Byggingarleyfi | Reykjavíkurborg

Byggingarleyfi

Hvernig skal sækja um byggingarleyfi?

Stöðluðu umsóknareyðublaði er skilað til embættis byggingarfulltrúa í gegnum þjónustuver Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14. Með umsókn skulu fylgja aðaluppdrættir, útfylltur gátlisti vegna aðaluppdrátta og önnur viðeigandi fylgiskjöl varðandi umsókn, sbr. lið 6 á umsóknareyðublaði, sem eiga við framkvæmdina.

Leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar er að finna hér. Starfsmaður þjónustuvers Reykjavíkurborgar tekur við umsókninni og framsendir hana til embættis byggingarfulltrúa.

Hvenær skal sækja um byggingarleyfi?

Sækja þarf um byggingarleyfi til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útlit og formi. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík annast útgáfu byggingarleyfa fyrir mannvirki sem staðsett eru í Reykjavík og er leyfið veitt á grundvelli laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012

Með mannvirki er átt við hvers konar jarðfasta manngerða smíði, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagna. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja.

Undantekning frá byggingarleyfisskyldu eru þó fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum en sækja þarf um framkvæmdaleyfi hjá skipulagsfulltrúa fyrir fyrrgreindum framkvæmdum. Sækja þarf hins vegar um byggingarleyfi vegna bygginga sem tengdar eru fráveitumannvirkjum og dreifi- og flutningskerfum hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta, þ.m.t. fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.

Undanþegið byggingarleyfi eru einnig ýmsar minniháttar framkvæmdar samkvæmt gr. 2.3.5 í byggingarreglugerðinni. 


Undanþegið byggingarleyfi

Minniháttar framkvæmdir sem eru undanþegnar byggingarleyfi en tilkynningarskyldar. Framkvæmdaraðili ber þó ábyrgð á að ekki skapist hætta fyrir fólk og eignir og að virt séu öll viðeigandi ákvæði reglugerðarinnar. Hann ber jafnframt ábyrgð á að framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og að ekki sé gengið á rétt nágranna.


Hverjir geta sótt um byggingarleyfi?

Húseigendur og lóðarhafar eða hönnunarstjóri í umboði þeirra geta sótt um byggingaleyfi.

Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 ber húseigendum að ráða löggiltan hönnunarstjóra. Hönnunarstjóri hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á því að hönnunargögn séu til staðar og með þeim hætti sem byggingarleyfisumsókn og framkvæmd krefst. Hönnunarstjóri er að öllu jöfnu sá aðili sem annast öll samskipti við embætti byggingarfulltrúa þegar sótt er um byggingarleyfi.


 

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

9 + 3 =