Námskeið fyrir foreldra og börn

Reykjavíkurborg heldur fjölbreytt gagnreynd námskeið fyrir foreldra og börn. Á þeim eru kenndar árangursríkar aðferðir sem ætlað er að bæta líðan, hegðun og félagsfærni og stuðla að góðum samskiptum innan fjölskyldunnar. 

Hvernig sæki ég um að komast á námskeið?

Námskeiðin eru hluti af stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Fyrsta skrefið í að sækja um stuðningsþjónustu er að bóka símtal frá ráðgjafa.

Klókir litlir krakkar

Námskeið fyrir foreldra barna á aldrinum 3 til 7 ára sem sýna einkenni kvíða. Á námskeiðinu læra foreldrar aðferðir til að fyrirbyggja og takast á við kvíðaeinkenni barna sinna.  

Foreldramiðað HAM

Námskeið fyrir foreldra barna á aldrinum 5-12 ára sem sýna einkenni kvíða. Á námskeiðinu læra foreldrar aðferðir til að hjálpa barni sínu að takast á við kvíðann. Hópúrræði verður í boði árið 2023.

PEERS

Námskeið fyrir börn á aldrinum 11-15 ára sem eru með skerta félagsfærni. Á námskeiðinu læra ungmennin aðferðir til að bæta félagsfærni og takast á við samskipti í ólíkum aðstæðum. Foreldrar sækja einnig námskeiðið. PEERS er þróunarverkefni eins og stendur.

PMTO foreldrafærni

Foreldranámskeið, hópmeðferð og einstaklingsmeðferð fyrir foreldra barna á aldrinum 4-12 ára með hegðunarvanda. Ákvörðun um einstaklings- eða hópmeðferð fer eftir umfangi vandans. Foreldrar læra styðjandi uppeldisaðferðir til að bæta aðlögun, hegðun og líðan barna sinna og koma í veg fyrir þróun frekari vanda.

SPARE 

Foreldranámskeið fyrir arabískumælandi foreldra sem eru flóttafólk. Námskeiðið byggir á PMTO auk þess sem foreldrar læra leiðir til að takast á við tilfinningar eða áföll svo bæta megi aðlögun, hegðun og líðan barnanna og fjölskyldunnar. SPARE er tilraunaverkefni í samvinnu við Háskóla Íslands.

SES – Samvinna eftir skilnað

Námskeið fyrir foreldra sem eru skilin, eru að skilja eða íhuga skilnað. Á námskeiðinu læra foreldrar að efla samvinnu sín á milli, með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Markhópur námskeiðsins eru foreldrar barna á aldrinum 0-18 ára sem eru búsettir í Reykjavík. Skráning fer fram með því að senda póst á sudurmidstod@reykjavik.is. Námskeiðið er tilraunaverkefni veturinn 2023–2024.