Leyfi til rannsókna á skóla- og frístundasviði
Skóla- og frístundasvið vill vera þátttakandi í rannsóknarsamfélaginu.
Að hverju þarf að huga
-
Reglulega berast skrifstofu skóla– og frístundasviðs Reykjavíkurborgar beiðnir um að fá að gera rannsóknir í grunnskólum, leikskólum, frístundaheimilum og/eða félagsmiðstöðvum á vegum borgarinnar. Sviðið vill vera þátttakandi í rannsóknarsamfélaginu og telur mikilvægt að niðurstöður rannsókna sem sviðið á hlut að, auki þekkingu á skóla- og frístundastarfi og verði börnum, unglingum, foreldrum og starfsfólki sviðsins til framdráttar.
-
Það er mikilvægur hluti rannsókna að börn og unglingar fái tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós sbr. 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar segir m.a.: „Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska“.
-
Það þarf líka að hafa í huga að börn og unglingar eru viðkvæmur hópur. Mikilvægt er að rannsóknir sem að þeim beinast séu í samræmi við aldur þeirra og þroska.
-
Jafnframt skal þess getið að þátttaka í rannsóknum er ekki kjarnastarfsemi í leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi. Því er mikilvægt að settur sé rammi utan um framkvæmd rannsókna svo þær raski ekki starfseminni óhóflega.
Afgreiðsla á beiðnum um rannsóknarleyfi
Þegar leggja á fyrir spurningalista, taka viðtöl og/eða safna öðrum gögnum frá starfsfólki sviðsins eða foreldrum barna og ungmenna á stofnunum sviðsins, þurfa rannsakendur ekki á formlegu leyfi að halda frá skrifstofu skóla- og frístundasviðs. Einungis þarf samþykki þeirra sem beðnir erum um að taka þátt. Rannsakendur skulu þó kynna rannsóknina fyrir stjórnendum viðkomandi stofnana og fá leyfi þeirra. Sérstaklega ef starfsfólk á að taka þátt í viðkomandi rannsókn í sínum vinnutíma eða biðja á starfsfólk um aðstoð við að dreifa rannsóknargögnum til foreldra.
Þegar rannsókn beinist að börnum og ungmennum sem ekki hafa náð 18 ára aldri, þarf hinsvegar formlegt leyfi frá skrifstofu skóla– og frístundasviðs. Þetta á við um spurningakannanir sem leggja á fyrir þau, viðtöl, rýnihópa og/eða vettvangsathuganir. Í miðlægu leyfi frá skrifstofu sviðsins er alltaf tekið fram að jafnframt skuli afla samþykkis stjórnenda viðkomandi starfsstaða. Misjafnt er eftir eðli rannsókna hvort skriflegt leyfi foreldra þarf að auki, svokallað upplýst samþykki, eða hvort einungis þurfi að kynna rannsókn fyrir foreldrum, þ.e. ætlað samþykki. Upplýsingar um hvaða tegund samþykkis skuli aflað koma fram í leyfi skrifstofunnar.
Á skrifstofu skóla- og frístundasviðs er teymi sem fundar hálfsmánaðarlega og afgreiðir beiðnir um rannsóknarleyfi. Það skipa verkefnastjóri á skrifstofu sviðsstjóra og einn fulltrúi lögfræðideildar sviðsins.
Hvað þarf að koma fram
Í beiðni um rannsóknarleyfi þarf að koma fram nafn/nöfn og starfsstaður/nám rannsakenda, markmið rannsóknarinnar og stutt lýsing á rannsóknaraðferðum. Í lýsingunni skal eftirfarandi koma fram:
- Á hvaða starfsstað/starfsstöðum rannsóknin á að fara fram. Liggi það ekki fyrir skal tekið fram hvort óskað sé eftir þátttöku leikskóla, grunnskóla, frístundaheimilis, félagsmiðstöðva eða annarra starfsstaða skóla- og frístundasviðs.
- Þátttakendur í rannsókninni.
- Rannsóknaraðferð og gagnaöflun/tæki, s.s. afrit af spurningalistum og/eða viðtalsrömmum/gátlistum vegna vettvangsathugana.
- Á hvaða tímabili á rannsóknin að fara fram.
- Sýnishorn af leyfisbréfum/kynningarbréfum t.d. fyrir foreldra.
- Sýnishorn af beiðnum um upplýst samþykki foreldra þegar það á við.
- Sé rannsóknin háð samþykki Vísindasiðanefndar Háskóla Íslands, skal umsögn nefndarinnar fylgja beiðni, sbr. verklagsreglur.
- Sé rannsóknin háð samþykki Vísindasiðanefndar (skv. lögum nr. 44/2014 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði), skal umsögn nefndarinnar fylgja beiðni.
- Rannsóknir sem eru háðar samþykki Vísindasiðanefndar vegna rannsókna á heilbrigðissviði, þurfa ekki jafnframt umsögn Vísindasiðanefndar Háskóla Íslands. Enda sitja fulltrúar Siðfræðistofnunar H.Í. og Læknadeildar H.Í. í Vísindasiðanefnd vegna rannsókna á heilbrigðissviði.
- Verði tafir á að umbeðin gögn berist, tefur það afgreiðslu beiðna sem því nemur.
- Mikilvægt er að rannsakendur kynni sér nýja persónuverndarlöggjöf, sbr. lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
- Lögin tóku gildi þann 15. júlí 2018.
Fyrirspurnir og ábendingar
Fyrirspurnir og erindi vegna rannsókna skal senda á Ásgeir Björgvinsson, asgeir.bjorgvinsson@reykjavik.is