Gott og virkt eftirlit á vefsvæðum borgarinnar 

""

Reykjavíkurborg hefur unnið markvisst að því að aftengja Google Analytics af öllum vefsvæðum borgarinnar síðastliðin tvö ár. Aðgerðirnar eru liður í stafrænni vegferð borgarinnar sem hefur það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa. 

„Vefsvæði Reykjavíkurborgar inniheldur engar vefkökur eða skráningarbúnað frá öðrum en vefdeild borgarinnar og er það í samræmi við stefnur borgarinnar. Með þessu móti er tryggt að farið sé að íslenskum lögum,“ segir Ólafur Sólimann Helgason, deildarstjóri vefdeildar hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar. Að undanförnu hefur skapast umræða um notkun Google Analytics hjá stofnunum og fyrirtækjum. Neytendasamtökin hafa í því skyni skorað á Persónuvernd að banna notkun þess hér á landi og fara þannig að fordæmi nokkurra Evrópuríkja. 

Mikilvægt fyrir vefþróun og snjallvæðingu

Google Analytics hefur verið leyst af hólmi á vefsvæðum Reykjavíkurborgar með vefgreiningartólinu Siteimprove. „Með þessari viðbót getum við nálgast mælikvarða yfir gæði vefsvæða, aðgengismál, leitarvélabestun og vefgreiningu innan ramma laganna um persónuvernd. Lagalegur rammi var einmitt veigamikill þáttur í því að undirbúa vefsvæðin fyrir stafræna vegferð og varð danska fyrirtækið Siteimprove fyrir valinu en þar er lögð höfuðáhersla á að persónuverndarlöggjöf sé fylgt eftir í hvívetna. Lausnin hefur gefið góða raun og er til dæmis fjöldi opinberra aðila á Norðurlöndum sem nýtir sér hana.“  

 Ólafur segir enn fremur að samhliða stafrænni vegferð hafi vefdeild sett aukinn þunga í vefgreiningu og viðhald vefsvæða. „Í dag er vefgreining gríðarlega mikilvæg fyrir allar umbætur og ítranir á vefsvæðum okkar og undirstaða ákvarðanatöku á mörgum sviðum. Sú framsýni sem Reykjavíkurborg sýndi með því að leggja af stað í stafræna umbreytingu fyrir nokkrum árum hefur einnig gert okkur kleift að undirbúa rafræna þjónustu á öruggan hátt þar sem stefnumótun er byggð á gögnum.“ 

Fram hefur komið í yfirlýsingu frá Persónuvernd að formlegrar afstöðu um notkun Google Analytics sé að vænta.