Að byrja í grunnskóla

Teikning af Fjólu og samnemendum hennar ásamt tveimur kennurum.

Börn byrja í grunnskóla árið sem þau verða sex ára og eru þá skólaskyld. Þau fá úthlutað plássi í sínum hverfisskóla og forsjáraðili þarf að staðfesta innritun rafrænt.

Einnig er hægt að sækja um skólavist í skóla utan skólahverfis.

Innritun í grunnskóla er opin frá fyrsta miðvikudegi í mars til 1. september ár hvert.

Gagnlegar upplýsingar fyrir grunnskólabyrjun

Fjóla er að byrja í 1. bekk í haust, hefur þú lesið söguna um hana? Foreldrar hennar Fjólu vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið við upphaf skólagöngu hennar. En ekki örvænta, við skulum gera þetta saman.

 

Hér er hlekkur á bókina um Fjólu á íslensku, ensku og pólsku 

 

Teikning af Fjólu að fylla út umsókn með foreldrum sínum

Áður en skólinn hefst

Ef barnið þitt verður sex ára á árinu færð þú tölvupóst frá Reykjavíkurborg þar sem óskað er eftir að þú staðfestir skráningu barnsins þíns í ykkar hverfisskóla.  Þú getur líka sótt um utan ykkar skólahverfis.

Teikning af Fjólu

Hverfisskóli - hvað er það?

Hverfum borgarinnar er skipt í skólahverfi. Hvert heimilisfang í hverfinu tilheyrir ákveðnum skóla. Barnið þitt á rétt á skólavist í sínum hverfisskóla en þú getur líka sótt um í öðrum skólahverfum borgarinnar ef þú vilt en ekki er tryggt að allir grunnskólar geti tekið við börnum utan skólahverfis.

Teikning af Fjólu á leið í skólann ásamt fleiri nemendum og foreldrum

Skóladagatal

Þú getur séð skóladagatal grunnskólanna á heimasíðum þeirra.



– Almennt skóladagatal Reykjavíkurborgar

– Skóladagatal fyrir skólaárið 2024-2025

Teikning af kennara að skoða skóladagatalið

Hvað þarf að hafa með sér?

Barnið þitt þarf að koma með skólatösku, nesti og sundföt (þegar það á við) í skólann. Gott er að hafa auka föt í skólatöskunni og vera klædd eftir veðri. Skólinn útvegar allar bækur og ritföng sem barnið þitt notar í skólanum.

Teikning af Fjólu með stóra og þunga skólatösku á bakinu

Viðtöl við umsjónarkennara

Í upphafi skólaárs er skólasetning fyrir nemendur sem eru að fara í 2. – 10. bekk. Börnin sem eru að byrja í 1. bekk fara ekki á skólasetninguna heldur hitta þau umsjónarkennarann sinn í viðtali með foreldrum/forsjáraðilum á fyrstu dögum skólaársins. Dagana sem viðtölin fara fram er ekki hefðbundin dagskrá í skólanum. Eftir að viðtalsdögum lýkur mæta 1. bekkingar í skólann samkvæmt stundaskrá. Frístundaheimili eru ekki opin á viðtalsdögunum í upphafi skólaárs.

Teikning af Fjólu með foreldrum sínum og handmenntakennara

Frímínútur

Barnið þitt fer út í frímínútur á fyrirfram ákveðnum tíma, yfirleitt tvisvar á dag. Það er því mikilvægt að koma klædd eftir veðri og að allur fatnaður sé merktur barninu. Á leiksvæðum barnanna er starfsfólk á vegum skólans sem sinnir gæslu.

Teikning af Fjólu í frímínútum í ausandi rigningu með öðrum krökkum

Frístundaheimili - hvað er það?

Þegar skólinn er búinn á daginn getur barnið þitt farið í frístundaheimili. Þar er fjölbreytt tómstundastarf í boði sem einkennist af skipulögðum sem og frjálsum leik. Þar er boðið upp á skemmtileg viðfangsefni sem veita barninu þínu útrás fyrir leik- og sköpunarþörf. Frístundaheimilin vinna mörg í samstarfi við íþróttafélögin í hverfinu. Upplýsingar um dagskipulag og fleira færð þú sent frá frístundaheimilinu í tölvupósti. 

Teikning af Fjólu fagna með öðrum krökkum

Frístundaheimili - hvenær er opið?

Frístundaheimilin eru opin á viðtalsdögum og starfsdögum kennara, nema annað sé tekið fram en lokuð þegar það er vetrarfrí í grunnskólunum. Frístundaheimilin eru opin í jóla- og páskafríum grunnskólanna. Þá daga sem ekki er grunnskólastarf er óskað eftir sérstakri skráningu í frístundaheimilin fyrir þá daga á hverjum stað fyrir sig.

Teikning af myndum sem Fjóla hefur teiknað í frístund

Frístundaheimili - hvernig sæki ég um? hvað kostar?

Skrá þarf börn sérstaklega í frístundaheimili og það getur þú gert þegar þú hefur staðfest skráningu fyrir barnið þitt í ykkar hverfisskóla, eða sótt um í skóla utan skólahverfis. Frístundaheimilið býður börnum pláss af biðlista þegar starfsfólk hefur verið ráðið inn eftir sumarfrí.

Teikning af Fjólu með vinkonu í frístund

Vetrarfrí

Í þrjá daga í október og tvo daga í febrúar er vetrarfrí í öllum grunnskólum borgarinnar. Þá eru frístundaheimilin lokuð. Nánari upplýsingar um dagsetningar vetrarfrís má nálgast á heimasíðu grunnskólanna.

Teikning af nemendum og foreldrum á leið í vetrarfrí

Tilbúin... viðbúin... grunnskóli!

Ready... steady... primary school!

 

Gotowy... przygotowany... szkola podstawowa!

Tilbúin, viðbúin, grunnskóli! Mynd af bókarkápu.