Hvað er kynjuð fjárhags- og starfsáætlun?

""

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun (KFS) er tæki sem notað er til þess að stuðla að auknu jafnrétti og betri nýtingu fjármuna.

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun (KFS)

KFS er hluti af aðferðarfræði sem kallast samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða. Sú aðferðarfræði er skilgreind skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 sem leið til þess að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu. Kynjasamþætting er því hugsuð sem hluti af almennu starfi en ekki sem viðbót.

Við kynjaða fjárhags- og starfsáætlunargerð er einblínt á fjárhagsáætlunarferlið og ákvarðanatöku. Það er því hægt að lýsa KFS sem einhverskonar árangurs- eða gæðastjórnunarkerfi sem tekur sérstaklega mið af mismunandi stöðu ólíkra hópa í samfélaginu og leitast við að gegna því mikilvæga hlutverki stjórnvalda að gæta að jafnrétti.

Hér fyrir neðan má sjá stutt kynningarmyndband um aðferðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar unnið í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Freyja filmwork. 

Innleiðing KFS

Árið 2011 var tekin sú mikilvæga ákvörðun að hefja formlega innleiðingu á kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun (KFS) hjá Reykjavíkurborg. Markmiðið með innleiðingunni er að samþætta mannréttindastefnu og fjármálastefnu borgarinnar. Reykjavíkurborg vinnur eftir mannréttindastefnunni þegar að kemur að jafnréttismálum og tekur KFS því mið af öllum þáttum stefnunnar, ekki bara jafnrétti kynja. 

Það var mikill heiður þegar að Reykjavíkurborg og starfsfólk borgarinnar hlaut jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs 2016 vegna brautryðjendastarfs að innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar í starfsemi borgarinnar og fyrir að þróa þá aðferðarfræði áfram í þeim hagræðingaraðgerðum sem borgin stóð þá frammi fyrir. Var starfið talið fela í sér mikilvægan lærdóm og hvatningu fyrir sveitarfélög og ríkisstofnanir.

Tvö megin verkefni innleiðingar kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg eru greining þjónustuþátta og jafnréttisskimun- og mat á öllum nýjum verkefnum og breytingartillögum sem varða fjárhagsáætlun. 

Greining þjónustuþátta

Unnið hefur verið að greiningu þjónustuþátta síðan 2012. Forsenda þess að geta tekið upplýsta ákvörðun varðandi ráðstöfun og tekjuöflun borgarinnar út frá mannréttindasjónarmiðum er að greina núverandi stöðu. Greining þjónustuþátta tekur mið af því hvort þjónusta borgarinnar taki mið af mismunandi þörfum borgarbúa og hvernig megi bæta hana.

""

Jafnréttisskimun

Framkvæmd jafnréttisskimunar nýtist til þess að koma jafnréttissjónarmiðum að við undirbúning og skipulag vinnu.

 

Öll ný verkefni í fjárhagsáætlun á komandi ári og breytingar á samþykktri fjárhagsáætlun á að jafnréttisskima.

 

Jafnréttisskimun tekur saman jafnréttisáhrif tillagna með einföldum hætti og er ætlað að styðja við ákvarðanatöku stjórnenda og kjörinna fulltrúa um forgangsröðun og ráðstöfun fjármuna. 

 

Með skilvirkri notkun á jafnréttisskimun er unnt að auka gagnsæi, auka hagkvæmni í rekstri og tryggja betri verkferla og stjórnunarhætti.

Jafnréttismat

Jafnréttismat er í raun dýpri útgáfa af jafnréttisskimun. Framkvæma skal jafnréttismat á tillögum sem teljast hafa jafnréttisáhrif eftir að þær hafa farið í gegnum jafnréttisskimun.

 

Jafnréttismöt geta verið mjög misjöfn í umfangi og fer það eftir eðli tillögunnar og þeirri starfsemi sem hún nær yfir.

 

Gert er ráð fyrir að ábyrgðarfólk tillögunnar vinni jafnréttismat í samráði við verkefnastýru KFS eða aðra sérfræðinga með þekkingu á kynja- og jafnréttisáhrifum.

Hafa samband

Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband við verkefnastýru Kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar.