Vestnorræni höfuðborgasjóðurinn
Úthlutun er lokið úr Vestnorræna höfuðborgarsjóðnum 2024 og hlutu 19 verkefni styrk.
Úthlutun
Úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2024 er lokið.
Umsóknir um styrki úr sjóðnum
Styrkir úr sjóðnum eru veittir árlega og er opnað fyrir styrkumsóknir snemma árs. Auglýst er á vefsvæði Reykjavíkurborgar og á samfélagsmiðlum borgarinnar. Umsækjendur sækja um á þar til gerðum eyðublöðum sem nálgast má á vefsvæðum höfuðborganna og þurfa að gera grein fyrir verkefnum, áætluðum fjárútlátum og upphæðum sem sótt er um. Umsækjendum ber að nýta styrki innan almanaksárs styrksins og greiða til baka það fjármagn sem ekki er nýtt. Að verkefni afloknu ber styrkþegum að skila greinargerð til sjóðsins ásamt fjárhagsuppgjöri.
Um Vestnorræna höfuðborgasjóðinn
Borgarráð samþykkti 20. júlí 1999 að gerast aðili að samstarfssjóði Nuuk, Reykjavíkur og Tórshavn. Sjóðurinn starfaði upphaflega skv. reglum frá 18. júní 1999 en þær voru endurskoðaðar 2012 og nafni sjóðsins m.a. breytt í Vestnorræna höfuðborgasjóðinn (d. Vestnordisk hovedstadsfond). Aðilar að sjóðnum eru Kommuneqarfik Sermersooq (Nuuk) á Grænlandi, Tórshavn í Færeyjum og Reykjavík.
Tilgangur og markmið
Hlutverk sjóðsins er að efla samstarf og skilning milli stjórnmálamanna og íbúa í Reykjavík, Tórshavn og Kommuneqarfik Sermersooq (Nuuk) með:
- fjárveitingum til verkefna á sviði menningar, fræðslu og íþrótta
- þemaumræðum um pólitísk málefni sem eru ofarlega á baugi í höfuðborgum á Vestur Norðurlöndum
Skipan stjórnar og fundir
Stjórn sjóðsins er skipuð borgarstjórum höfuðborganna þriggja ásamt tveimur kjörnum fulltrúum frá hverri borg. Stjórnin fundar einu sinni á ári, til skiptis í höfuðborgunum þremur, og úthlutar styrkjum ársins. Stjórnarfundir eru venjulega haldnir að vori eða snemma sumars, í maí eða júní.
Auk borgarstjóra sitja þau Dóra Björt Guðjónsdóttir og Kjartan Magnússon borgarfulltrúar í stjórn sjóðsins f.h. Reykjavíkurborgar til loka kjörtímabilsins 2026.
Fjárframlög, styrkfjárhæðir og úthlutun
Höfuðborgirnar greiða árlega inn í sjóðinn sem samsvarar 200.000 dönskum krónum á hverja borg. Til úthlutunar á hverju ári eru því að minnsta kosti 600.000 DKK. Úthlutun fer þannig fram að hver borganna gerir stjórnarfundi grein fyrir þeim umsóknum sem henni hafa borist og gerir tillögur um úthlutun úr sínum potti til þeirra vekefna. Komið hefur fyrir að stjórnin úthluti meiru en sem nemur samanlögðu árlegu framlagi en þá hefur verið um að ræða frjármagn frá fyrri árum.
Samkvæmt þessu fyrirkomulagi gera fulltrúar Reykjavíkur árlega tillögu að úthlutun til þeirra verkefna sem borist hafa til Reykjavíkurborgar. Til hliðsjónar styðjast fulltrúarnir við mat skrifstofu menningarmála hjá menningar- og íþróttasviði Reykjavíkurborgar á styrkumsóknum. Í mati á umsóknum er einkum horft til þess hvort að verkefni uppfylli skilyrði í reglum sjóðsins um styrkhæfi, það er hvort þau stuðli að auknu samstarfi á milli íbúanna. Oftast skiptist úthlutunarupphæð Reykjavíkurborgar í smærri styrki til ólíkra verkefna en þó hefur sum árin verið ákveðið að veita einungis einu verkefni alla styrkupphæðina.
Umsjón með sjóðnum
Utanumhald um Reykjavíkurgrein sjóðsins, þ.m.t. samskipti við umsækjendur og styrkþega í Reykjavík, er í höndum skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í Ráðhúsi Reykjavíkur. Umsjón með greiðslu styrkja og gerð og endurskoðun ársreikninga og ársskýrslna, er á hendi borgarstjórnarinnar í Tórshavn í Færeyjum.
Fréttir
- Styrkveitingar úr Vestnorræna höfuðborgasjóðnum 2024
- Vestnorræni höfuðborgasjóðurinn – Umsóknir óskast fyrir árið 2024
- Styrkveitingar úr Vestnorræna höfuðborgasjóðnum 2023
- Vestnorræni höfuðborgasjóðurinn – Umsóknir óskast fyrir árið 2023
- 12 verkefni hljóta styrk úr Vestnorræna höfuðborgasjóðnum
- Vestnorræni höfuðborgasjóðurinn - umsóknir óskast fyrir árið 2022
- Umsóknir óskast - Vestnorræni höfuðborgasjóðurinn 2021
- Vestnorræni höfuðborgasjóðurinn auglýsir eftir umsóknum fyrir árið 2020