Félagsmiðstöðvar

Í Reykjavík starfa margar félagsmiðstöðvar. Þær eru ýmist starfræktar í húsnæði grunnskólanna eða utan þeirra. Opnunartími fylgir að mestu starfsári grunnskólanna. Yfir sumartímann er megináhersla lögð á hópastarf og opnunartími auglýstur sérstaklega.

Félagsmiðstöðvar í Reykjavík

Í félagsmiðstöðvunum er boðið upp á uppbyggilegt frístundastarf fyrir 10–16 ára börn og unglinga í frítímanum. Áhersla er lögð á að ná til þeirra unglinga sem þarfnast félagslegs stuðnings og að bjóða upp á fjölbreytileg viðfangsefni. Unnið er í klúbbum, sértæku hópastarfi, opnu starfi og tímabundnum verkefnum. Nánari upplýsingar um opnunartíma félagsmiðstöðvanna eru á heimasíðum þeirra. 

Sértækt frístundastarf

Í fjórum félagsmiðstöðvum er boðið upp á sértækt starf fyrir fötluð börn og unglinga; Öskju, Hellinum, Hofinu og Höllinni. Þar er opið eftir að skóladegi lýkur eða frá kl. 13:40–17:00 alla virka daga. Þá er opið í skólafríum frá kl. 08:00–17:00, en lokað er í vetrarfríum. Sótt er um sértækt frístundastarf á vef Völu frístund.

 

Unglingalýðræði

Félagsmiðstöðvastarfið byggir á hugmyndafræði unglingalýðræðis sem á að tryggja áhrif þeirra á starfið. Rammar unglingalýðræðis eru landslög, ákvarðanir borgaryfirvalda og fjárhagsáætlun félagsmiðstöðvarinnar.

Til að tryggja samráð við börn og unglinga um málefni félagsmiðstöðvarinnar er kosið með lýðræðislegum hætti í ráð og nefndir. Skapaður er opinn vettvangur þar sem öllum áhugasömum gefst tækifæri til að taka þátt og einstaklingar eða hópar fá að fylgja eftir eigin hugmyndum frá upphafi til enda.