Skipulagslýsing fyrir Grundarhverfi á Kjalarnesi

Kjalarnes

Ný skipulagslýsing fyrir hverfisskipulag Grundarhverfis og nágrennis á Kjalarnesi er nú komin í auglýsingu.

Skipulagslýsingin er birt til kynningar og umsagnar skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Gögnin eru aðgengileg í Skipulagsgáttinni. Athugasemdum og ábendingum um lýsinguna má skila í gegnum Skipulagsgáttina eigi síðar en 6. nóvember 2025. 

Skipulagssvæðið nær í stórum dráttum frá Vesturlandsvegi til austurs, að strandlengjunni til suðurs, til vesturs að línu vestan svonefnds Hofshverfis frá hafi til Arnarholts og til norðurs að línu frá Vesturlandsvegi, rétt norðan gatnamóta Brautarholtsvegar, að lóðamörkum Arnarholts. 

Megintilgangur hverfisskipulagsins er að móta stefnu um framtíðarþróun og uppbyggingu svæðisins með áherslu á að bæta gæði núverandi byggðar, að innleiða vistvænar og sjálfbærar lausnir og að standa vörð um sérstöðu og staðaranda Grundarhverfis innan Reykjavíkur. 

Víðtækt samráð við íbúa 

Við undirbúning skipulagslýsingarinnar hefur verið lögð áhersla á víðtækt samráð. Efnt var til samráðsdaga á Kjalarnesi og haldnir samráðsfundir í Grundarhverfi þar sem íbúar gátu komið sínum hugmyndum og ábendingum á framfæri. Einnig var íbúum gefinn kostur á að taka þátt í netkönnun um framtíðarsýn hverfisins. 

Nánari upplýsingar um skipulagslýsinguna og auglýsinguna veitir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar í gegnum netfangið skipulag@reykjavik.is.