Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur voru veitt fyrir leikskólastarf í borginni, í morgun á Degi leikskólans.
Ætlað að ýta undir nýbreytni og þróunarstarf
Þetta er í sextánda sinn sem hvatningarverðlaun fyrir leikskólastarf eru veitt en þeim er ætlað að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer í leikskólum borgarinnar.
Markmið verðlaunanna er að veita starfsfólki jákvæða hvatningu og viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu barna og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.
Hvatningarverðlaunin voru afhent í viðkomandi leikskólum í morgun. Leikskólinn Hálsaskógur hlaut verðlaun fyrir Tilfinningaverkefnið, leikskólinn Klambrar hlaut verðlaun fyrir verkefnið Tónlistaráhugi og svo voru Gullborg, Grandaborg og Ægisborg verlaunuð fyrir samstarfsverkefnið Barnið sem fullgildur þátttakandi í lærdómssamfélagi.
Verkefnin snúa að tónlist, tilfinningum og félagsfærni
Tilfinningaverkefnið í Hálsaskógi leggur áherslu á að vinna með skynúrvinnslu og skynupplifun yngstu barnanna í leikskólanum. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að verkefnið taki með þessu mið af þörfum þeirra á einstaklingsbundinn hátt. Öll börn þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Carolina Schinder hefur leitt verkefnið.
Leikskólinn Klambrar hlaut verðlaun fyrir verkefnið Tónlistaráhugi þar sem áhersla er á að kynna fyrir börnunum tónlist með metnaðarfullu tónlistarstarfi. Börnin eru kynnt fyrir tónfræði, íslenskum dægurlögum og söngvum, hljóðfærum og tónlist á óviðjafnanlegan hátt. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að verkefni fjölgi námstækifærum barna og bæti aðstöðu og þátttöku þeirra í tónlist. Alessandro Cernuzzi hefur leitt verkefnið í Klömbrum.
Leikskólarnir Grandaborg, Gullborg og Ægisborg voru verðlaunuð fyrir verkefnið Barnið sem fullgildur þátttakandi í lærdómssamfélagi. Markmið verkefnisins er að öll börn leikskólana upplifi sig sem fullgilda þátttakendur í lærdómssamfélagi og þau nái að hámarka félagsfærni sína. Einnig að kennarar skerpi á verklagi sem ýtir undir sjálfseflingu barna og félagsauð. Í umsögn um verkefnið segir meðal annars að það samræmist Menntastefnu Reykjavíkur þar sem lögð er rík áhersla á að fagfólk á vettvangi í skóla- og frístundastarfi útfæri stefnuna miðað við aðstæður á hverjum stað, í náinni samvinnu sín á milli, í samstarfi við aðra fagaðila og síðast en ekki síst með virkri þátttöku barna og unglinga.