Hertar kröfur í starfsleyfi fyrir bálstofu í Fossvogi
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur nýtt sér heimild til að endurskoða starfsleyfi fyrir bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkur í Fossvogi. Leyfið gildir aðeins í eitt ár og felur í sér hert skilyrði sem miðar að því að draga úr mengunarálagi frá starfseminni.
Samkvæmt nýju starfsleyfi verður óheimilt að brenna við ákveðnar veðuraðstæður, til dæmis í logni eða mjög hægum vindi þegar dreifing reyks er lítil. Einnig mun brennsludögum fækka eftir sex mánuði úr fimm í viku í fjóra, aðeins á virkum dögum.
Þá eru bálfarir aðeins heimilar frá kl. 17:30 til 06:30, þó aldrei meira en átta klukkustundir samfellt innan þess tíma.
Með þessum breytingum er leitast við að tryggja að starfsemin í Fossvogi valdi sem minnstum umhverfisáhrifum og ónæði íbúa.