Teikningavefur

Á teikningavef Reykjavíkurborgar má nálgast aðaluppdrætti og séruppdrætti af mannvirkjum í borginni sem byggingarfulltrúi hefur samþykkt eða staðfest.

Gögn í vörslu byggingarfulltrúa

Öll gögn í vörslu embættis byggingarfulltrúa Reykjavíkur, sem hlotið hafa formlega afgreiðslu, eru opinber skjöl og aðgengileg almenningi. Þar á meðal eru teikningar af mannvirkjum innan borgarinnar.

Samkvæmt upplýsingalögum er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál. Almenningi er því ekki veittur aðgangur að teikningum þess eðlis. 

Séruppdrættir

Séruppdrættir, svo sem lagna- og burðarþolsteikningar hafa hingað til ekki verið aðgengilegir á vefnum en nú er hafin vinna við að skanna þá inn. Þeir eru þegar farnir að birtast á vefnum og mun þeim fjölga hægt en örugglega næstu mánuði en áætlað er að ljúka þessari vinnu um mitt ár 2024.

Hægt er að hafa samband við upplysingar@reykjavik.is til að óska eftir ákveðnum teikningum.

Hvar finn ég teikningar af húsum í Reykjavík?

Til að fá uppdrætti af húsum er farið beint inn á teikningavef borgarinnar. Þar er slegið inn heimilisfang og húsnúmer, gott er að nota gæsalappir fyrir nákvæma leit. Viðeigandi teikning er valin og hægt er að skoða eða hala niður af vefnum.

Athugið að heimilisfang getur innihaldið fleiri en eitt númer, til dæmis í fjölbýlishúsi eða raðhúsi, þá þarf að slá inn frá-til (t.d. Borgartún 8-16). Einnig er hægt að leita eftir landeignanúmeri, lýsingu eða málsnúmeri.

 

 

Teikningaafgreiðsla

Hjá þjónustuveri borgarinnar er hægt að koma og skoða teikningar sem ekki eru komnar á teikningavef.

  • Teikningaafgreiðsla er í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14,  virka daga frá kl. 8.30–15.00
  • Þegar búið er að velja teikningar þá er mögulegt að óska eftir afriti af þeim hjá þjónustufulltrúa sem sér þá um að skanna þær inn og senda á pdf. sniði í tölvupósti
  • Ef þú hefur einhverjar spurningar þá endilega hafðu samband við þjónustufulltrúa á staðnum eða í gegnum netspjall, síma 411 1111 eða í tölvupósti á upplysingar@reykjavik.is

Hafa þarf í huga að ef óskað er eftir afriti af mörgum teikningum er ekki hægt að tryggja að þær séu skannaðar og sendar samdægurs.