Hverfadagar borgarstjóra 2025 - Kjalarnes

 

Hverfadagar borgarstjóra á Kjalarnesi

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri mun heimsækja Kjalarnes þriðjudaginn 25. nóvember 2025.

Á hverfadögum mun borgarstjóri heimsækja skóla og stofnanir borgarinnar, hitta starfsfólk borgarinnar í hverfinu, ræða við íbúa og fulltrúa félagasamtaka, íþróttafélaga og foreldrafélaga auk þess að bjóða upp á opna viðburði þar sem fólk getur rætt málin við hana og fulltrúa yfirstjórnar borgarinnar.

 

Lóðir til sölu - Kjalarnes

Sérkenni hverfisins

Kjalarnes er nes sem skagar út í miðjan Faxaflóa sunnan megin við mynni Hvalfjarðar. Sem hverfi sker Kjalarnes sig úr á ýmsan hátt, á rúmlega hundraðfjörutíuogþriggja ferkílómetra landsvæði býr á ellefta hundrað íbúa með einstaka nálægð við friðsæld náttúrunnar. Þarna er sannkölluð sveit í borg og hverfið sameinar kosti sveitalífs og búsetu í borginni. 

Byggð á Kjalarnesi nær allt aftur til landnámsaldar. Þar eru sveitabæir og stundaður landbúnaður, en hjarta byggðarinnar er í Grundarhverfi. Þar eru meðal annars leikskólinn Berg, grunnskólinn Klébergsskóli og íþróttamiðstöð, þar sem æfingar fara fram á vegum UMFK. Klébergslaug er í Grundarhverfi, með notalega tengingu við náttúruna í kring og stutt er að rölta niður í fjöru þar sem búningsaðstöðu til sjósundsiðkunar hefur verið komið upp. 

Á Kjalarnesi er paradís fuglanna og aðstæður til fuglaskoðunar eru góðar. Í Brautarholti er tólf holu golfvöllur og frá sundlauginni liggur níu holu frisbígolfvöllur. Ekki má gleyma Esjunni, sem gjarnan er álitin bæjarfjall Reykjavíkur, en hún er nú einn vinsælasti útivistarstaður borgarbúa og stunda tugþúsundir göngur og aðra útivist í fjallinu á hverju ári.

 

Dagskrá heimsóknar borgarstjóra

Á hverfadeginum á Kjalarnesi mun Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri heimsækja skóla og funda með fulltrúum foreldrafélaga og spjalla við skólastjórnendur og annað starfsfólk. Þá mun hún kynna sér aðra starfsemi borgarinnar í hverfinu og funda með félagasamtökum, forsvarsfólki íþróttafélaga.

Þriðjudaginn 25. nóvember verður íbúum boðið í kaffi og spjall á opnum fundi í Klébergsskóla. Þá gefst gott tækifæri til að ræða málin við borgarstjóra og fulltrúa úr yfirstjórn borgarinnar. 

Öll velkomin!

 

 

Kjalarnes

Hverfadagar borgarstjóra verða haldnir í öllum hverfum borgarinnar.

Borgarstjóri verður á Kjalarnesi þann 25. nóvember næstkomandi.