Vinnsla persónuupplýsinga

Hver er tilgangur vinnslu og grundvöllur hennar?

Reykjavíkurborg og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Kvennaathvarfið og Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu hófu í janúar 2015 átaksverkefnið Saman gegn ofbeldi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er nú einnig þátttakandi í verkefninu.

Markmið samvinnunnar er að taka markvisst á þeim heimilisofbeldismálum sem upp koma, í því skyni að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum og að veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna, sem búa við heimilisofbeldi.

Reykjavíkurborg tekur saman tölfræðiupplýsingar úr útköllum, sem varða heimilisofbeldi/ofbeldi í nánum samböndum. Reykjavíkurborg telur nauðsynlegt að vinna með persónuupplýsingar í tölfræðilegum tilgangi, til að leitast við að bæta félagslega þjónustu við þolendur, gerendur og börn þeirra.

Vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við átaksverkefnið byggir á  lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 m.a. með vísan til 3. og  5. töluliðar  9. gr. og 10. töluliðar 11. gr.

Hvaða upplýsingar er unnið með?

Unnið er með eftirfarandi upplýsingar:

Almennar persónuupplýsingar:

Nafn og kennitölu þolenda og gerenda, nafn og kennitölu barns/a, lögheimili/aðsetur, kyn, fjölskyldugerð, símanúmer, netfang.

Viðkvæmar persónuupplýsingar:

Upplýsingar um kynhneigð, um notkun vímuefna, heilsufar, fötlun og um andlegt/líkamlegt ástand í útkalli vegna heimilisofbeldis ásamt upplýsingum um þjóðerni/ríkisfang og tegund ofbeldis.

 

Hvaðan koma upplýsingarnar?

Þolandi/gerandi veitir framangreindar upplýsingar, en auk þess sækir Reykjavíkurborg grunnupplýsingar til Þjóðskrár.

 

Hversu lengi eru persónuupplýsingarnar geymdar?

Persónuupplýsingar eru geymdar ótímabundið á grundvelli lagaskyldu er hvílir á Reykjavíkurborg.

 

Hvernig er öryggi persónuupplýsinganna tryggt?

Reykjavíkurborg gætir öryggis persónuupplýsinga með viðeigandi skipulagslegum og tæknilegum ráðstöfunum, þ. á m. aðgangsstýringum og dulkóðun. Allt starfsfólk Reykjavíkurborgar, sem kemur að vinnslu persónuupplýsinga, er bundið þagnarskyldu.

 

Miðlun persónuupplýsinganna til þriðju aðila

Að tilgreindum tíma liðnum er Reykjavíkurborg skylt að afhenda Borgarskjalasafni öll gögn sem unnið er með til varðveislu. 

Reykjavíkurborg mun að öðru leyti ekki miðla persónuupplýsingum til annarra aðila, nema slíkt sé slíkt skylt á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða dómsúrskurðar. Þá mun Reykjavíkurborg ekki miðla persónuupplýsingum  utan Evrópska efnahagssvæðisins nema á grundvelli sérstakrar heimildar þar um.

 

Réttindi þín

Þú kannt að eiga rétt á að fá afrit af þeim persónuupplýsingum sem Reykjavíkurborg vinnur um þig. Þá kannt þú að eiga rétt á að andmæla vinnslunni, fá upplýsingarnar leiðréttar, eða að vinnslan verði takmörkuð. Nánari upplýsingar um réttindi þín má finna í persónuverndarstefnu Reykjavíkurborgar sem aðgengileg er á vefsíðu Reykjavíkurborgar.

Kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga

Sérstök athygli er vakin á því að ef þú ert ósátt/-ur við meðferð Reykjavíkurborgar á persónuupplýsingum þínum, getur þú haft samband við persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar (persónuverndarfulltrui@reykjavik.is) eða sent erindi til Persónuverndar.

 

(janúar 2023)

Úrræði fyrir brotaþola

Smelltu hér til að sjá úrræði sem standa til boða ef þú býrð við ofbeldi eða hefur orðið fyrir ofbeldi, eða ef þú þekkir til einhvers sem er í þeim aðstæðum.