Hjólandi umferð ber skylda samkvæmt lögum að víkja fyrir gangandi fólki á blönduðum stíg. Þar sem sérstakur hjólastígur er ekki til staðar ber hjólafólki að fara um stígana á forsendum gangandi.
Stígakerfi borgarinnar samanstendur af þrenns konar stígum auk hefðbundinna gangstétta, það er gangstígum, hjólreiðastígum og sameiginlegum gang- og hjólreiðastígum.
Lína á stíg gildir ekki lengur
Fyrir þónokkrum árum var gerð tilraun til að skipta gangandi og hjólandi umferð með línu á stíg. Langt er síðan þessi regla var afnumin og eru það skiltin við stígana sem sýna um hvernig stíg er að ræða. Sumstaðar var línan fræst í burtu en annars staðar hefur hún verið látin eyðast með tímanum.
Hjólandi ber skylda samkvæmt lögum að víkja fyrir gangandi á blönduðum stíg. Þá skiptir engu hvar gangandi staðsetur sig á stígnum. Sé pláss svo takmarkað á stígum að hjólreiðamaður komist ekki framhjá skal hann ávallt á vinsamlegan hátt, með bjöllu eða léttu kalli, láta vita af sér og gefa fólki tækifæri til að stíga til hliðar ef þarf. Fólk þarf að sýna hverju öðru tillitssemi og skilning.
Hraði hjóla á gangstígum er takmörkunum háður
Allir vegfarendur þurfa að sýna gagnkvæma tillitssemi á stígum rétt eins og almennt í umferðinni. Ef hjólað er á gangstíg þar sem sérstakur hjólastígur er samhliða gangstígnum skal ekki hjóla hraðar en sem nemur gönguhraða. Þegar hjólað er á sameiginlegum stíg, þá er öll umferð á forsendum gangandi. Við þær aðstæður ber hjólum að víkja. Þannig að jafnvel á blönduðum stíg geta þeir sem hjóla þurft að hægja á sér, allt niður í gönguhraða til dæmis ef það er mikil umferð gangandi vegfarenda á stígnum.
Þar sem skilti eru uppi sem sýna línu á milli gangandi og hjólandi eru gangandi og hjólandi vegfarendur aðskildir. Þessi skilti eru aðeins sett upp í dag í þeim tilvikum sem hægt er að halda fullum aðskilnaði á milli ferðamátanna.
Þá gildir hægri reglan á hjólastígum en það er engin sérstök regla sem gildir þegar umferð er blönduð á stígum. Samkvæmt hefðum er þó gott að halda sig hægra megin til að umferð gangi betur fyrir sig.
Forsaga línunnar
Þegar hjólamenningin hófst í Reykjavík var ákveðið að skipta þessum hefðbundnu þriggja metra breiðu stígum á milli gangandi og hjólandi með málaðri línu, (2+1 leiðinni) þar sem gangandi fengu tvo metra og hjól einn metra. Með verulegri aukningu hjólandi og gangandi er orðið ljóst að plássið á stígunum dugar ekki lengur.
Þessi lína á blönduðum stígum var á sínum tíma leið borgaryfirvalda til að gefa báðum ferðamátum sér pláss á stígunum. Sú lausn er ekki lengur við hæfi þar umferð gangandi og hjólandi hefur aukist mjög mikið síðasta áratug. Það pláss sem er á sameiginlegum stígum dugar því ekki lengur til að skilja að þessa tvo ferðamáta.
Mælirinn við Hörpu var ekki alltaf í gangi 2019, þannig að samanburðurinn er ekki áreiðanlegur.
Göngustígunum skilað aftur til gangandi vegfarenda
Í hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar er það eitt af helstu markmiðunum að aðskilja gangandi og hjólandi umferð á öllum meginstofnleiðum Reykjavíkurborgar og mun svo einnig verða á höfuðborgarsvæðinu öllu með tímanum. Með tvöföldun kerfisins er verið að skila göngustígunum aftur til gangandi vegfarenda.
Í gegnum tíðina hefur það verið þannig að bættum innviðum hefur alltaf fylgt meiri eftirspurn og hefur hjólreiðafólki fjölgað stöðugt undanfarin ár. Í mars og apríl var mikil aukning á milli ára meðal hjólandi og gangandi en fólk hefur nýtt útivistarsvæði borgarinnar vel í samkomubanni.
Nauðsynlegt er að taka tillit til annarrar umferðar á stígunum, ekki síst á háannatímum að morgni og síðdegis virka daga, rétt eins og þarf að gera í almennri bílaumferð.
Hröð hjólaumferð hefur valdið ákveðnum núningi á blönduðum stígum, til dæmis í Elliðaárdal ofan stíflu. Þar hefur ríkt misskilningur um að fyrrnefnd aðskilnaðarlína sé í gildi, þó hún sjáist ekki lengur og stígurinn sé merktur sem blandaður stígur þar sem umferð er á forsendum gangandi.
Þetta stendur til bóta á svæðinu með nýjum hjólastíg Breiðholtsmegin. Fyrirhugað er á næstu árum að tvöfalda í áföngum hjólastíginn frá stíflubrúnni upp að mörkum Kópavogs og Reykjavíkur við Breiðholtsbraut.
Metnaðarfull uppbygging hjólastíga framundan
Framundan er mikil uppbygging hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga. Hér er hægt að lesa meira um samgöngusáttmálann.
Í nýjum umferðarlögum er töluverð umfjöllun um gangandi og hjólandi vegfarendur og hvaða reglum ber að fylgja. Er í þessu samhengi sérstaklega bent á 42. grein laganna fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur.