
„Þetta er framsækið verkefni þar sem við ætlum að tryggja líffræðilega fjölbreytni í borginni með verndunaraðgerðum, rannsóknum, vöktun og fræðslu. Það er heilmikil náttúra í Reykjavík þannig að við þurfum að passa okkur á öllum skipulagsstigum til að líffræðileg fjölbreytni sé í forgangi," segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. „Vistkerfið í Reykjavík er fjölbreytt, hvort sem maður horfir á Vatnsmýrina, leirurnar, garðana eða árnar – hér iðar allt af lífi. Líffræðileg fjölbreytni er líka mikilvæg í samhengi loftslagsbreytinga, bæði í bindingu kolefnis og aðlögunar gegn loftslagsbreytingum,“ segir Dagur.
Borgin virkur þátttakandi
Hið byggða umhverfi er einnig auðugt af lífi og borgarbúar eru í daglegu samneyti við lífverur til dæmis syngjandi garðfugla. Þá skiptir návist við gróskumikinn og skjólveitandi gróður borgarbúa miklu máli.
Líffræðileg fjölbreytni á undir högg að sækja á heimsvísu, því miður að miklu leyti vegna umsvifa mannsins en athafnir hans hafa beint eða óbeint valdið eyðingu búsvæða, hnignun vistkerfa og útdauða tegunda. Sífellt meiri vilji er meðal almennings og stjórnvalda til að hlúa að og vernda lífverur og umhverfi þeirra. Borgir víða um heim eru í fararbroddi í þeirri vegferð og með nýrri stefnu mun Reykjavík verða virkur þátttakandi í þessu starfi.
Endurheimt votlendis lykilverkefni
Fjölmörg verkefni eru framundan til að vernda og efla líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík, meðal annars að:
- Draga úr neikvæðum áhrifum á líffræðilega fjölbreytni í rekstri og starfsemi borgarinnar.
- Huga að mikilvægi og velferð líffræðilegrar fjölbreytni við skipulag borgarinnar, bæði þéttbýlis og opinna svæða.
- Skilgreina möguleg áhrif loftslagsbreytinga á líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík.
- Skilgreina ágengar tegundir í Reykjavík og kortleggja útbreiðslu þeirra.
- Hvetja til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs.