Rafræn umsókn um byggingarleyfi

Umsókn um byggingarleyfi hjá Reykjavíkurborg fer fram í gegnum umsóknargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Þar getur þú fyllt út umsóknina rafrænt og hlaðið upp teikningum og öðrum fylgiskjölum.

Hvernig sæki ég um?

  • Leiðbeiningar um rafrænar umsóknir um byggingarleyfi
  • Hlekkurinn hér fyrir ofan vísar beint inn á umsóknargátt HMS. Til að nota hana þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.
  • Viðkomandi skráir þær upplýsingar sem beðið er um og hleður upp viðeigandi fylgigögnum. Hægt er að vista umsókn og opna aftur seinna ef einhverjar upplýsingar eða gögn vantar.
  • Til að aðrir hönnuðir eða tengdir aðilar geti skráð upplýsingar eða hlaðið inn gögnum þarf að skrá þá sérstaklega í umsóknargáttinni.
  • Umsókn er send til byggingarfulltrúa í Reykjavík.
  • Umsókn móttekin! Öll samskipti við byggingarfulltrúa munu eiga sér stað í gegnum tölvupóst.

Hvaða fylgigögnum þarf ég að skila?

Það er mismunandi eftir framkvæmdum hvaða fylgigögnum þarf að skila. Þó þarf alltaf að skila inn aðaluppdrætti, skrá hvaða mannvirki á við og skrá hönnunarstjóra. Við mælum með að þú leiti þér alltaf aðstoðar hjá fagaðila (hönnuði) ef þú ert ekki viss um hvaða atriði eiga við í þínu tilfelli.

Get ég breytt umsókn þegar búið er að senda hana?

Hægt er að bregðast við athugasemdum byggingarfulltrúa og hlaða inn uppfærðum skjölum eða upplýsingum. Ef breyting verður á efni umsóknarinnar þarf að senda inn nýja byggingarleyfisumsókn og taka þá fram ef breytingin er tengd þegar samþykktri umsókn.

Þarf ég að undirrita teikningar áður en ég sendi þær inn?

Það þarf ekki að undirrita aðaluppdrætti sem fylgja byggingarleyfisumsókn. Aðaluppdrættir eru sendir til undirritunar þegar samþykki liggur fyrir. 

Hvenær þarf ég að sækja um byggingarleyfi?

Ef þú ætlar að breyta eða byggja húsnæði þarftu oftast að sækja um byggingarleyfi. Við mælum með að eigendur leiti sér alltaf aðstoðar hjá dagaðila (hönnuð) áður en farið er í framkvæmdir og kynni sér ítarlega viðeigandi ákvæði í byggingarreglugerð.

Ef þú vilt ráðfæra þig við byggingarfulltrúa getur þú sent inn fyrirspurn. Ef þú ert ekki viss um hvort framkvæmdirnar samræmist deiliskipulagi getur þú sent fyrirspurn á skipulagsfulltrúa.

Rafræn umsókn um byggingarleyfi

Hvernig skila ég teikningum rafrænt?

Byggingarfulltrúi fer fram á að teikningar séu sameinaðar í eins fáar PDF skrár og mögulegt er. Rafrænar teikningar sem þarf að undirrita geta ekki verið stærri en 20 MB.

Hvað ef ég er ekki með rafræn skilríki?

Það er nauðsynlegt að vera með rafræn skilríki fyrir þessar skráningar. Þú getur sótt um rafræn skilríki hjá bönkum, símafyrirtækjum eða Auðkenni í Borgartúni 31.

Ég sótti um á pappír, hvernig get ég fylgst með stöðunni?

Umsóknir sem var skilað á pappír áður en ferlið varð gert rafrænt verða fullunnar á pappír. Ef þú sóttir um á pappír og veist ekki hver staðan er á umsókninni getur þú haft samband við byggingarfulltrúa í gegnum upplysingar@reykjavik.is

Get ég ennþá skilað á pappír?

Meginreglan er sú að umsóknir verði unnar rafrænt og er það að kröfu notenda og eftir 1. mars 2024 verður ekki tekið við nýjum umsóknum til byggingarfulltrúa á pappír. Ef þú ert í vandræðum getur þú haft samband við þjónustuver borgarinnar í síma 411-1111, á netspjalli eða í gegnum netfangið upplysingar@reykjavik.is

Getum við aðstoðað?

Þarftu frekari aðstoð eða fannstu ekki það sem þú varst að leita að?

Þjónustuver borgarinnar getur aðstoðað við almennar fyrirspurnir í síma 411 1111, á netspjalli og í gegnum netfangið upplysingar@reykjavik.is