélaganna með launajafnrétti að leiðarljósi sem leiddi til hækkunar launa hjá nokkrum hópum auk fjölmennra kvennastétta.

Sérstöðu sveitarfélaganna má m.a. skýra með því að þau hafa undanfarna tvo áratugi byggt laun í sífellt meiri mæli á starfsmatskerfi þar sem kynja og jafnréttissjónarmið eru höfð að leiðarljósi.

Reykjavíkurborg er í forystu hér á landi í baráttunni gegn launamun kynjanna og hefur látið framkvæma launagreiningar allt frá árinu 1995. Þær sýna að leiðréttur launamunur hefur dregist saman úr 21,1% árið 1998 í 1,8% 2020. Á sama tíma hefur óleiðréttur launamunur farið úr 33% í 3,6 % til 6,2% eftir því til hvaða hópa er litið.

Þessi árangur er afrakstur markvissrar vinnu og einlægs ásetnings um að útrýma því misrétti sem í launamuni kynjanna felst. Mikilvægur þáttur í þeirri vegferð hefur verið samstarf Reykjavíkurborgar, sambandsins og stéttarfélaganna um starfsmat þar sem fjárfest hefur verið í innviðum og þekkingu undanfarna áratugi.  

Með Jafnlaunastofu þróa og útvíkka Borgin og sveitarfélögin samstarf á sviði jafnlaunamála sem gerir þeim kleift að gera enn betur í þeirri vegferð að útrýma launamun kynjanna.