Hvernig er farið yfir umsóknir um byggingarleyfi?

Starfsfólk byggingarfulltrúa fer yfir allar umsóknir sem berast. Gengið er úr skugga um að umsókn og fylgigögn uppfylli ákvæða laga og reglna um mannvirki, skipulagsskilmál og annað sem málið varðar.

Yfirferð umsókna

Umsækjandi fær senda staðfestingu frá byggingarfulltrúa Reykjavíkur þegar umsókn er móttekin. Þar kemur fram ef frekari upplýsingar eða gögn vantar. Málið verður tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þegar öll viðeigandi gögn hafa borist, lágmarksgjald greitt og yfirferð verkefnastjóra er lokið.

Þegar búið er að taka málið fyrir fá umsækjendur tilkynningu um niðurstöðu á uppgefin tölvupóstföng.

Ef gerðar eru athugasemdir við umsóknina þarf að bregðast við svo umsókn verði yfirfarin aftur og lögð fyrir afgreiðslufund.

Athugið að samþykkt umsókn er ekki ígildi byggingarleyfis. Framkvæmdir mega ekki hefjast fyrr en formlegt byggingarleyfi hefur verið gefið út.

Hvað getur orsakað tafir á afgreiðslu umsókna?

Algeng ástæða lengri afgreiðslutíma á samþykkt umsókna og útgáfu byggingarleyfis er að gögn sem berast eru ekki fullnægjandi. Þar má helst nefna:

  • Ekki fylgja öll nauðsynleg gögn með umsókn (t.d. samþykki meðeiganda, umsögn burðarvirkishönnuða).
  • Teikningar eru ófullgerðar, ófullnægjandi eða samræmast ekki byggingarreglugerð.
  • Teikningar eru ekki í samræmi við samþykkt skipulag.
  • Gjöld eru ekki greidd.

Leiðréttar umsóknir

Ef byggingarleyfisumsókn er skilað inn fyrir framkvæmdum sem uppfylla ekki ákvæði laga, reglugerðar, skipulags og annars sem málið varðar er haft samband við umsækjanda. Þá gefst kostur á að lagfæra umsóknina og gögnin ef við á.

Umsókn synjað

Ef umsókn er synjað á þeim forsendum að framkvæmdirnar uppfylli ekki ákvæða laga, reglugerðar, skipulags og annars sem málið varðar getur umsækjandi kært niðurstöðuna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála.

Getum við aðstoðað?

Þarftu frekari aðstoð eða fannstu ekki það sem þú varst að leita að?

 

Fyrirspurnir og ábendingar má senda á netfang byggingarfulltrúa: byggingarfulltrui@reykjavik.is

Þjónustuver borgarinnar getur aðstoðað við almennar fyrirspurnir í síma 411 1111, á netspjalli og í gegnum netfangið upplysingar@reykjavik.is