Stefna í málefnum innflytjenda og flóttafólks

Teikning af upplýstum fartölvuskjá.

Þann 10. apríl 2018 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkurborgar heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Með stefnunni er m.a. unnið að markmiðum verkefnisins Fjölmenningarborgir (e. Intercultural Cities), en Reykjavíkurborg er aðili að verkefninu síðan 2014. 

Stefna Reykjavíkurborgar

  • Stefnan og aðgerðaáætlunin byggja á lögum um málefni innflytjenda nr. 116/2002, lögum um útlendinga nr. 80/2016, mannréttindayfirlýsingu Sameinu þjóðanna, alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis, samningi um réttarstöðu flóttamanna, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og mannréttindasáttmála Evrópu. 
  • Við vinnu stýrihópsins var fjórþætt hlutverk Reykjavíkurborgar, eins og í mannréttindastefnu, haft til grundvallar. Það er Reykjavíkurborg sem stjórnvald, atvinnurekandi, miðstöð þjónustu og samstarfsaðili og verkkaupi. Stefna í málefnum innflytjenda og flóttamanna er sett fram á þessum fjórum sviðum og síðan aðgerðir sem stuðli að því að stefnunni sé framfylgt. 

Hlutverk Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg sem stjórnvald

  • Allir íbúar Reykjavíkur eiga rétt á sanngjarnri og réttlátri málsmeðferð óháð uppruna.
  • Leitað er eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og fagaðila við stefnumótun og ákvarðanatöku.
  • Ætíð er haft í huga og tekið tillit til þess við alla stefnumótun að hluti borgarbúa talar ekki íslensku eða hefur mikla þekkingu á skipulagi og þjónustu borgarinnar.
  • Reykjavíkurborg stuðlar að aukinni þátttöku innflytjenda í lýðræðislegri ákvarðanatöku almennt og vinnur að því að upplýsa borgarbúa um kosningarétt sinn í borgarstjórnarkosningum.
  • Þá stuðlar Reykjavíkurborg markvisst að aukinni þátttöku innflytjenda í málefnum borgarinnar svo sem í borgarstjórnarkosningum, íbúakosningum, á íbúafundum, í skólasamstarfi og þegar óskað er eftir hugmyndum og athugasemdum frá íbúum.

Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi

  • Sem atvinnurekandi leggur Reykjavíkurborg áherslu á að skapa gott starfsumhverfi þar sem starfsmönnum líður vel, þeir fá tækifæri til að nýta hæfileika sína og vaxa í starfi.
  • Stjórnendur starfsstaða eru leiðandi í mótun faglegra vinnubragða og menningarnæmni í samskiptum.
  • Með þjálfun og fræðslu er starfsfólk gert betur í stakk búið til að þjónusta innflytjendur og sérstök áhersla er lögð á að nýta þekkingu og reynslu innflytjenda í hópi starfsmanna.
  • Innflytjendur fá stuðning til að auka þekkingu sína í þeim tilgangi að fá framgang í starfi.
  • Til þess að þjóna fjölmenningarlegu samfélagi hefur Reykjavíkurborg fólk af ólíkum uppruna í röðum starfsfólks.
  • Þekking og menntun innflytjenda er metin að verðleikum.
  • Fólk með fjölbreytta tungumálakunnáttu er ráðið til starfa og innflytjendur eru í fjölbreyttum störfum hjá borginni, þar með talið áhrifastöðum.

Reykjavíkurborg sem miðstöð þjónustu

  • Starfsfólk hafi þjónustustefnu Reykjavíkur að leiðarljósi við dagleg störf.
  • Í því felst meðal annars að taka hlýlega á móti viðskiptavinum, sinna þeim vel og af virðingu og vísa engum erindum frá.
  • Starfsfólk sýni frumkvæði við að veita þjónustu og upplýsingar og vinna með öðru starfsfólki við að leysa erindi viðskiptavina fljótt og vel.
  • Tryggt er að innflytjendur eigi greiðan aðgang að þjónustu borgarinnar.
  • Þegar þjónusta borgarinnar er skipulögð er tekið mið af þörfum ólíkra hópa, þar með talið innflytjenda.
  • Veitt er túlkaþjónusta í viðtölum og mótuð samræmd heildarstefna um túlkaþjónustu.
  • Stuðlað er að auknu réttaröryggi og jafnræði innflytjenda í tengslum við þjónustu Reykjavíkurborgar og þeim gefin tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri.
  • Í þeim tilgangi er þekking á hlutverki og þjónustu umboðsmanns borgarbúa efld sem og leiðum til að kæra ákvarðanir borgarinnar og vísa málum til endurupptöku sem standa borgarbúum opnar.
  • Innflytjendur leita gjarnan til borgarinnar varðandi atriði sem eru ekki á verksviði hennar.
  • Aldrei skal vísa fólki frá vegna þess að fyrirspurn þess snerti ekki verksvið borgarinnar.
  • Starfsfólk þarf í slíkum tilvikum bæði að uppfylla leiðbeiningaskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum og veita leiðbeiningar um úrlausn.
  • Sérstök áhersla er á börn innflytjenda þannig að þau og foreldrar þeirra fái þann stuðning sem þau þurfa í skóla- og frístundastarfi.
  • Mikilvægt er að fjölga þeim nemendum með annað móðurmál en íslensku sem standast námsmarkmið við lok grunnskóla.
  • Hafa þarf í huga að flóttafólk hefur oft búið við fjölþættan vanda til lengri eða skemmri tíma.
  • Sú þjónusta sem Reykjavíkurborg veitir svo sem á þjónustumiðstöðvum, í annarri framlínuþjónustu og í skóla- og frístundastarfi þarf að taka mið af þessari þjónustuþörf flóttamanna.
  • Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd er sérstaklega vandasöm og mikilvægt að byggja upp þekkingu og reynslu innan þjónustumiðstöðva og í skóla- og frístundastarfi á þessu sviði.
  • Huga þarf sérstaklega að þörfum barna og barnafjölskyldna meðal flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Reykjavíkurborg sem samstarfsaðili og verkkaupi

  • Reykjavíkurborg á í öllu samstarfi frumkvæði að því að áhersla sé lögð á mannréttindi og þarfir innflytjenda.
  • Við verkkaup eru mannréttindi til hliðsjónar og gerð krafa til verksala um virðingu fyrir mannréttindum sem og öðrum réttindum.
  • Reykjavíkurborg skal eiga frumkvæði að samráði og samstarfi við ráðuneyti og stofnanir ríkisins og sveitarfélög til að ræða samvinnu og verkaskiptingu í þeim málaflokkum sem snúa að þjónustu við innflytjendur.
  • Skrifstofa borgarstjóra hefji samræðuna við ríkið en síðan taki svið og skrifstofur við því sem að þeim snýr.
  • Starfsemi ríkis og sveitarfélaga, og þá ekki síst Reykjavíkurborgar, skarast víða varðandi þjónustu við innflytjendur og stuðning við þá sem veita þjónustuna.
  • Mikilvægt er að Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi fagráðuneyti efni til samráðs um samstarf og verkaskiptingu milli þessara þriggja aðila svo sem varðandi þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, samræmingu á þjónustu við ólíkra hópa flóttamanna, almenna upplýsingamiðlun til innflytjenda, íslenskukennslu og samfélagsfræðslu fyrir innflytjendur, fagstuðning við íslensku- og móðurmálskennslu tví- og fjöltyngdra barna og opnun upplýsingamiðstöðvar fyrir innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu.
  • Starfsemi frjálsra félagasamtaka er mikilvæg fyrir borgarbúa og mótun borgarmenningar og því skal hlúð að grasrótinni. Húsnæði borgarinnar er gert aðgengilegra fyrir félagasamtök, þar með talið samtök innflytjenda.
  • Á þann hátt styður Reykjavíkurborg við mikilvæga starfsemi og skapar vettvang fyrir þátttöku og samskipti.