Byggingarleyfi

""

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík annast samþykkt og útgáfu byggingarleyfa fyrir mannvirki í Reykjavík.

Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir byggingarleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt byggingarreglugerð. Slíkt á við þegar fyrir liggur að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja. Eins þegar það á að breyta mannvirki, burðarkerfi þess eða lagnakerfum og þegar breyta á notkun þess, útliti og formi.

Umsókn um byggingarleyfi

Umsókn um byggingarleyfi er tvíþætt. Annars vegar þarf að samþykkja að byggingaráformin (aðalteikningarnar) uppfylli allar lagalegar kröfur sem gerðar eru til framkvæmdarinnar. Hins vegar er byggingarleyfi útgefið og heimild til framkvæmda veitt, þegar búið er að skrá ábyrgðaraðila framkvæmdar (byggingarstjóri og iðnmeistari) og greiða álögð gjöld. Athugið að áður en byggingarvinna hefst þurfa að liggja fyrir samþykktir séruppdrættir af uppbyggingu og útfærslu verksins.

Samþykkt byggingarleyfisumsókn segir einungis til um það hvort áform um framkvæmd uppfylli lagalegar kröfur. Hún veitir ekki heimild til framkvæmda, til þess þarf að liggja fyrir formlega útgefið byggingarleyfi.

Áður en sótt er um

Gott er að athuga hvort þörf sé á byggingarleyfi fyrir áætluðum framkvæmdum. Húseigandi eða lóðarhafi getur lagt inn formlega fyrirspurn áður en hönnunarferli hefst til að kanna hvort líklegt sé að leyfi muni fást fyrir tiltekinni framkvæmd.

Gjaldskrá

Greiða skal svokallað lágmarksgjald fyrir afgreiðslu umsóknar. Upplýsingar um gjöld er að finna í gjaldskrá byggingarfulltrúa.

""

Ferli umsóknar

Umsókn er tekin fyrir á afgreiðslufundi sem er að jafnaði alla þriðjudaga. Að öllu jöfnu má búast við að það taki starfsmenn embættis byggingarfulltrúa og umsagnaraðila fimm vinnudaga að fara í gegnum gögn umsóknar. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa eru að jafnaði alla virka þriðjudaga.

Hvernig fæ ég útgefið byggingarleyfi?

Byggingarleyfi er gefið út með þeim skilyrðum að allir viðeigandi verkuppdrættir skuli liggja fyrir samþykktir og áritaðir af byggingarfulltrúa áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst.