Fjölmenning og inngilding

Teikning af fjórum andlitum fólks.

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar má finna kafla um uppruna og þjóðerni.

Verkefni mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu sem snúa að málefnum innflytjenda, fólks í leit að alþjóðlegri vernd, og flóttafólks má nálgast í aðgerðaráætlun í mannréttinda- og lýðræðismálum 2019 til og með 2022.

Reykjavík er fjölmenningarsamfélag  

Nútíma samfélag í Reykjavík er í stöðugri þróun og er sífellt að verða fjölbreyttari meðal annars með tilliti til uppruna, þjóðernis, trúar- og lífsskoðana. Fólk flytur meira á milli landa vegna aukinnar alþjóðavæðingar en yfir 20% íbúa Reykjavíkur eru af erlendum uppruna. 

Fjölmenningarlegt samfélag kallar á breyttar áherslur á flestum sviðum samfélagsins. Grundvallaratriði fyrir fjölmenningsamfélög eru: virðing fyrir fjölbreytileika, jafnrétti og innihaldsrík fjölmenningarleg samskipti. 

Fjölmenningarráð

Fjölmenningarráð er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru innflytjendur. Ráðið stuðlar að upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök innflytjenda, mótar stefnur og gerir tillögur til borgarráðs sem varðar verksvið þess. Ráðið leitast við að tengja saman fjölmenningarleg samfélög í Reykjavík og koma hugmyndafræði um fjölmenningu og inngildingu á framfæri.

Inngilding

Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika sem sjálfsagðan hlut og lögð er áhersla á inngildingu (e. inclusion). Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum. Inngilding snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku. 

Fjölbreytni í mannlífi

Eitt af leiðarljósum Reykjavíkurborgar er að reykvískt samfélag fái að nota fjölbreytni í mannlífi og menningu þar sem þekking, víðsýni, jafnrétti og gagnkvæm virðing einkenni samskipti fólks af ólíkum uppruna. Allar stofnanir borgarinnar þurfa að laga sig að fjölmenningarlegu samfélagi og útfæra stefnu Reykjavíkurborgar um fjölmenningarlegt samfélag í starfsáætlunum sínum. Þær skulu gera ráð fyrir innflytjendum bæði sem notendum og veitendum þjónustu, taka tillit til þarfa innflytjenda, án þess að litið sé á þá sem einsleitan hóp. Í öllu starfi borgarinnar skal leitast við að nýta kosti fjölbreytninnar.

Hafðu samband

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa

Ráðhúsi Reykjavíkur

Tjarnargata 11

101 Reykjavík

Verkefnastjóri: Aleksandra Kozimala

  • aleksandra.kozimala(at)reykjavik.is