Ingibjörg Sigurjónsdóttir er handhafi Guðmunduverðlaunanna
Í tilefni 90 ára afmælis listamannsins Erró þriðjudaginn 19. júlí var sérstök afmælis úthlutun úr Listasjóði Guðmundu í Listasafni Reykjavíkur í dag. Styrkveitingin fór fram við hátíðlega afhöfn kl. 12.30 á afmælisdaginn í Hafnarhúsinu.
Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Ólöf Kristín Sigurðardóttir bauð gesti velkomna og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti styrkinn.
Styrkur úr sjóðnum er veittur framúrskarandi listakonu og er honum ætlað að vera hvatning til frekari dáða á sviði myndlistar. Erró stofnaði Guðmunduverðlaunin árið 1997 til minningar um móðursystur sína, Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. Með því vildi hann leggja sitt af mörkum til framþróunar íslenskrar myndlistar. Þetta er í 23. sinn sem styrkurinn er veittur og er það afar öflugur hópur listkvenna sem fengið hefur viðurkenninguna hingað til.
Handhafi Guðmunduverðlaunanna að þessu sinni er myndlistarkonan Ingibjörg Sigurjónsdóttir
Ingibjörg er fædd í Reykjavík árið 1985. Hún lauk BA gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur tekið þátt í sýningum, gjörningum og öðrum verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Fyrir utan að sýna eigin verk hefur Ingibjörg starfað með öðrum listamönnum bæði að sköpun en einnig sem sýningarstjóri og við texta gerð um myndlist auk þess sem hún er ein af aðstandendum Kling og Bang sem nú starfar í Marshallhúsinu.
Ingibjörg vinnur fjölbreytt myndlistarverk jafnt þrívíða skúlptúra, lágmyndir og rýmisverk sem teikningar og málaðar myndir. Fundinn efniviður sem oft lætur ekki mikið yfir sér er henni hugleikinn. Verk Ingibjargar einkennast af hverfulleika sem endurspeglast í efnisvalinu og ekki síður framsetningu verkanna . Hún teflir oft á tæpasta vað þegar kemur að því að ögra lögmálum stöðugleika og þyngdar þannig að áhorfandinn skynjar að undir býr áhætta um leið og mýkt og næmi einkenna verkin. Umhverfið og hversdagslegur efniviður eru henni uppspretta verka sem leita á dýptina og fjalla jafnt um hverfulleika hins nálæga sem mannlega tilvist í stóru samhengi himintungla sólkerfisins.
„Þessu lýkur öllu, bara mishratt. Allt eyðist og máist út. Nema það sem skemmist og hverfur snögglega. Mig langar að stöðva tímann, hægja á eyðileggingunni.“
Þessi orð Ingibjargar vísa til hverfulleika veraldarinnar en einnig hverfulleika verkanna og eðli listsköpunar. Hún gerir atlögu að því að höndla meintan tómleika og óstöðugt eðli listarinnar endimörk hennar og þanþol.Verk hennar hverfast um þá þunnu línu sem liggur á milli þess að vera ekki neitt neitt og vera allt.
Ingibjörg býr og starfar í Reykjavík og um þessar mundir stendur yfir glæsileg sýning á nýjum verkum eftir hana í Kling og Bang.