Trans börn og skólar

Trans börn koma nú út bæði yngri og í meira mæli en áður og eru skólar sífellt að reka sig á það að vera ekki undir það búnir. Á þessari síðu hafa verið teknar saman upplýsingar um trans börn ásamt tvenns konar gátlistum, annars vegar fyrir skóla þar sem barn hefur nýlega komið út sem trans eða er að hefja nám við skólann, og hins vegar fyrir skóla sem vilja verða 'trans-vænir' óháð því hvort að þar séu trans nemendur. Einnig hefur verið útbúin stuðningsáætlun fyrir trans nemendur.

Gátlistar

Gátlistarnir eru útfærðir fyrir bæði grunnskóla- og leikskólastigið. Þeir eru aðgengilegir í pdf formi. Gott er að skoða efnið á þessari síðu samhliða því að fara yfir gátlistana. 

Stuðningsáætlun

Það hefur verið útbúin stuðningsáætlun grunnskóla fyrir trans nemendur. Stuðningsáætlunin byggir á erlendum fyrirmyndum og hugsast fyrir trans nemendur og nemendur með ódæmigerða kyntjáningu og starfsfólk skóla ásamt forsjáraðilum nemandans. Í henni er farið yfir marga þætti með það að markmiði að fá góða mynd af stöðu nemandans, því hvernig skólinn getur stutt við hann og hvaða praktískum atriðum þarf að huga að. Hugmyndin er sú að nemandinn, forsjáraðilar hans og fulltrúar skólans komi saman á fund og fari yfir áætlunina í sameiningu. Gott er að fundurinn sé haldin sem fyrst svo hægt sé að tryggja viðeigandi stuðning.

Athugið að það eiga ekki allir þættir stuðningsáætlunarinnar við alla nemendur bæði sökum aldurs en einnig þar sem aðstæður hvers einstaklings eru einstakar. Gott er að meta hvert dæmi fyrir sig og jafnvel fá ráðleggingar annars staðar frá. 

Efni sem nýtist trans börnum, aðstandendum og fagfólki

Hér má nálgast lista yfir hinsegin fræðsluefni sem inniheldur bækur, greinar, myndbönd o.fl. sem fjalla um hinsegin málefni, þ.m.t. málefni trans barna og fólks. Við hvert atriði er stutt lýsing á efninu sem og tungumáli þess sem og fyrir hvern það gæti hentað. Þegar um barnaefni er að ræða er gott að nýta efnið sem kveikju og í kjölfarið vera með umræður og úrvinnslu úr því. 

Einnig má skoða skýrslu um kennsluefni fyrir kynja- og hinseginfræði frá 2021, en í henni er efnið flokkað eftir kennslustigi. 

Skilgreiningar og staða trans barna

Mikilvægt er að viðurkenna kynvitund trans barna og fagna kyntjáningu þeirra, vali á nafni og fornafni t.d. hán, hann, hún, hé o.s.frv. Fræðsla til handa þeim sem vinna með trans börnum sem og aðstandendum þeirra er mikilvægur liður í því að bæta líðan þeirra, en einnig þarf að breyta uppbyggingu og skipulagi stofnanna á borð við skóla og frístundaheimili.

Kynjaskipting í skólastarfi og afmælishópar

Kynjaskipting getur verið útilokandi og skapað vandamál fyrir trans og intersex börn og um leið ítrekað hugmyndir um kynjamun og staðalmyndir kynjanna. Það er mikilvægt að leita annarra leiða til að skipta hópum og skal kynjaskipting einungis vera notuð að vel ígrunduðu og rökstuddu máli sem leið að ákveðnu markmiði, og þá aðeins tímabundið. Margir skólar og frístundastarf eru nú að endurskoða kynjaskiptingu sem hefur lengi verið notuð í starfinu, t.d. í tengslum við afmælishópa, íþróttir, pabba- og mömmukaffi o.fl. Það er ávallt hægt að finna góðar lausnir sem tryggja að öll kyn og allar fjölskyldur geti tekið þátt. Hér fyrir neðan eru leiðbeiningar og upplýsingar um afmæli og afmælishópa í skólum, en stefnan er að hverfa frá kynjaskiptingu, enda getur hún verið útilokandi fyrir trans börn sem og önnur börn, og gengur gegn markmiðum jafnréttislaga og stefna. Það að hverfa frá kynjaskiptingu þýðir þó ekki að við hunsum áhrif kynjakerfisins, það þarf áfram að taka mið af því í öllu starfi. 

Félög og stuðningur fyrir trans fólk og aðstandendur

Trans Ísland eru stuðnings- og baráttusamtök trans fólks á Íslandi. Þau halda úti vefsíðu með ýmsum upplýsingum um trans fólk, m.a. bæklingi ætlaður fjölmiðlafólki um hvernig best sé að fjalla um trans fólk.

Trans vinir eru hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda trans barna og ungmenna á Íslandi. Á heimasíðu þeirra má lesa meira um samtökin og skoða ýmsar upplýsingar um trans börn og ungmenni. 

Samtökin '78 halda úti stuðningshópi fyrir aðstandendur trans barna og ungmenna og veita ókeypis ráðgjöf fyrir trans fólk og fjölskyldur þeirra. 

Frekari upplýsingar, fræðsla og ráðgjöf

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa veitir fræðslu, stuðning og ráðleggingar er varðar málefni hinsegin fólks sem og jafnréttismál almennt.

  • Hægt er að hafa samband við sérfræðing í hinsegin málefnum á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu í gegnum  hinsegin@reykjavik.is.
  • Jafnréttisskólinn veitir stuðning og ráðgjöf ásamt því að sinna fræðslu,um jafnréttismál í bæði skólum og frístundaheimilum  borgarinnar. Verkefnastjóri Jafnréttisskólans er Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir: kolbrun.hrund.sigurgeirsdottir@reykjavik.is.
  • Samtökin ´78 eru með samning við Reykjavíkurborg og veita fræðslu til nemenda um hinsegin fólk og málefni þeirra skólum Reykjavíkurborgar að kostnaðarlausu. Einnig er ráðgjöf í boði fyrir hinsegin börn/fólk og aðstandendur þeirra að kostnaðarlausu. Þú getur bókað fræðslu á vefsíðu samtaka ´78
  • Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna ´78 og Tjarnarinnar er fyrir öll ungmenni á aldrinum 13-16 ára sem eru hinsegin eða tengja við hinsegin málefni á einn eða annan hátt. Félagsmiðstöðin er opin öll þriðjudagskvöld frá 19:30-22:00. Einnig er í boði hinsegin félagsstarf fyrir 10-12 ára börn. Forstöðukona er Hrefna Þórarinsdóttir og veitir hún allar frekari upplýsingar um starfsemina og opnanir. Hægt er að hafa samband við forstöðumann í gegnum tölvupóst hrefna.thorarinsdottir@rvkfri.is eða í síma 6908904. 

Þú getur haft samband við Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur, sérfræðing í málefnum hinsegin fólks: thorhildur.elinard.magnusdottir@reykjavik.is