Byggingarleyfi

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík sér um að gefa út byggingarleyfi í borginni. Ef þú ætlar að breyta eða byggja húsnæði þarftu oftast að sækja um byggingarleyfi. Umsóknin fer fram í gegnum umsóknargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Þar getur þú fyllt út umsóknina rafrænt og hlaðið upp teikningum og öðrum fylgiskjölum.

Byggingarleyfi í stuttu máli

Það er flókið að byggja hús. Í sinni einföldustu mynd er hægt að skipta ferli umsóknar um byggingarleyfi í nokkur meginskref: undirbúning, umsókn, byggingaráform samþykkt, byggingarleyfi útgefið, úttektir og bygging tekin í notkun.

""

1. Undirbúningur

Þarf leyfi fyrir þessum framkvæmdum?

Tala við fagaðila og fá ráðgjöf og/eða senda fyrirspurn til byggingarfulltrúa.

""

2. Umsókn

Sækja um rafrænt.

Skila gögnum.

Greiða gjöld.

Umsókn yfirfarin hjá byggingarfulltrúa.

""

3. Byggingaráform samþykkt

Skrá ábyrgðaraðila á Mínum síðum.

Skila ítarlegri gögnum ef þarf.

Greiða gjöld ef þarf.

""

4. Byggingarleyfi útgefið

Nú mega framkvæmdir hefjast.

""

5. Úttektir

Þarf að framkvæma áður en bygging er tekin í notkun.

Getur gerst á ýmsum stigum framkvæmda.

""

6. Bygging tekin í notkun

Til hamingju!

Nú er allt klappað og klárt og hægt að taka bygginguna í notkun.

Undirbúningur

Það er að mörgu að huga þegar ráðist er í framkvæmdir. Áður en sótt er um byggingarleyfi er gott að athuga hvort það þurfi að sækja um leyfi fyrir því sem á að gera. Húseigandi eða lóðarhafi getur lagt inn formlega fyrirspurn áður en hönnunarferlið hefst til að kanna hvort að það sé líklegt að byggingarleyfi fáist fyrir framkvæmdinni. Það margborgar sig líka að byrja snemma að tala við fagaðila (hönnuð eða arkitekt) til að fá ráðleggingar og aðstoð vegna áætlaðra framkvæmda.

Rafræn umsókn um byggingarleyfi

Umsóknir um byggingarleyfi eru rafrænar hjá Reykjavíkurborg. Sótt er um í gegnum umsóknargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og nota þarf rafræn skilríki til að skrá sig inn.

Hvað gerist eftir að ég sæki um?

Umsækjandi fær senda staðfestingu frá byggingarfulltrúa Reykjavíkur þegar umsókn er móttekin. Þar kemur fram ef frekari upplýsingar eða gögn vantar. Málið verður tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þegar öll viðeigandi gögn hafa borist, lágmarksgjald greitt og yfirferð verkefnastjóra er lokið.

Þegar búið er að taka málið fyrir fá umsækjendur tilkynningu um niðurstöðu á uppgefin tölvupóstföng.

Ef gerðar eru athugasemdir við umsóknina þarf að bregðast við svo umsókn verði yfirfarin aftur og lögð fyrir afgreiðslufund.

Að þessu loknu er hægt að fá formlega útgefið byggingarleyfi.

Gott að vita um byggingarleyfi

Hver er munurinn á samþykktum byggingaráformum og byggingarleyfi?

Samþykkt byggingaráform segja bara til um það hvort framkvæmdirnar uppfylli lagalegar kröfur. Þú mátt ekki hefja framkvæmdir strax þó að áformin hafi verið samþykkt, til þess þarf útgefið byggingarleyfi.

Skráning ábyrgðaraðila

Byggingarstjóri og iðnmeistarar eru ábyrgðaraðilar sem taka verkið að sér og bera ábyrgð á tilteknum verkþáttum. Hægt er að skrá byggingarstjóra og iðnmeistara rafrænt á Mínum síðum Reykjavíkurborgar. Eigandi sér um að skrá byggingarstjóra. Byggingarstjóri sér um að skrá iðnmeistara.

Hvernig fæ ég útgefið byggingarleyfi?

Samþykkt byggingaráform segja bara til um það hvort framkvæmdirnar uppfylli lagalegar kröfur. Þú mátt ekki hefja framkvæmdir strax þó að áformin hafi verið samþykkt, til þess þarf útgefið byggingarleyfi.

Hvað kostar að fá byggingarleyfi?

Greiða þarf lágmarksgjald vegna umsóknar um byggingarleyfi. Ef umsóknin er samþykkt þarf mögulega að greiða önnur viðbótargjöld sem fara eftir eðli og umfangi framkvæmdanna. Dæmi um slíkt eru gjöld vegna lögbundinna úttekta, yfirferðar og samþykktar raflagnauppdrátta, gatnagerðar og bílastæða.

Upplýsingar um lágmarksgjald og önnur viðbótargjöld er að finna í gjaldskrá byggingarfulltrúa.

Hvaða gögnum þarf að skila til að fá útgefið byggingarleyfi?

Byggingarfulltrúi gefur út gátlista byggjenda þar sem er nánar útlistað hvaða gögnum þarf að skila vegna framkvæmda. Umsækjendur fá gátlistann sendan í tölvupósti þegar byggingaráform eru samþykkt.

Hvenær má hefja framkvæmdir?

Þegar búið er að skrá ábyrgðaraðila, greiða gjöld, skila inn gögnum og fá formlega útgefið byggingarleyfi mega framkvæmdir hefjast. Byggingarleyfi er gefið út með þeim skilyrðum að séruppdrættir (teikningar) séu samþykktir af byggingarfulltrúa áður en vinna við þá hefst.

Úttektir

Áður en bygging er tekin í notkun þarf að taka hana út. Úttektir eru gerðar á ýmsum stigum framkvæmda og staðfesta að bygging sé fokheld og að heimilt sé að taka mannvirki í notkun. Þegar byggingu er lokið er gerð lokaúttekt til að kanna hvort hún uppfylli allar kröfur.