Eignaskiptayfirlýsing

Eignaskiptayfirlýsing er lögboðinn skriflegur gerningur um skiptingu fjöleignarhúss. Hún er gerð á grundvelli fjöleignarhúsalaga og inniheldur lýsingu á húsinu og lóð þess. Hún mælir fyrir um skiptingu hússins í séreignir, sameign allra og sameign sumra. Hún tilgreinir einnig hlutdeild hvers eiganda í sameign og markar með því grundvöll að réttindum og skyldum eigenda innbyrðis og gagnvart einstökum hlutum húss og lóðar. 

 

Áður en sótt er um

Gera skal eignaskiptayfirlýsingu um fjöleignarhús og lóðir þeirra ef ekki er fyrir hendi þinglýst og fullnægjandi skiptayfirlýsing. Í eignaskiptayfirlýsingu á skipting húss að koma glöggt fram og tilgreint hvað tilheyrir hverjum eignarhluta, hvort um sé að ræða séreign, sameign allra eða sameign sumra. 

Hverjir hafa leyfi til að gera eignaskiptayfirlýsingu?

Þeim einum er heimilt að taka að sér að gera eignaskiptayfirlýsingar sem uppfylla lögmælt skilyrði og hafa fengið til þess leyfi frá félagsmálaráðherra. 

""

Ferli umsóknar

Byggingarfulltrúi þarf að staðfesta allar eignaskiptayfirlýsingar og er áritun hans skilyrði fyrir þinglýsingu. Staðfesting byggingarfulltrúa er gerð með dagsettri áritun, nafnritun hans og embættisstimpli á að minnsta kosti þrjú eintök eignaskiptayfirlýsingarinnar. Í áritun byggingarfulltrúa felst staðfesting á viðtöku eignaskiptayfirlýsingar, að hún hafi verið yfirfarin og sé í samræmi við reglugerð og lög um fjöleignarhús og fyrirliggjandi samþykkt gögn byggingarleyfis hjá embætti hans. 

Hvernig fæ ég útgefna eignaskiptayfirlýsingu?

Byggingarfulltrúi afgreiðir eignaskiptayfirlýsingu svo fljótt sem auðið er, sem er alla jafnan innan tveggja vikna frá því að hún berst. Sé um flóknar og viðamiklar eignaskiptayfirlýsingar að ræða getur byggingarfulltrúi tekið sér lengri afgreiðslutíma en þó ekki umfram fjórar vikur. Sama gildir þegar verulegir ágallar á eignaskiptayfirlýsingu og fylgigögnum hennar kalla á lengri afgreiðslutíma, svo og þegar bíða þarf eftir skýringum höfundar eignaskiptayfirlýsingar.