Haraldur Sigurðsson fær íslensku bókmenntaverðlaunin

Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur hlaut í gær Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita fyrir bókina Samfélag eftir máli. Haraldur er deildarstjóri aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.
Haraldur Sigurðsson, Steinunn Sigurðardóttir, Gunnar Helgason og Rán Flygenring tóku við Íslensku bókmenntaverðlaununum 2023 úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands, er þau voru afhent við hátíðlega athöfn 31. janúar á Bessastöðum í 35. sinn.
Í flokki fræðibóka og rita almenns efnis hlaut Haraldur Sigurðsson verðlaun fyrir bók sína Samfélag eftir máli: Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi. Útgefandi er Sögufélag. Reykjavíkurborg óskar honum innilega til hamingju.
Umsögn dómnefndar
„Samfélag eftir máli er yfirgripsmikið verk um sögu og þróun skipulagsmála á Íslandi, einkum í Reykjavík. Ritið byggir á langri og ítarlegri rannsóknarvinnu höfundar, framsetningin er aðgengileg og textinn einkar lipur. Skipulagsfræðin eru sett í samhengi við hugmyndasögu hvers tíma, svo og atvinnu- og lýðræðisþróun, einkum á vesturlöndum, og vísanir í íslenskar og alþjóðlegar bókmenntir og listir þétta verkið og gefa því breiðari skírskotun. Höfundur segir hlutlægt frá, en er gagnrýninn á stefnur og strauma og minnir lesendur oft á að engin algild sannindi eru til í þessum fræðum. Samfélag eftir máli er afar áhugaverð bók um manngert umhverfi okkar, sem skiptir sköpum fyrir samfélagsþróunina, umhverfismál og persónulega líðan okkar allra. Hún á erindi jafnt til fagfólks og almennings, er fagurlega hönnuð og ljóst að hugað er að umhverfisþáttum við gerð hennar,“ segir í umsögn dómnefndar.