Teikningavefur
Á teikningavef Reykjavíkurborgar má nálgast aðaluppdrætti og séruppdrætti af mannvirkjum í borginni sem byggingarfulltrúi hefur samþykkt eða staðfest.
Gögn í vörslu byggingarfulltrúa
Öll gögn í vörslu embættis byggingarfulltrúa Reykjavíkur, sem hlotið hafa formlega afgreiðslu, eru opinber skjöl og aðgengileg almenningi. Þar á meðal eru teikningar af mannvirkjum innan borgarinnar.
Samkvæmt upplýsingalögum er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál. Almenningi er því ekki veittur aðgangur að teikningum þess eðlis.
Séruppdrættir
Séruppdrættir, svo sem lagna- og burðarþolsteikningar hafa hingað til ekki verið aðgengilegir á vefnum en nú er hafin vinna við að skanna þá inn. Þeir eru þegar farnir að birtast á vefnum og mun þeim fjölga hægt en örugglega næstu mánuði en áætlað er að ljúka þessari vinnu um mitt ár 2024.
Hægt er að hafa samband við upplysingar@reykjavik.is til að óska eftir ákveðnum teikningum.
Hvar finn ég teikningar af húsum í Reykjavík?
Til að fá uppdrætti af húsum er farið beint inn á teikningavef borgarinnar. Þar er slegið inn heimilisfang og húsnúmer, gott er að nota gæsalappir fyrir nákvæma leit. Viðeigandi teikning er valin og hægt er að skoða eða hala niður af vefnum.
Athugið að heimilisfang getur innihaldið fleiri en eitt númer, til dæmis í fjölbýlishúsi eða raðhúsi, þá þarf að slá inn frá-til (t.d. Borgartún 8-16). Einnig er hægt að leita eftir landeignanúmeri, lýsingu eða málsnúmeri.
Finnur þú ekki teikningu?
Ef teikning finnst ekki við leit á teikningavefnum ætti að hafa í huga að eldri samþykktar teikningar gætu verið skráðar undir eldra götuheiti, lóð eða lýsingu en kemur fram á fasteignaskrá í dag. Skráning teikninga var ekki eins stöðluð áður fyrr en hún er í dag.
Það er einnig mögulegt að teikning af byggingu sé einfaldlega ekki til. Algengar er að teikningar hafi ekki fengið byggingarleyfi. Ef eigandi hefur teikningu með undirritaðri dagsetningu og samþykktu málsnúmeri á teikningu er hægt að kanna málið frekar.
Teikning sem finnst ekki en talið er öruggt að sé til er mögulegt að finna í öðrum skjalasöfnum. Þetta á sérstaklega við ef teikning er mikið eldri en 30 ára gömul.
Á vef Þjóðskjalasafns Íslands er auðvelt er að fylgja leiðbeiningum um hvernig senda á fyrirspurn um teikningar en einnig er hægt að leita í skjalaskrám Þjóðskjalasafns Íslands.