Laugarnesskóli

Grunnskóli, 1.- 6. bekkur

Kirkjuteigur 24
105 Reykjavík

Laugarnesskóli

Skóladagatal Laugarnesskóla

Hér finnur þú skóladagatal Laugarnesskóla. Í skóladagatali eru skipulagsdagar skráðir ásamt öðrum mikilvægum upplýsingum fyrir foreldra og forráðamenn.

Hvað er í matinn?

Flestir grunnskólanemendur eru í mataráskrift. Skólamatur kostar það sama í öllum skólum. Ekki þarf að greiða mataráskrift fyrir fleiri en tvö börn frá sama heimili. Hér getur þú fylgst með því hvað er á boðstólnum í mötuneyti Laugarnesskóla.

Um Laugarnesskóla

Laugarnesskóli stendur við Kirkjuteig 24 í Reykjavík og er einsetinn grunnskóli fyrir  börn í 1.-6. bekk. Einkunnarorð skólans eru lífsgleði, nám, samvinna, kærleikur, ósk. Skólinn er í útjaðri Laugardalsins og örstutt er í sundlaugarnar, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, Grasagarðinn, Laugardalshöll, Laugardalsvöll, skautasvellið og íþróttasvæði Þróttar/Ármanns. Laugarnes- og Laugalækjarskóli mynda saman grunnskóla Laugarneshverfis, annar starfar á barnastigi og hinn á unglingastigi.

Frístundaheimilið Laugarsel er fyrir börn í 1-2 bekk og safnfrístundin Dalheimar er fyrir börn í 3-4 bekk í Laugarnesskóla og Langholtsskóla. 

Skólastjóri er Björn Gunnlaugsson

Aðstoðarskólastjóri er María Guðmundsdóttir

Farsæld barna

Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hafa tekið gildi. Markmiðið er að tryggja að börn og forsjáraðilar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum. Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið farsældar í nærumhverfi barnsins, svo sem í leikskóla eða grunnskóla. Tengiliður farsældar veitir upplýsingar og leiðbeiningar um þjónustu og stuðlar að því að börn og forsjáraðilar hafi aðgang að þjónustu án hindrana. Til að óska eftir samþættri þjónustu geta börn, ungmenni og forsjáraðilar haft samband við tengilið farsældar.

Tengiliður Laugarnesskóla er: Erla Baldvinsdóttir

Nánari upplýsingar um lögin og þjónustuna eru á heimasíðunni farsaeldbarna.is​
 

Er barnið þitt að byrja í skóla?

Á þessari síðu færðu gagnlegar upplýsingar um skólabyrjun. Eins og til dæmis hvað börnin þurfa að taka með sér í skólann og hvort börnin fái mat á skólatíma.

Starfsemi

Starfsáætlun

Hvað er framundan í Laugarnesskóla? Í starfsáætlun finnur þú meðal annars stefnu skólans fyrir síðasta ár, skipulag kennslu og ótalmargt fleira.

Skólanámskrá

Viltu vita meira um hugmyndafræði og daglegt starf Laugarnesskóla? Í skólanámskrá finnur þú ítarlegar upplýsingar um hugmyndafræðilegar áherslur og stefnu skólans í námi og starfi. 

Foreldrasamstarf

Við erum öll í þessu saman, enda er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Í skólum borgarinnar er markvisst unnið að því að auka samráð við foreldra og styrkja aðkomu þeirra að skólastarfi. Foreldrafélag  er starfrækt í öllum skólum Reykjavíkurborgar.

Skólahverfi Laugarnesskóla

Í Reykjavík eru mörg skólahverfi og barnið þitt hefur forgang í sinn hverfisskóla. Engu að síður eiga allir foreldrar kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni samkvæmt reglum um skólahverfi, umsókn og innritun. Hér finnur þú upplýsingar um hvaða götur tilheyra skólahverfi Laugarnesskóla.

Ástand húsnæðis Laugarnesskóla

Verkfræðistofan Efla vann skýrslu um ástand byggingar Laugarnesskóla 22. september 2022. Við skoðun kom í ljós að ýmis rakatengd vandamál eru til staðar í byggingunum sem kannski þarf ekki að koma á óvart þegar um tæplega 90 ára gamalt hús er að ræða. Hluti skólahúsnæðisins er friðaður og þurfa viðhaldstillögur að taka tillit til þess. Kjarnasýni sem tekin voru sýna að myglu er víða að finna í húsinu.

Eftir ráðleggingar frá sérfræðingum Eflu og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar hefur verið unnið að mótvægisaðgerðum til að bæta innivist í skólanum þar til hægt verður að fara í umfangsmeiri framkvæmdir. Meðal mótvægisaðgerða eru tilfærslur innan skólans, lagfæringar á kennslurýmum, uppsetningar á lofthreinsitækjum og sérstök sótthreinsiþrif.

Það verður heilmikið verkefni að fara í nauðsynlega endurnýjun á þessu sögufræga og friðaða húsi og verður að undirbúa allar framkvæmdir sérstaklega vel. Sú vinna var þegar hafin en um leið og farið verður í viðgerðir vegna rakaskemmda verður unnið að því uppfæra húsið samkvæmt nútímakröfum um aðgengi, kennsluhætti, hljóðvist, orkunýtingu, öryggi og loftskipti.

Skýrslan og framkvæmdir verða kynnt foreldrum á opnum fundi þann 23. mars 2023.