Stuðningsfjölskyldur

Stuðningsfjölskyldur veita foreldrum barna stuðning við foreldrahlutverkið hvort sem það er innan eða utan heimilis. Hlutverk þeirra er m.a. að veita foreldrum tækifæri til hvíldar, styrkja stuðningsnet barnanna og auka möguleika þeirra á félagslegri þátttöku.

Hvernig sæki ég um að fá stuðningsfjölskyldu?

Stuðningsfjölskyldur eru hluti af stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Fyrsta skrefið í að sækja um slíka þjónustu er að bóka símtal frá ráðgjafa.

Hvaða þjónusta er í boði?

Hjá stuðningsfjölskyldum fá börn tilbreytingu, hvatningu og stuðning auk þess sem þau fá tækifæri til þess að efla félagsleg tengsl sín og virkni. Barnið dvelur á heimili stuðningsfjölskyldunnar og tekur þátt í daglegu heimilislífi hennar. 

Dvöl hjá stuðningsfjölskyldu getur að hámarki verið 15 sólarhringar á mánuði. Þegar mál barns er í vinnslu hjá Barnavernd Reykjavíkur getur dvöl hjá stuðningsfjölskyldu verið að hámarki 7 sólarhringar á mánuði.

Að gerast stuðningsfjölskylda

Það að gerast stuðningsfjölskylda er gefandi og góð aðferð til að láta gott af sér leiða. Stuðningsfjölskyldur eru eins ólíkar og þær eru margar. Stundum eru tengsl milli fjölskyldu barnsins og stuðningsfjölskyldu þess en í öðrum tilfellum eru engin tengsl til staðar. Sótt er um rekstrarleyfi sem stuðningsfjölskylda hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Eftir að rekstrarleyfi hefur verið veitt er málinu vísað til Reykjavíkurborgar.