Hverfadagar borgarstjóra 2025

Loftmynd yfir Grafarholt og Úlfarsárdal
Loftmynd yfir Grafarholt og Úlfarsárdal

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri mun heimsækja hverfi borgarinnar á næstu vikum og mánuðum. Hverfadagarnir hefjast í Grafarholti og Úlfarsárdal mánudaginn 8. september næstkomandi.

Á hverfadögum mun borgarstjóri heimsækja skóla og stofnanir borgarinnar, hitta starfsfólk borgarinnar í hverfinu, ræða við íbúa og fulltrúa félagasamtaka, íþróttafélaga og foreldrafélaga auk þess að bjóða upp á opna viðburði þar sem fólk getur rætt málin við hana og fulltrúa yfirstjórnar borgarinnar.

Hverfi í göngufæri við náttúruperlur 

Hverfadagarnir hefjast í Grafarholti og Úlfarsárdal en meðal helstu sérkenna hverfisins er einstök nálægð við náttúruna og skartar svæðið til dæmis perlum á borð við Reynisvatn, Hólmsheiði og Rauðavatn, sem skapa endalaus tækifæri til útivistar og hreyfingar. Vinsælar hjóla- og gönguleiðir liggja víða og sækja göngugarpar á öllum aldri á Úlfarsfellið. Glæsileg íþróttaaðstaða Fram er í Úlfarsárdal, í Almannadal er aðstaða fyrir hestafólk, frisbígolfvöllur í Grafarholti að ógleymdum fyrsta flokks golfvelli.

Heiða Björg borgarstjóri mun heimsækja Dalskóla, Ingunnarskóla og Sæmundarskóla. Hún mun funda með fulltrúum foreldrafélaga skólanna og spjalla við skólastjórnendur, stjórnendur á velferðarsviði og annað starfsfólk. Þá mun hún kynna sér aðra starfsemi borgarinnar í hverfinu og funda með félagasamtökum, forsvarsfólki íþróttafélaga og skella sér í sund í Dalslaug.

Spjall og ganga

Mánudaginn 8. september verður íbúum boðið í göngu og spjall um hverfið þar sem gott tækifæri gefst til að ræða málin við borgarstjóra og fulltrúa úr yfirstjórn borgarinnar. 

Boðið verður upp á kaffi og kakó og mun gefast tækifæri til að spjalla við borgarstjóra fyrir göngu ef fólk hefur ekki möguleika á að taka þátt.

Hittumst á bílastæðinu við Sæmundarskóla klukkan 17:00.

Heiða Björg borgarstjóri hlakkar til að heimsækja hverfin og er spennt fyrir því að hitta íbúa Grafarholts og Úlfarsársdals á mánudaginn.

Það er óendanlega dýrmætt og alltaf lærdómsríkt fyrir okkur sem stýrum borginni að hitta fólkið sem við vinnum fyrir. Ég vona að sem flestir komi og gangi með okkur á mánudaginn við Reynisvatn því það er fátt betra en góður göngutúr til að spjalla saman og fara yfir það sem fólki liggur á hjarta.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri

Hverfadagarnir verða haldnir í öllum hverfum borgarinnar. Nánari upplýsingar um dagsetningar verða tilkynnt þegar nær dregur.

  • Vesturbær  |  
  • Breiðholt  |  
  • Árbær og Norðlingaholt |  
  • Miðborg 
  • Grafarvogur og Kjalarnes  
  • Háaleiti og Bústaðir  
  • Hlíðar 
  • Laugardalur 

Nánari upplýsingar um fundina má nálgast á Hverfadagar borgarstjóra á reykjavik.is/hverfadagar