Skráning ábyrgðaraðila byggingarleyfis

Skráningar ábyrgðaraðila eru einn liður í því að fá útgefið byggingarleyfi. Um er að ræða skráningu byggingarstjóra og iðnmeistara ásamt greinargerð hönnunarstjóra. Skráningarnar eru á rafrænu formi og ekki tekið við þeim á pappír.

Hvar finn ég rafrænu skráningarnar?

Þú finnur þær á Mínum síðum Reykjavíkur. Þar getur þú fyllt út skráningarformin án þess að prenta neitt út og undirritað skjölin svo rafrænt.

Upplýsingar eru sóttar úr réttindagátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) svo að það er bara hægt að skrá einstaklinga með viðeigandi réttindi byggingarstjóra og iðnmeistara.

Hver getur skráð ábyrgðaraðila?

Þessi skráning á sér stað eftir að byggingaráform hafa verið samþykkt. Ef þú hefur ekki enn sent inn umsókn um byggingarleyfi eða fengið staðfestingu á samþykki áforma getur þú bara slakað á í bili.

 

Eftir að þú hefur fengið samþykkt áform velur þú svo einstakling í hlutverk byggingarstjóra til að sinna verki í þínu nafni og skráir viðkomandi rafrænt. Byggingarstjóri sér síðan um að skrá þá iðnmeistara sem sinna verkinu og hönnunarstjóri fyllir út greinargerð hönnunarstjóra.

Hvernig virka skráningarnar?

Umsækjandi skráir sig inn á Mínar síður með rafrænum skilríkjum.

 

Viðeigandi skráningarform er fyllt út og sent í rafræna undirritun með einum smelli.

 

Skráðum aðilum berst tilkynning í tölvupósti þar sem hægt er að undirrita skjalið rafrænt. Athugið að allir aðilar þurfa að undirrita skjalið rafrænt svo það berist byggingarfulltrúa.

 

Þegar allir aðilar hafa undirritað er skráningin send til byggingarfulltrúa. Þessi skráning er nauðsynleg til að hægt sé að gefa út byggingarleyfi.

Get ég breytt skráningunni þegar búið er að senda hana?

Ef breytingar verða á byggingarstjórum, iðnmeisturum eða hönnuðum, þarf enn sem komið er að tilkynna það á pappír. Unnið er að því að gera þessa skráningu líka rafræna.

Vissir þú?

Samþykkt byggingaráform segja bara til um það hvort möguleg framkvæmd uppfylli lagalegar kröfur. Þú mátt ekki byrja að byggja strax, til þess þarft þú formlega útgefið byggingarleyfi.

Gott að vita um skráningu byggingarleyfis

Hvar sé ég hvort ég er með viðeigandi réttindi?

Þú getur flett upp kennitölunni þinni í réttindaskrá HMS. Ef þú sérð ekki upplýsingar um þig á listanum er best að hafa samband beint við HMS hjá hms@hms.is

Þarf ég að gera eitthvað fleira til að fá byggingarleyfi?

Þessi skráning er einn liður í því að fá útgefið byggingarleyfi. Ásamt því þarf að skila viðeigandi gögnum og greiða gjöld. Ef þú ert óviss um hvar málið er statt ættirðu að hafa samband við arkitektinn sem þú hefur fengið til að sinna verkinu.

Hvað ef ég er ekki með rafræn skilríki?

Það er nauðsynlegt að vera með rafræn skilríki fyrir þessar skráningar. Þú getur sótt um rafræn skilríki hjá bönkum, símafyrirtækjum eða Auðkenni í Borgartúni 31.

Getum við aðstoðað?

Þarftu frekari aðstoð eða fannstu ekki það sem þú varst að leita að?

Fyrirspurnir og ábendingar má senda á netfang byggingarfulltrúa: byggingarfulltrui@reykjavik.is