Farsældarþjónusta

Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi þann 1. janúar 2022. Markmið laganna er að tryggja að börn og forsjáraðilar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum.

Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið farsældar í nærumhverfi barnsins, svo sem í leikskóla eða grunnskóla.

Bókaðu símtal og við finnum út úr því saman hvaða þjónusta hentar best.

Hvað er snemmtækur stuðningur?

Með snemmtækum stuðning er hér átt við það að hjálpa börnum sem eiga við mögulegan vanda að stríða eins snemma og mögulegt er. Þetta er gert með því að grípa snemma inn í með markvissum stuðningi og þjónustu svo að barnið geti notið sín sem best í leik- og grunnskóla. Árangursrík snemmtæk íhlutun vinnur bæði að því að koma í veg fyrir að vandamál komi upp og að takast á við vandamál áður en þau versna.

Samþætting þjónustu

Það getur verið tímafrekt og krefjandi fyrir foreldra að halda utan um upplýsingar um barnið sitt og deila þeim áfram til réttra aðila á réttum tíma. Tilgangurinn með samþættri þjónustu er að tengiliður barnsins taki við þessu verkefni. Ef foreldrar biðja um samþætta þjónustu óska þeir eftir og gefa leyfi fyrir því að þjónustuveitendur tali saman og deili upplýsingum sem gætu hjálpað barninu.

 

Ef foreldrar vilja óska eftir beiðni um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns geta þeir gert það á mínum síðum Reykjavíkurborgar.

 

Börn geta einnig óskað eftir samskonar beiðni á þar til gerðu umsóknareyðublaði.

Tengiliðir

Tengiliður farsældar veitir upplýsingar og leiðbeiningar um þjónustu og stuðlar að því að börn og forsjáraðilar hafi aðgang að þjónustu án hindrana.

Til að óska eftir samþættri þjónustu geta börn, ungmenni og forsjáraðilar haft samband við tengilið farsældar. Á heimasíðum allra leikskóla og grunnskóla kemur fram hver er tengiliður farsældar í tilteknum skóla.

Tengiliðir farsældar vegna 16–18 ára barna sem ekki eru í framhaldsskóla eru hinsvegar staðsettir á miðstöðvum borgarinnar.

Vesturmiðstöð

Norðurmiðstöð

Suðurmiðstöð

Austurmiðstöð

Málstjórar

Málstjórar farsældar eru staðsettir á miðstöðvum borgarinnar og eru tveir slíkir á hverri miðstöð. 

Vesturmiðstöð

Norðurmiðstöð

Suðurmiðstöð

Austurmiðstöð