Hækkun á styrk svifryks vegna sandfoks frá hálendinu og möguleg gosmóða síðar í dag

Heilbrigðiseftirlit

Svifryk

Styrkur svifryks (PM10) var hár á nokkrum mælistöðvum í borginni í morgun, 14. júní. Skv. upplýsingum frá Veðurstofu Íslands orsakast hækkuð gildi af foksandi frá hálendinu og getur rykið legið yfir höfuðborgarsvæðinu í dag. Hægur vindur er í borginni, vindhraði aðeins um 2 m/s skv. vef Veðurstofu Íslands. Skv. Veðurstofunni er einnig von á gosmóðu þegar líða fer á daginn.

Í ljósi ofangreinds mælist Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur til þess að þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu utandyra ef gildi svifryks eru há. Mikilvægt er að fylgjast með gildum á  loftgæði.is en þar má sjá svifryksmælingar í rauntíma. Spá fyrir gasdreifingu má finna á vef Veðurstofunnar, https://www.vedur.is/eldfjoll/eldgos-a-reykjanesi/gasmengun/

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu. 

Loftgæðavefur Umhverfisstofnunar metur loftgæði með litakóða frá mjög góðu í óholl. 

Mæling

Skýring:

Mjög góð = Lítil sem engin loftmengun. Líklega engin heilsufarsleg áhrif.

Góð = Lítilsháttar loftmengun. Lítil sem engin heilsufarsleg áhrif.

Sæmileg = Nokkur loftmengun. Mjög viðkvæmir einstaklingar og einstaklingar með astma eða aðra undirliggjandi lungna- og/eða hjartasjúkdóma geta fundið fyrir einkennum vegna aukins styrks loftmengunarefna í andrúmslofti.