Færri slagsmál og aukið öryggi á skemmtistöðum

Mannréttindi

""

Töluverður árangur hefur orðið af verkefninu öruggir og ofbeldislausir skemmtistaðir sem Reykjavíkurborg, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Samtök ferðaþjónustunnar standa að. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir ofbeldisbrotum sem eru tilkynnt inni á skemmtistöðum, sem eru aðilar að samkomulaginu, hafi fækkað og vísbendingar séu um að brot verði færri árið 2019 miðað við árin 2016 – 2018.

Reykjavíkurborg, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Samtök ferðaþjónustunnar sem standa að verkefninu um örugga og ofbeldislausa skemmtistaði komu saman til fundar síðastliðna viku og ræddu um árangur verkefnisins.

Verkefnið miðar að því að auka öryggi á skemmtistöðum og fyrirbyggja allt mögulegt ofbeldi fyrir gesti og starfsfólk í hvaða mynd sem er, þ.m.t. kynbundin og kynferðisleg áreitni, vændi og mansal, sem og ofbeldi sem byggist t.d. á fordómum eða hatri, svo sem í garð innflytjenda eða hinsegin fólks.

Á fundi aðila í síðustu viku kom fram að töluverður árangur hafi orðið af verkefninu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir ofbeldisbrotum sem eru tilkynnt inni á skemmtistöðum, sem eru aðilar að samkomulaginu, hafi fækkað og vísbendingar séu um að brot verði færri árið 2019 miðað við árin 2016 – 2018. Þá eru samskipti milli dyravarða staðanna og lögreglu orðin mun betri en áður vegna samkomulagsins. Þá fer lögregla oftar í eftirlit á skemmtistöðunum sem eiga aðild að verkefninu.

,,Samskiptin eru orðin faglegri og betri milli lögreglu og dyravarða með tilkomu þessa samkomulags. Fólk er farið að þekkjast betur eftir að samkomulagið fór í gang. Mikill munur er á fagmennsku dyravarða sem hafa farið í gegnum dyravarðanámskeið og þeirra sem hafa ekki farið á námskeið, ‘‘ segir Helgi Már Tulinius hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Verkefninu var hleypt af stokkunum árið 2016 með það að markmiði að fólk geti notið öryggis á skemmtistöðunum í borginni. 17 skemmtistaðir orðnir aðilar að samkomulaginu um örugga skemmtistaði, en það eru: American Bar, Bar Ananas, Bjarni Fel, B5, Bravó, Danski barinn, Dillon, Gamla bíó og Petersen svítan, Gullhamrar í Grafarholti, English pub, Hressó, Húrra, Íslenski barinn, Kaffibarinn, Kofi Tómasar frænda, Prikið og Ölstofa Kormáks og Skjaldar.

Þegar skemmtistaðir óska eftir þátttöku í verkefninu fer teymi frá Reykjavíkurborg, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í heimsókn á staðinn, kannar hvort staðurinn mæti þeim skilyrðum sem eru sett fram í samkomulaginu um örugga skemmtistaði og starfsfólk fær upplýsingar. Límmiðar með upplýsingum um að skemmtistaðurinn taki þátt í verkefninu eru afhentir og skulu þeir límdir upp á sýnilegum stöðum fyrir gesti staðarins. Dyraverðir fá þar að auki armbönd merkt verkefninu.

Ef einhverjar ábendingar koma fram um atriði sem þörf er á að laga fer teymið í aðra heimsókn á staðinn að þremur mánuðum liðnum.

Skemmtistaðir sem vilja óska eftir aðild að verkefninu geta sent tölvupóst á netfangið oryggi@reykjavik.is