Miðborgin

Lýsing á aðgerð og markmið

Aðgerð Græna plansins

Á komandi árum mun miðborgin þróast áfram með tilheyrandi áhrifum á umhverfi hennar og mannlíf. Á meðal stærstu verkefna komandi ára verður þróun Laugarvegar í göngugötu allt árið, fjölgun á göngugötum í Kvosinni, uppbygging á nýju borgartorgi við Hlemm og þá mun Borgarlínan fara um Hverfisgötu og Lækjargötu. Auk þess vinnur samstarfshópur  að því að skapa aukna yfirsýn yfir málefni miðborgar, stuðla að markvissri upplýsingamiðlun um þau og efla samvinnu og samráð milli hagaðila og sviða borgarinnar

 

Framkvæmdatími

Áætluð verklok eru á seinni helmingi ársins 2030

Staða: Í vinnslu

Stöðulýsing 1. janúar 2024

Nýtt markaðsfélag miðborgarinnar er í hraðri mótun og er Reykjavíkurborg með áheyrnarfulltrúa á stjórnarfundum. Samstarfshópur um málefni miðborgar hittist tvisvar sinnum. 

Borgarráð samþykkti úthlutun til 20 verkefna úr Miðborgarsjóði fyrir árið 2023. Tillaga um úthlutun var kynnt á samráðsvettvangi miðborgarmála til umsagnar og engar athugasemdir bárust.

Mikil ánægja er með endurgert svæði frá Hlemmi – Mathöll að Snorrabraut en framkvæmdum þar lauk haust 2023. Svæðið sunnan og austan mathallarinnar verður nú endurgert og tengt við endurgerða kaflann á Laugavegi, þar sem frá var horfið.

M/Studios vann drög að ítarlegri þarfagreiningu fyrir nýtt miðbæjarmarkaðstorg sem opið verði almenningi.

Eldri stöðulýsingar

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá eldri stöðulýsingar sem veita upplýsingar um framvindu aðgerðarinnar frá upphafi (ef þú ert í síma er betra að snúa símanum á hlið).
  Tímasetning Lýsing framvindu
  Júlí 2023 Innleiðing göngugatna í Kvosinni hafa verið í vinnslu, búið er að forhanna Kirkjustræti, Vallarstræti og Tjarnargötu. Lækjartorg samkeppni er lokið og er búið að forhanna Lækjartorg og er forhönnun á Austurstræti hafin. Nýtt markaðsfélag miðborgarinnar var stofnað í mars 2023 á forsendum rekstraraðila. Miðborgin Reykjavík, eins og félagið heitir, hefur þann tilgang að vera markaðsfélag fyrir hagaðila miðborgarinnar til að skapa jákvæða upplifun og efla atvinnurekstur, verslun og þjónustu og störf á svæðinu. Rannsóknarmiðstöð verslunar- og þjónustu stóð fyrir árvissri talningu fyrir Reykjavíkurborg sem varðar verslun og þjónustu í miðborginni. Í henni kom fram að verslunar- og þjónusturýmum fjölgar frá fyrri talningu. Lausum rýmum í miðborginni fækkar þrátt fyrir fjölgun rýma. Matsölustöðum fjölgaði um 15 frá fyrri talningum og bar og skemmtistöðum um fimm. Menningar- og þjónusturýmum fjölgaði frá fyrri talningu og er fjölgunin mest í rýmum með ferðamannaþjónustu, listasöfnum og annarri þjónustustarfsemi. Ný starfsemi hefur sprottið upp eða flutt í 95 rými í miðborginni á árinu milli talninga.
  Janúar 2023   Unnið var að samþykktum nýs markaðsfélags miðborgar og drögum að samstarfssamningi við Reykjavíkurborg. Haldnir hafa verið fjórir fundir í samráðsfundi vegna hávaðamengunar í miðborginni og hefur heilbrigðiseftirlitið og lögreglan gripið til hertari aðgerða og samtalið verið upplýsandi og gott. Þá var næturstrætó settur á laggirnar og verður því verkefnið haldið áfram af hálfu Reykjavíkurborgar. Auglýst var eftir umsóknum í Miðborgarsjóð í nóvember. Fleiri sóttu um 2022 en fyrri ár en alls bárust 43 umsóknir. Alls 23 Verkefni hlutu styrk upp á í allt 21.450.000 kr. Í austurhluta Hafnarhússins opnaði Hafnar.haus sem er hús skapandi greina, en þar geta þeir sem hafa áhuga á rými fyrir skapandi greinar sótt um aðstöðu gegn vægu gjaldi. Með þessu er verið að styðja við skapandi þróun og tryggja það að listgreinar, hönnun, forritun og önnur nýsköpun komi saman.
  Júlí 2022 Unnið er að stofnun nýs markaðsfélags miðborgar sem er vettvangur einstaklinga og fyrirtækja sem starfrækja atvinnurekstur í miðborg Reykjavík með það að markmiði að skapa jákvæða upplifun og efla atvinnurekstur, verslun og þjónustu og störf á svæðinu. Lækjartorg mun taka stakkaskiptum á næstu misserum en vinningstillaga í hönnunarsamkeppni var valin í marsmánuði. Samkeppnissvæðið náði yfir Lækjartorg, Lækjargötu frá Hverfisgötu að Austurstræti, Austurstræti frá Lækjargötu að Ingólfstorgi og Bankastræti frá Þingholtsstræti að Austurstræti. Í maí var viljayfirlýsing um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands (LHÍ) í Tollhúsinu við Tryggvagötu undirrituð. Tollhúsið fær þar með nýtt hlutverk sem kjarni skapandi greina á Íslandi. Þar munu allar deildir skólans sameinast undir einu þaki í fyrsta sinn frá stofnun skólans. Þessu tengdu hefur verið skipaður starfshópur um framtíðarhúsnæði Kolaportsins, sem þarf að flytja úr Tollhúsinu við innflutning LHÍ. Hlutverk hópsins er að gera þarfagreiningu á húsnæði undir flóamarkað, kortleggja möguleika og bestu staðsetningar í miðborginni, þ.m.t. með því að framkvæma markaðskönnun þar sem auglýst er eftir mögulegum valkostum.

 

Tenging aðgerðar við stefnur Reykjavíkurborgar: