Reykjavíkurborg þjónustar fleiri hælisleitendur

Stjórnsýsla Velferð

""

Reykjavíkurborg hefur gert nýjan samning við Útlendingastofnun um þjónustu við hælisleitendur. Samkvæmt samningnum mun Reykjavíkurborg þjónusta allt að 90 hælisleitendur. Í fyrsta skipti mun Reykjavíkurborg þjónusta fjölskyldur úr hópi hælisleitenda en hingað til hefur borgin aðeins þjónustað einstaklinga.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Kristín Völundardóttir, framkvæmdastjóri Útlendingastofnunar undirrituðu samninginn í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun, miðvikudag 14. október.

Reykjavíkurborg tekur að sér að veita allt að 90 hælisleitendum þjónustu og búsetuúrræði í senn. Borgin skuldbindur sig ennfremur til að taka bæði við einstaklingum og allt að fimm fjölskyldum.

Samningurinn er sveigjanlegur upp að ákveðnu marki og getur Útlendingastofnun farið fram á það við Reykjavíkurborg að búsetuúrræðum verði fjölgað tímabundið. Greitt er daggjald að upphæð 7.500 kr fyrir hvern hælisleitanda og árlegt fastagjald fyrir þjónustuna sem nemur 11.550 milljónum króna til að standa straum af launa- og rekstrarkostnaði.

Samkvæmt upplýsingum frá Önnu Kristinsdóttur mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar búa allir hælisleitendur sem Reykjavíkurborg þjónustar í leiguhúsnæði á almennum markaði og eru ekki í íbúðum Félagsbústaða.

Enn fremur hefur Reykjavíkurborg boðist til að taka á móti hópi flóttamanna og bíður eftir svari frá velferðarráðuneytinu varðandi það hvenær af því getur orðið.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar sér um þjónustu við hælisleitendur. Öll börn sem dvelja á vegum Reykjavíkurborgar fá þjónustu í leik- og grunnskólum.

Samningurinn gildir til 31.desember 2016.

 

Samningur Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar um þjónustu við hælisleitendur 

 

1. gr.

Samningsaðilar

Útlendingastofnun, Skógarhlíð 6, 105 Reykjavík, kt. 670269-6399 og Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík, kt.530269-7609 (hér eftir nefnd þjónustuaðili).

2. gr.

Markmið

Samningurinn er liður í hlutverki stjórnvalda að tryggja þjónustu við hælisleitendur á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og tryggja látlaus og fullnægjandi búsetuúrræði.

Þörf er fyrir sveigjanlegt móttökukerfi hælisleitenda sem felur í sér að á samningstíma getur reynst nauðsynlegt að breyta samningnum þannig að dregið sé úr ákveðnum þáttum þjónustunnar eða þeir styrktir. Í viðauka við samning þennan er nánar kveðið á um hvaða þjónustu skal veita. Viðaukinn getur tekið breytingum á grundvelli sameiginlegra ákvörðunar Útlendingastofnunar og þjónustuaðila.

3. gr.

Fjöldi búsetuúrræða

Þjónustuaðili tekur að sér veita allt að 90 hælisleitendum þjónustu og búsetuúrræði í senn. Á gildistíma samningsins tekur þjónustuaðili við bæði einstaklingum og a.m.k. 5 fjölskyldum. Skulu 70 búsetuúrræði af 90 vera föst og húsnæðiskostnaður skv. leigusamningi greiddur óháð því hvort þau eru nýtt eða ekki. Fyrir hin 20 skal greitt í samræmi við nýtingu þeirra. Fari fjöldi hælisleitenda yfir 70 einstaklinga í senn leggst 8% álag á daggjald þeirra einstaklinga sbr. 1. mgr. 4. gr.

Verði skyndileg aukning á fjölda hælisleitenda á Íslandi getur Útlendingastofnun farið fram á það við þjónustuaðila að fjölga búsetuúrræðum tímabundið. Skal þá gerður tímabundinn viðauki þess efnis enda fari um greiðsluskyldu Útlendingastofnunar með sama hætti og kveðið er á um í samningi þessum.

4. gr.

Greiðslur

Fyrir þjónustu sem veitt er á grundvelli samnings þessa greiðist daggjald að upphæð 7.500 kr. fyrir hvern hælisleitanda, þar af er áætlað að 65% upphæðarinnar sé vegna fasts kostnaðar sem greiðist óháð nýtingu, samanber 3. gr.

Þá greiðir Útlendingastofnun þjónustuaðila árlegt fastagjald fyrir þjónustuna og nemur það 11.550 m.kr. Fastagjaldinu er ætlað að standa straum af launa- og rekstrarkostnaði, samanber 6. mgr. 7. gr.

Fjárhæðir daggjalds og fastagjalds eru háðar breytingu á neysluverðsvísitölu. Grunnvísitala miðast við vísitölu neysluverðs í október 2013, sem er 415,2 stig.

Greiðslur samkvæmt samningi þessum skulu inntar af hendi mánaðarlega samkvæmt reikningi frá þjónustuaðila. Á reikningi þjónustuaðila skal sundurgreina kostnað vegna einstaklinga í þjónustu og vegna fastagjaldsins, sem greitt er mánaðarlegt hlutfall af. Með reikningi skal fylgja yfirlit yfir þá sem notið hafa þjónustu á reikningstímabilinu og fjölda dvalardaga í mánuði. Önnur þjónusta en sú sem snýr að húsnæði er greidd miðað við fjölda hælisleitenda á hverjum tíma.

5. gr.

Þjónusta

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar veitir þjónustu fyrir hönd þjónustuaðila.

Innifalið í daggjaldi samningsaðila er gisting og fæði hælisleitanda miðað við sólarhringsdvöl, aðgangur að almennri heilsugæslu auk annarrar umsaminnar þjónustu samkvæmt viðauka við samning þennan.

Við veitingu þjónustu á grundvelli samningsins skal höfð hliðsjón af lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem snýr að félagslegri ráðgjöf.

6. gr.

Hlutverk og skyldur Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun greinir hælisleitanda frá þeim réttindum og skyldum sem felast í því að njóta þjónustu þjónustuaðila og kynnir honum umgengisreglur og hvaða afleiðingar það geti haft að brjóta gegn þeim reglum.

Útlendingastofnun tekur skriflega ákvörðun og sendir þjónustuaðila, þegar hælisleitandi skal njóta þjónustu samkvæmt samningi þessum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar skulu fylgja grunnpersónuupplýsingar um hælisleitandann til að tryggja að þjónustuaðili geti þjónustað hann samkvæmt samningi þessum auk upplýsinga um tungumálakunnáttu hans og sérþarfir ef einhverjar eru.

Útlendingastofnun tekur skriflega ákvörðun um lok þjónustu og tilkynnir þjónustuaðila og hælisleitendum.

Útlendingastofnun tryggir að starfsmenn þjónustuaðila fái fræðslu og leiðbeiningar um þjónustu við hælisleitendur. Þjónustuaðili getur óskað eftir fræðslu og leiðbeiningum frá Útlendingastofnun eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

7. gr.

Hlutverk og skyldur þjónustuaðila

Þjónustuaðili tekur við þeim hælisleitendum sem Útlendingastofnun ákveður að skuli njóta þjónustu samkvæmt samningnum í samræmi við skilyrði 3. gr. samnings þessa. Þjónustuaðili skal þjónusta hælisleitanda þar til Útlendingastofnun tilkynnir að viðkomandi skuli ekki lengur njóta þjónustunnar.

Þjónustuaðili veitir þjónustu samkvæmt samningi þessum, viðauka við hann og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eftir því sem við á, með þeirri undantekningu að þjónustuaðili gætir ekki hagsmuna hælisleitanda gagnvart stjórnvöldum vegna meðferðar umsóknar um hæli.

Þjónustuaðili afhendir hælisleitendum innkaupakort við upphaf þjónustu og leggur vikulega inn fyrirfram ákveðna fjárhæð þar til þjónustu lýkur eða Útlendingastofnun ákveður annað. Standi þjónusta lengur en í fjórar vikur, greiðir þjónustuaðili hælisleitanda vasapeninga vikulega eftir það tímamark. Kveðið er á um fjárhæðir og nánara fyrirkomulag í viðauka.

Þjónustuaðila er óheimilt að skerða þjónustu við hælisleitanda nema samkvæmt skriflegum fyrirmælum frá Útlendingastofnun.

Þjónustuaðili skal tilkynna tengilið hjá Útlendingastofnun samkvæmt 9. gr. samnings þessa skriflega um vandamál sem kunna að koma upp varðandi þjónustu við hælisleitanda, s.s. kvartanir hans eða annarra, hegðunarvandamál eða brot á lögum eða reglum, þ.m.t.  umgengisreglum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. samningsins. Þjónustuaðili skal tilkynna Útlendingastofnun skriflega, um leið og ljóst er að hælisleitandi nýtir ekki búsetuúrræði.

Starfsfólk þjónustuaðila skal hafa þá menntun og þekkingu sem til þarf til að sinna þjónustuskyldum samkvæmt ákvæðum samnings þessa og viðauka. Þjónustuaðili tryggir að fjöldi starfsmanna sem veitir hælisleitendum þjónustu sé til samræmis við skyldur hans samkvæmt samningnum, viðauka og fjárhagsramma hans. Þjónustuaðili ber ábyrgð á og tryggir að húsnæði hælisleitanda sé samþykkt íbúðarhúsnæði og að þar sé fullnægjandi húsbúnaður við hæfi, samanber viðauka.

Þjónustuaðili skal gefa út skýrslu í mars árlega, þar sem fram koma upplýsingar um nýtingu búsetuúrræða, yfirlit yfir veitta þjónustu í samræmi við 5. gr. samningsins og viðauka, sundurliðaðan kostnað ásamt ópersónugreinanlegri samantekt á framkomnum vandamálum og lausnum vegna búsetuúrræða og þjónustu.

Þjónustuaðili skal í störfum sínum fara eftir lögum og reglugerðum er varða persónuvernd. Þjónustuaðili gætir þess í störfum sínum að sýna hælisleitendum virðingu og kurteisi og tekur tillit til þess að þeir geta verið í viðkvæmri stöðu.

8. gr.

Eftirlit

Útlendingastofnun hefur eftirlit með framkvæmd þjónustu á grundvelli samnings þessa og sinnir því meðal annars með vettvangsferðum.

Samkvæmt samningi innanríkisráðuneytisins og Rauða krossins á Íslandi, dags. 23. apríl 2013, gerir Rauði krossinn mat á aðbúnaði hælisleitenda og á reglulega fundi með þjónustuaðilum. Mati Rauða krossins er komið á framfæri við þjónustuaðila og Útlendingastofnun í formi ábendinga, athugasemda og skýrslna. Skal þjónustuaðili veita Rauða krossinum aðgengi og aðstoð til að þeim samningsskyldum sé fullnægt, sé farið fram á það skriflega og með sanngjörnum fyrirvara.

9. gr.

Samráðsvettvangur

Samningsaðilar skulu tilnefna einn tengilið hvor til að sinna samráði um þjónustu á grundvelli samnings þessa. Samningsaðilar halda reglulega samráðsfundi um þjónustuna.

Útlendingastofnun boðar alla þjónustuaðila til fundar á gildistíma samningsins þar sem samráð skal haft um þjónustu og framgang hennar.

10. gr.

Meðferð ágreinings, vanefndir og riftun

Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun samnings þessa skulu samningsaðilar leitast við að leysa slík mál sín á milli án atbeina dómstóla. Séu vanefndir samningsaðila verulegar eða ekki náist að leysa úr ágreiningi er heimilt að rifta samningnum með þriggja mánaða fyrirvara.

Mál vegna samnings þessa skal rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

11. gr.

Gildistími og endurskoðunarákvæði

Samningur þessi gildir frá 1. september 2015 til 31. desember 2016. Þremur mánuðum fyrir samningslok skulu samningsaðilar í sameiningu meta árangur og framhald samningssambands með tilliti til þess hvort samið verði um framhald þjónustunnar.

Verði breytingar á gildandi lögum, reglum eða fyrirkomulagi er varða þjónustu við hælisleitendur skal samningur þessi og viðauki hans endurskoðaður. Hafi breytingarnar áhrif á kostnað þjónustuaðila verða fjárframlög samkvæmt samningnum endurskoðuð í samræmi við það.

Reykjavík, 14. október 2015,

                                                                                                            

 

Viðauki I um þjónustu við hælisleitendur

samkvæmt samningi Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar

 

I. Húsnæði

Þjónustuaðili sér hælisleitendum fyrir samþykktu íbúðarhúsnæði ásamt húsbúnaði. Til húsbúnaðar teljast þeir munir sem nauðsynlegir eru til að halda látlaust heimili með þeim hætti sem almennt gerist. Heimilt er að samnýta húsnæði fyrir fleiri en einn hælisleitanda. Stærð húsnæðis skal taka mið af fjölskyldugerð og aðstæðum hælisleitenda.

Þjónustuaðili leggur til efni og tæki til ræstingar á húsnæðinu við komu hælisleitenda en í framhaldinu sér hann sjálfur um innkaup á hreinlætisvörum og er gert ráð fyrir kostnaði vegna þess í framfærslu.

II. Framfærsla

Þjónustuaðili greiðir hælisleitanda framfærslueyri á meðan hann nýtur þjónustu sveitarfélagsins, samkvæmt samningi við Útlendingastofnun. Hælisleitandi sér sjálfur um innkaup og matseld. Til framfærslu heyra matvörur, hreinlætisvörur o.fl. Þjónustuaðili greiðir fyrir húsnæði, rafmagn og hita.

Greiðsla framfærslueyris er tvíþætt. Annars vegar í formi innkaupakorts og hins vegar í formi vasapeninga. Þjónustuaðili leggur inn á innkaupakort einu sinni í viku á tilteknum vikudegi. Hjá einstaklingi er upphæðin 8.000 kr. á viku og hjá pörum/hjónum er upphæðin 13.000 kr. á viku. Hér að neðan er tafla sem sýnir dæmi um fjárhæðir eftir fjölskyldustærðum.

Fjölskyldustærð

Upphæð í krónum

Einstaklingur

8.000

Tveir í fjölskyldu

8.000 + 5.000 = 13.000

Þrír í fjölskyldu

8.000 + 5.000 + 5.000 = 18.000

Fjórir í fjölskyldu

8.000 + 5.000 + 5.000 + 5.000 = 23.000

 

Vasapeningar skulu afhentir hælisleitendum eftir fjögurra vikna dvöl í þjónustu, einu sinni í viku eftir það tímamark. Hver hælisleitandi skal fá 2.700 kr. í vasapening á viku. Ákveði Útlendingastofnun að skerða vasapeninga vegna brots á umgengisreglum skal þjónustuaðili tilkynna hælisleitanda um þá ákvörðun.

Rauði krossinn tryggir hælisleitendum reglulega og endurgjaldslausa fataúthlutun í samstarfi við þjónustuaðila. Ef ekki tekst að útvega hælisleitendum undirföt og vetrarskó skal þjónustuaðili tryggja þeim þær nauðsynjar.

III. Heilbrigðisþjónusta og lyfjakostnaður

Innifalið í daggjaldi til þjónustuaðila er læknisskoðun við komu[1], almenn heilbrigðisþjónusta hælisleitanda og lyfjakostnaður sem af henni kann að leiða sem og mæðra- og ungbarnaeftirlit, ef til kemur. Þjónustuaðili skal tafarlaust tryggja að barnshafandi konur fái aðgang að mæðraeftirliti. Hælisleitendum skal einnig standa til boða að leita meðferðar hjá félagsráðgjöfum, geðlæknum eða sálfræðingum, m.a. með tilliti til áfallastreituröskunar eða annarra erfiðleika sem þeir kunna að hafa orðið fyrir.

Önnur læknisþjónusta utan þess sem að ofan greinir er ekki inninfalin í daggjaldi. Sú þjónusta er ekki veitt nema að undangengu mati trúnaðarlæknis Útlendingastofnunar á nauðsyn þjónustunnar.

Heilbrigðiskostnaður vegna bráðaþjónustu er greiddur í samræmi við reglugerð nr. 1101/2012 um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir. Hér undir falla t.a.m. fæðingar og fæðingaraðstoð og bráðainnlagnir á sjúkrahús. Hælisleitendur bera sjálfir annan heilbrigðis- og lyfjakostnað.

Komi upp vafamál um veitingu þjónustu skal þjónustuaðili hafa samráð við tengilið hjá Útlendingastofnun samkvæmt 9. gr. samningsins.

IV. Ráðgjöf

Þjónustuaðili býður hælisleitendum upp á reglubundna viðtalstíma þar sem veitt er félagsleg ráðgjöf og stuðningur með hliðsjón af lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

V. Samgöngur

Þjónustuaðili tryggir hælisleitendum gjaldfrjálsan aðgang að almenningssamgöngum til að komast í þjónustu samkvæmt viðauka þessum eða aðra þjónustu sem talin er nauðsynleg að mati Útlendingastofnunar eða þjónustuaðila.

VI. Túlkaþjónusta

Þjónustuaðili skal sjá til þess að hælisleitendur fái notið þjónustu túlks eftir því sem við á. Þjónustuaðili metur hvort þörf sé á þjónustu túlks. Þjónustan getur eftir atvikum farið fram á staðnum eða með nýtingu tækni, t.d. myndsíma. Tryggja skal að börn hælisleitenda séu ekki túlkar.

VII. Tómstundir og fullorðinsfræðsla

Þjónustuaðili leitast við að bjóða hælisleitendum tækifæri til að kynnast íbúum og staðháttum í sveitarfélaginu og afla sér þekkingar á íslensku samfélagi meðan á málsmeðferð stendur. Bjóða skal hælisleitendum uppá íslenskukennslu á meðan þeir eru í þjónustu sveitarfélagsins og upplýsa þá um afþreyingu sem stendur til boða í nærsamfélaginu.

Þjónustuaðili tryggir hælisleitendum internetaðgang til að auðvelda samskipti þeirra við aðstandendur í heimalandi, til upplýsingaöflunar og í fræðsluskyni. Þjónustuaðili ákveður fyrirkomulag þjónustunnar.

Æskilegt er að hælisleitendum standi til boða sundkort á vegum þjónustuaðila sem og bókasafnskort.

VIII. Samstarf

Útlendingastofnun heldur reglubundna fundi með þjónustuaðila vegna umfjöllunar um einstök mál og til samræmingar á úrræðum og úrlausnum mála. Báðir samningsaðilar geta óskað eftir slíkum fundum.

Útlendingastofnun kallar árlega alla þjónustuaðila í málefnum hælisleitenda á sameiginlegan fund til að fara yfir samstarf og þróun í málaflokknum. Þjónustuaðili tekur þátt í slíkum fundi á gildistíma samningsins.

 

Reykjavík, 14. október 2015,

                                                                                                                  


[1] Þjónustuaðili tryggir hælisleitendum læknisskoðun við komu, þar til greiningar- og móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur tekur til starfa á vegum Útlendingastofnunar. Stefnt er að því að það verði innan eins árs frá undirritun samnings þessa.