No translated content text
Atvinnu- og nýsköpunarstefna 2022–2030
Framtíðarsýn
Reykjavík nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem samfélag þar sem sköpunarkraftur og framtakssemi finnur frjósaman farveg.
Hér er eftirsóknarvert að búa og starfa og borgin þykir spennandi staður að heimsækja.
Úr farvegi sköpunar og hugmyndaauðgi verða til samfélagsleg, efnahagsleg og menningarleg verðmæti sem eru unnin í sátt við nærumhverfi og náttúruna.
Nýsköpun alls staðar
Við sjáum nýsköpun sem afrakstur hugmyndaauðgi sem athafnasamt fólk hefur hrint í framkvæmd um alla borg.
Nýsköpun birtist gjarnan í umræðu um hátæknifyrirtæki. En nýsköpun er ekki síður undirstaða víðtækrar starfsemi sem tengist menningu, listsköpun, þriðja geiranum, stjórnsýslu og margvíslegum þjónustufyrirtækjum.
Nýsköpun er ekki skrautfjöður í hatti. Hún er hluti af sjálfsmynd Reykjavíkur og mótar hvernig við sem búum og störfum í borginni nálgumst viðfangsefnin okkar. Við ætlum að skapa jarðveg þar sem nýjar hugmyndir geta blómstrað.
Nýsköpun er rauður þráður í gegnum atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkur. Það er vegna þess að nýsköpun er forsenda verðmætasköpunar á öllum sviðum samfélagsins og gerir okkur í stakk búin að mæta áskorunum framtíðarinnar.
Nýjar áherslur
Framtakssemi, hugmyndaauðgi og sköpunargleði eru einkenni samfélaga sem njóta samfélagslegra, efnahagslegra og menningarlegra lífsgæða.
Reykjavík hefur alla burði til þess að bjóða upp á alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi fyrir skapandi atvinnulíf, menningu og nýsköpun.
Nýjar áherslur í atvinnu- og nýsköpunarstefnu borgarinnar munu hjálpa okkur að búa til frjóan farveg þar sem ólíkir straumar sameinast og laða til sín hugmyndaríkt og atorkusamt fólk.
Nærandi umhverfi
Borg sem vill einkennast af sköpunarkrafti leggur sitt af mörkum við að skapa nærandi umhverfi fyrir blómstrandi hugmyndir.
Allir þræðir stefnumótunar og stjórnsýslu munu nú samtvinnast í því markmiði að gera borgina að framúrskarandi vettvangi fyrir kröftugt atvinnulíf og framtakssemi.
Skapandi atvinnulíf
Umhverfi sköpunar felur í sér vandaða samfélagslega og tæknilega innviði, gott aðgengi að grænum svæðum og sterka samfélagsgerð.
Slíkt umhverfi einkennist af trausti, jákvæðni, samstarfs- og þjónustuvilja, og hverfist í kringum sameiginlegan skilning á tækifærum og áskorunum framtíðar.
Reykjavíkurborg mun leggja sitt af mörkum til að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun náist fyrir árið 2030. Þar leikur aukin nýsköpun lykilhlutverk.
Fjölbreytt atvinnuþróun
Reykjavíkurborg vill ýta undir fjölbreytta atvinnuþróun og þar með styrkja hlutverk sitt sem höfuðborg Íslands og forystuafl. Við viljum að Reykjavík sé alþjóðlega viðurkennd sem miðstöð sköpunargleði, menningar og nýsköpunar.
Kjarnaáherslur
1. Sameiginlegur skilningur borgar og atvinnulífs
- Við viljum að samskipti borgar og atvinnulífs einkennist af gagnkvæmri virðingu, trausti og sameiginlegum skilningi á þeim áskorunum og verkefnum sem hvor um sig stendur frammi fyrir.
- Við ætlum að líta á okkur sem virkan þátttakanda í mótun skapandi atvinnulífs. Það þýðir að Reykjavíkurborg skilji þarfir og væntingar atvinnulífsins og lagi þjónustu sína og starfsemi sem best að þeim þörfum. Borgin þarf að starfa eftir stefnu sem er skýr og skiljanleg og sækjast eftir sátt um sameiginleg markmið.
- Þessi sameiginlegi skilningur þarf einnig að ná til sjálfstætt starfandi einstaklinga, frumkvöðla, annarra sveitarfélaga, menntastofnana, þriðja geirans og ríkisins.
Forgangsáhersla
1.1 Virkara samtal og aukin upplýsingamiðlun á milli Reykjavíkurborgar og atvinnulífsins
- Við ætlum að leggja grunn að jákvæðu viðhorfi og auka gagnkvæma virðingu og traust í samskiptum á milli borgarinnar, atvinnulífsins og nýsköpunarsamfélagsins.
- Við styðjum við starfsfólkið okkar með markvissri fræðslu og þjálfun, sem gerir því kleift að nýta virka hlustun og miðla áreiðanlegum upplýsingum við störf sín.
2. Gott umhverfi atvinnulífs og nýsköpunar
- Jarðvegur fyrir skapandi lausnir og frjótt atvinnulíf samanstendur af traustum innviðum, vaxtarhugarfari og jákvæðu viðmóti gagnvart nýjum hugmyndum..
- Nýsköpunarhugsun á að vera hluti af menningu Reykjavíkurborgar. Þá geta allar hugmyndir, bæði hagnaðardrifnar og þær sem mæta samfélagslegum áskorunum, fundið sér greiðan farveg til framkvæmdar.
- Við viljum að þjónusta okkar sé auðskilin, skilvirk, stafræn og fyrirsjáanleg og að innviðir borgarinnar séu vandaðir og í takt við þarfir samfélagsins.
Forgangsáherslur
2.1 Eflum nýsköpunarmenningu hjá Reykjavíkurborg
- Við ætlum að rækta nýsköpunarhugsun. Það felur í sér að auka skilning borgarkerfisins á birtingarmyndum nýsköpunar í atvinnulífi, menntakerfi og menningu.
2.2 Betri þjónusta Reykjavíkurborgar
- Þjónustu borgarinnar verður breytt í takt við hugmyndafræði algildrar hönnunar. Það þýðir að við gerum þjónustuna okkar einfaldari, stafrænni, aðgengilegri og fyrirsjáanlegri fyrir fyrirtæki og frumkvöðla og öll þau sem hana þurfa að nýta.
2.3 Traustir og skilvirkir innviðir
- Innviðir og aðstaða fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi verða byggð upp í takt við þarfir atvinnulífsins og nýsköpunarsamfélagsins.
3. Fleiri stoðir verðmætasköpunar
- Í Reykjavík geta fyrirtæki og frumkvöðlar fengið brautargengi fyrir hugmyndir sínar og laðað til sín hæfileikaríkt fólk og fjármagn. Sérstök áhersla verður lögð á hugvitsdrifinn útflutning, skapandi greinar og verkefni á sviði græns vaxtar.
- Við ætlum að hlúa að íbúum Reykjavíkur með því að tryggja aðgang að góðri menntun, veita þjálfun til að takast á við breytt atvinnulíf og efla alþjóðlega samkeppnishæfni borgarinnar með því að laða til okkar hæfileikaríkt fólk frá öllum heimshornum.
Forgangsáherslur
3.1 Byggjum upp nýsköpunar- og þekkingarkjarna
- Borgin mun hafa frumkvæði að samstarfi um þróun nýsköpunar- og þekkingarkjarna í Reykjavík. Þar verða atvinnutækifæri framtíðarinnar sköpuð í samstarfi atvinnulífs, nýsköpunarsamfélagsins, menntastofnana og borgarinnar.
3.2 Eflum innlent og alþjóðlegt samstarf um nýsköpun og rannsóknir
- Borgin mun vinna með atvinnulífinu og nýsköpunarsamfélaginu, í innlendu og alþjóðlegu nýsköpunar- og rannsóknarsamstarfi.
3.3 Tryggjum mannauð fyrir góðar hugmyndir
- Reglulega verða gerðar úttektir á hvaða hæfni og þekkingu Reykjavík framtíðarinnar kallar eftir og hvernig við getum tryggt að hún sé til staðar.
4. Sögur úr borginni
- Á hverjum degi verða til frábærar sögur úr fjölbreyttu athafnalífi í Reykjavík. Þetta eru sögur sem vekja innblástur og við ætlum að draga þær fram og deila innan og utan borgarinnar.
- Þannig styrkjum við ímynd Reykjavíkur og gerum borgina eftirsóknarverðari fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem vilja láta hugmyndir sínar rætast. Sterk ímynd mun einnig laða að fjármagn, ný fyrirtæki og hæfileikaríkt fólk til búsetu,heimsókna og athafna.
Forgangsáherslur
4.1 Innlend markaðssetning
- Mótuð verður kynningaráætlun sem hefur það markmið að draga fram jákvæðar sögur úr athafna- og nýsköpunarlífi borgarinnar og hampa því sem er vel gert í Reykjavík.
4.2 Alþjóðleg markaðssetning
- Mörkuð verði stefna um alþjóðlega markaðssetningu borgarinnar með það að markmiði að vekja athygli á borginni sem borg sköpunar. Þar sem hugvit, athafnasemi, sjálfbærni, fjölbreytni og blómstrandi menning fóstra skapandi atvinnulíf og verðmætasköpun.
5. Grænn vöxtur
- Framtíðin kallar á grænan vöxt. Atvinnulíf næsta áratugar mun fela í sér minni kolefnislosun og meiri umhverfisvitund og nýsköpun sem stuðlar að sjálfbærari borg. Slík áherslubreyting mun skapa ný og græn störf og nýjar leiðir til að vinna þau störf af hendi.
- Við ætlum að minnka kolefnisfótspor borgarinnar um helming á næstu 10 árum. Í því felast áskoranir sem þarfnast skapandi lausna sem nýtast bæði hér heima og fyrir heiminn allan.
Forgangsáherslur
5.1 Hvetjum og styðjum við græn nýsköpunarverkefni
- Ýtum undir og fögnum grænum nýsköpunarverkefnum í borginni. Það gerum við meðal annars með því að kalla eftir lausnum á sértækum áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.
5.2 Eflum hringrásarhagkerfið
- Við hugsum í grænum leiðum og hvetjum til samnýtingar auðlinda í atvinnulífi borgarinnar. Það sem fellur til hjá einum getur orðið að nýtanlegri auðlind hjá öðrum.
5.3 Drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda
- Dregið verður enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda á öllum sviðum athafnalífs borgarinnar. Sú vinna mun meðal annars ná til samgangna, mannvirkjagerðar og orkuskipta.
5.4 Fjölgum tækifærum nálægt sjálfbærum samgöngum
- Fjölgum atvinnutækifærum innan hverfa borgarinnar og styðjum þannig við 15 mínútna hverfi, sem miða að því að helsta þjónusta sé innan við korters göngufjarlægð. Þetta er meðal annars gert með uppbyggingu sjálfbærra samgangna.
6. Engin skilin eftir
- Ein stærsta áskorun næstu ára felst í því að rækta nútímalegt samfélag þar sem ávinningi tækniframfara er dreift með sanngjörnum hætti.
- Fjórða iðnbyltingin felur í sér margvíslegar breytingar sem erfitt er að spá fyrir um og samhliða henni mun margt í undirstöðum atvinnulífsins breytast hratt. Við ætlum að tryggja að í þessum breytingum verði Reykjavík áfram örugg höfn þar sem allir borgarbúar njóti til jafns þeirra tækifæra og lífsgæða sem framtíðin býður upp á.
Forgangsáherslur
6.1 Virkjum hæfileika allra
- Í Reykjavík verður græna umbreytingin byggð á réttlæti, sanngirni og þátttöku. Íbúar búa við öryggi og geta haft jákvæð áhrif á eigið líf og annarra í nútíð og framtíð. Það felur meðal annars í sér að geta fundið sér atvinnu við hæfi.
6.2 Fögnum fjölbreytileika
- Við tvinnum saman ólíka menningarheima, vinnum á skapandi hátt gegn staðalímyndum og tryggjum jafnrétti. Þannig leggjum við góðan grunn fyrir komandi kynslóðir til að takast á við atvinnulíf framtíðar.
6.3 Tryggjum mannréttindi á vinnumarkaði
- Í Reykjavík geta allir fundið farveg fyrir hugmyndir sínar og tekið virkan þátt í atvinnulífi og nýsköpun. Við vinnum markvisst að inngildingu þar sem fólk hefur sömu tækifæri, óháð uppruna, þjóðerni, stétt, tungumáli, litarhætti, trúarbrögðum, lífs- eða stjórnmálaskoðunum, trúleysi, kyni, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu, kyneinkennum, aldri, fötlun, holdafari, líkamsgerð, heilsufari, atgervi eða annarri stöðu.
Samráð
Samráðsferlið hófst með 18 þematengdum fundum með atvinnulífinu auk þess sem tölvupóstur var sendur á tugi fyrirtækja og stofnanir, sem og til allra sviða borgarinnar, þar sem óskað var eftir þátttöku í samráði. Almenningi gafst tækifæri til að senda inn umsögn í gegnum betrireykjavik.is.
Stýrihópurinn fundaði alls 15 sinnum auk þess að halda aukafund undir yfirskriftinni „Samtal um framtíðina“. Við gerð stefnunnar var ákveðið að skilgreina áskoranir í takt við niðurstöðu samráðs og að mæta þeim með stefnuáherslum. Stefnudrögin fóru í innra samráð hjá borginni þann 3. desember 2021 og eftir að tekið hafði verið tillit til athugasemda þá var stefnan send í ytra samráð.
Alls tóku um 200 aðilar beinan þátt í samráði við gerð atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030 sem var eitt ár í vinnslu.
Hefjum leikinn
Atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar er leiðbeinandi fyrir okkur sem störfum hjá borginni um hvernig við getum haft áhrif á framtíðina.
Stefna sem innleiða á skapandi hugsun getur ekki verið meitluð í stein. En það sem ný stefna veitir okkur er aðhald og innblástur til að hefja leikinn.
Aðgerðir
Við mótum þann farveg sem komandi breytingar spretta fram úr og eftir því sem á líður mun ný atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar vaxa og dafna í höndum okkar allra.
Samhliða framlagningu stefnunnar er aðgerðaráætlun til næstu tveggja ára sem verður uppfærð á tveggja ára fresti út gildistíma stefnunnar.
Hugtök
Atvinnulíf
Atvinnulíf vísar til íbúa, starfsfólks, fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum, frumkvöðla og einstaklinga með fyrirtæki í mótun; rannsóknarstofnana, stjórnsýslustofnana á öllum stigum og þriðja geirans.
Skapandi greinar
Með „skapandi greinum“ er átt við starfsemi sem sprettur úr sköpunargleði, þekkingu og hæfileikum fólks og eflir velferð og eykur atvinnutækifæri með því að skapa og nýta vitsmunalegan og menningarlegan auð.
Nýsköpun
Nýsköpun er að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar. Á þetta jafnt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu- og markaðssetningar. Til þess að teljast vera nýsköpun þarf hugmynd eða endurbót að vera hrint í framkvæmd.
Nýsköpun í opinberri stjórnsýslu
Opinber nýsköpun er ný eða umtalsvert breytt aðferð til að bæta starfsemi og árangur á vinnustaðnum. Nýsköpunin þarf að fela í sér nýjungar fyrir vinnustaðinn en hún má hafa verið notuð annars staðar áður eða hafa verið þróuð af öðrum.
Innviðir
lnnviðir vísa til tæknilegra innviða á borð við vegi, hafnir, kerfi, og lagnir; samfélagslegra innviða eins og góðir skólar, almannarými, listasöfn og friðsæl græn svæði sem og þjónustuinnviða.
Algild hönnun
Markmið algildrar hönnunar er að skipuleggja og framleiða vörur, byggingar og umhverfi og hanna þjónustu þannig að það gagnist sem flestum og að sem mestu leyti.
lnngilding
lnngilding felur í sér að fólki sé tryggður aðgangur sem annars gæti verið útilokað eða jaðarsett frá tækifærum eða úrræðum.
Sviðsmynd - Hvernig borg verður Reykjavík 2035?
Reykjavíkurborg fékk Deloitte til samstarfs til að vinna sviðsmyndagreiningu um framtíð Reykjavíkur árið 2035 með tilliti til umhverfisþátta, efnahagslegra þátta og samfélagslegra þátta, til að styðja við Græna planið.
Afrakstur sviðsmyndagreiningarinnar eru fjórar ólíkar en kraftmiklar sviðsmyndir. Sviðsmyndir eru gagnadrifnar sögur um framtíðina til að taka í dag betri ákvarðanir um framtíðina. Þetta er tilraun til að notast við skipulagða aðferð til að sjá fyrir sér mögulega framtíð og setja fram kenningar um framtíðarmöguleika. Sviðsmyndirnar eru ekki spá um líklegustu framtíðarborgina heldur tæki til þess að máta áætlanir og markmið okkar við aðstæður sem gætu komið upp. Með sviðsmyndirnar í huga getum við gert áform okkar traustari og okkur tilbúnari til að ná okkar markmiðum.