Hverfadagar borgarstjóra 2025 - Háaleiti og Bústaðir

Hverfadagar borgarstjóra í Háaleiti og Bústöðum

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri mun heimsækja hverfi borgarinnar næstu vikur og mánuði.

Á hverfadögum mun borgarstjóri heimsækja skóla og stofnanir borgarinnar, hitta starfsfólk borgarinnar í hverfinu, ræða við íbúa og fulltrúa félagasamtaka, íþróttafélaga og foreldrafélaga auk þess að bjóða upp á opna viðburði þar sem fólk getur rætt málin við hana og fulltrúa yfirstjórnar borgarinnar.

Hverfadagar borgarstjóra verða í Háaleiti og Bústöðum dagana 26.-30. janúar 2026

""

Sérkenni hverfisins

Í Háaleitis- og Bústaðahverfi búa hátt í sautján þúsund manns. Háaleiti er örnefni og Bústaðir var bóndabær sem stóð ofan við Elliðaárnar. Innan hverfisins er Smáíbúðahverfið, sem dregur nafn sitt af smáum húsum sem fólk hlaut aðstoð við að byggja á tímum húsnæðisvanda í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.

Fossvogsdalurinn er í hjarta hverfisins en þangað sækir fólk í hvers kyns útivist, leik og hreyfingu. Má þar nefna leik við fagran lækinn, hjólreiðar, hlaup og frisbígolf.

Metnaðarfullt skóla- og félagsstarf er í hverfinu, ásamt frábærri íþróttaaðstöðu. Í Fossvogsdalnum er Víkin, æfingasvæði Víkings, en félagið hefur einnig aðstöðu í Safamýri.

Verslun og þjónusta blómstra í hverfinu, til dæmis í Múlunum og verslunarmiðstöðinni Kringlunni, en þar er einmitt útibú Borgarbókasafnsins með fjölbreyttu úrvali viðburða. Í næsta húsi er svo Borgarleikhúsið með sitt kraftmikla leikhús- og menningarstarf.

Dagskrá heimsóknar borgarstjóra

Á meðan á hverfadögunum stendur mun Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri heimsækja skóla hverfisins. Hún mun funda með fulltrúum foreldrafélaga skólanna og spjalla við skólastjórnendur og annað starfsfólk. Þá mun hún kynna sér aðra starfsemi borgarinnar í hverfinu og funda með félagasamtökum, forsvarsfólki íþróttafélaga.

 

Háaleiti og Bústaðir

Hverfadagar borgarstjóra verða haldnir í öllum hverfum borgarinnar.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri verður á ferðinni í Háaleiti og Bústöðum dagana 26.-30. janúar 2026.