Haraldur Sigurðsson fær íslensku bókmenntaverðlaunin

Haraldur Sigurðsson

Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur hlaut í gær Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita fyrir bókina Samfélag eftir máli. Haraldur er deildarstjóri aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. 

Har­ald­ur Sig­urðsson, Stein­unn Sig­urðardótt­ir, Gunn­ar Helga­son og Rán Flygenring tóku við Íslensku bók­mennta­verðlaununum 2023 úr hendi Guðna Th. Jó­hann­es­son­ar for­seta Íslands, er þau voru af­hent við hátíðlega at­höfn 31. janúar á Bessa­stöðum í 35. sinn.

Í flokki fræðibóka og rita almenns efnis hlaut Haraldur Sigurðsson verðlaun fyrir bók sína Samfélag eftir máli: Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi. Útgefandi er Sögufélag. Reykjavíkurborg óskar honum innilega til hamingju. 

Umsögn dómnefndar

„Samfélag eftir máli er yfirgripsmikið verk um sögu og þróun skipulagsmála á Íslandi, einkum í Reykjavík. Ritið byggir á langri og ítarlegri rannsóknarvinnu höfundar, framsetningin er aðgengileg og textinn einkar lipur. Skipulagsfræðin eru sett í samhengi við hugmyndasögu hvers tíma, svo og atvinnu- og lýðræðisþróun, einkum á vesturlöndum, og vísanir í íslenskar og alþjóðlegar bókmenntir og listir þétta verkið og gefa því breiðari skírskotun. Höfundur segir hlutlægt frá, en er gagnrýninn á stefnur og strauma og minnir lesendur oft á að engin algild sannindi eru til í þessum fræðum. Samfélag eftir máli er afar áhugaverð bók um manngert umhverfi okkar, sem skiptir sköpum fyrir samfélagsþróunina, umhverfismál og persónulega líðan okkar allra. Hún á erindi jafnt til fagfólks og almennings, er fagurlega hönnuð og ljóst að hugað er að umhverfisþáttum við gerð hennar,“ segir í umsögn dómnefndar.