Stuðningsþjónusta fyrir börn og fjölskyldur

Teikning af konu vökva plöntu sem maður var að gróðursetja.

Stuðningsþjónusta fyrir börn og fjölskyldur þeirra felur í sér fjölbreyttar lausnir sem eru útfærðar eftir þörfum hvers og eins. Foreldrar fá stuðning við uppeldishlutverkið og börn fá stuðning til að auka virkni, bæta samskipti og efla sjálfstraust sitt. 

Fáðu upplýsingar um ráðgjöf og stuðning hér fyrir neðan eða bókað símtal og við finnum út úr því saman hvaða þjónusta hentar best. 

""

Þú færð símtal

Þegar við hringjum þarft þú að svara nokkrum spurningum. Svo finnum við ráðgjafa sem hentar þér og bókum tíma til að hittast og tala saman. 

""

Þú hittir ráðgjafa

Þú hittir ráðgjafa og þið skoðið saman hvaða þjónusta gæti hentað þér og hver næstu skref eru. Stundum þarf að hittast oftar en einu sinni.

""

Regluleg samskipti

Ráðgjafinn verður þér til halds og trausts og hjálpar til við að sækja um þjónustu og leysa ýmis mál. Ekki hika við að hringja í ráðgjafann ef þig vantar aðstoð.

Á ég rétt á stuðningsþjónustu?

Til að eiga rétt á stuðningsþjónustu þurfa foreldrar og börn að uppfylla eftirfarandi skilyrði: 

  • Eiga lögheimili í Reykjavík.  
  • Vera metin í þörf fyrir stuðning samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar. 
  • Foreldrar hafi forsjá með þeim börnum sem stuðningur snýr að. 

Fatlað fólk eldra en 18 ára getur fengið stoð- og stuðningsþjónustu sem er sniðin að þeirra þörfum.

Hvernig sæki ég um stuðningsþjónustu?

Fyrsta skrefið í að sækja um stuðningsþjónustu er að bóka símtal frá ráðgjafa.

Hvað gerist næst?

Þegar undirrituð umsókn um stuðningsþjónustu liggur fyrir er næsta skref formlegt mat á stuðningsþörf fjölskyldunnar. Þar er tekið mið af ýmsum þáttum, t.d. færni og styrkleikum, félagslegum aðstæðum, virkni og öðrum stuðningi sem til staðar er.

Ef umsókn er samþykkt vinnur ráðgjafi stuðningsáætlun í samvinnu við fjölskylduna. Stuðningsáætlunin byggir á formlegu mati á stuðningsþörf og lýsir því hvaða stuðningur er veittur og hvernig honum er háttað, hver markmiðin með honum er og hvernig árangur af stuðningnum er metinn.

Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.