Mat á skóla- og frístundastarfi
Mat á skóla- og frístundastarfi er unnið út frá fyrir fram gefnum viðmiðum um gæði. Matið er annað hvort unnið af stjórnendum og starfsfólki starfsstaðar (innra mat) eða af utanaðkomandi aðilum (ytra mat).
Skrifstofa skóla- og frístundasvið leggur áherslu á að styðja við innra mat starfsstaða og er litið á það sem lykilatriði í að efla og bæta skóla- og frístundastarf.
INNRA MAT
Lögð er áhersla á að allir starfsstaðir skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vinni markvisst innra mat sem er óaðskiljanlegur hluti af skóla- og frístundastarfi. Í því flest fagleg ígrundun og greining á gögnum til að meta gæði skólastarfs og hvort að tilætlaður árangur hafi náðst út frá fyrir fram ákveðnum viðmiðum.
YTRA MAT
Ytra mat er framkvæmt af utanaðkomandi aðilum og hefur að markmiði að meta skóla- og frístundastarfið út frá ákveðnum viðmiðum.
Í mennta- og barnamálaráðuneytinu er unnið að nýrri útfærslu mats og eftirlits með skólastarfi. Í því felast ný viðmið fyrir innra- og ytra mat leikskóla og grunnskóla ásamt því að útfærsla og aðkoma sveitarfélaga er mótuð. Áætlað er að ný viðmið verði sett í samráðsgátt haustið 2024 og endurskoðun og mótun verklags verði unnið samhliða.
Leikskóli: Ytra mat
Haustið 2024 hófst vinna í mennta- og barnamálaráðuneytinu sem miðar að því að gera áætlun um mótun viðmiða fyrir innra og ytra mat í leikskólum auk áætlunar um samráð við sveitarfélög um framkvæmd ytra mats.
Hér má sjá skýrslur ytra mats í leikskólum árin 2014-2023 sem gerð voru út frá viðmiðum Reykjavíkurborgar frá 2014 auk umbótaáætlana og gagna sem tilheyra hverju mati. Ytra mat á leikskólum var framkvæmt af bæði skrifstofu skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og Menntamálastofnun.
Grunnskóli: Ytra mat
Haustið 2024 hófst vinna í mennta- og barnamálaráðuneytinu sem miðar að því að gera áætlun um mótun viðmiða fyrir innra og ytra mat í grunnskólum auk áætlunar um samráð við sveitarfélög um framkvæmd ytra mats.
Hér má sjá skýrslur ytra mats sem skrifstofa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar gerði og fór fram í grunnskólum árin 2007-2013 og 2014-2019 sem og umbótaáætlanir og gögn sem tilheyra hverju mati.
Viðmið um gæði í grunnskólum hafa verið endurskoðuð nokkrum sinnum af Menntamálastofnun síðan 2018. Endurskoðun fór síðast fram í nóvember 2022 með hliðsjón af lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030, 3. útgáfa.
Frístundastarf: Ytra mat
Ytra mat á frístundastarfi hófst haustið 2014. Í janúar 2020 var búið að meta að minnsta kosti eitt frístundaheimili og eina félagsmiðstöð í hverju hverfi borgarinnar, samtals 10 frístundaheimili (þar af 3 rekin af grunnskólum) og 5 félagsmiðstöðvar.
Viðmið og vísbendingar um gæði í frístundastarfi voru gefin út af Reykjavíkurborg árið 2015 en auk þess hefur Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefið út þemahefti fyrir frístundaheimili, hlutverk og sjálfmatstæki til að meta frístundastarf.
Hér má sjá skýrslur ytra mats sem skrifstofa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar gerði og fór fram á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum árin 2014-2020 sem og umbótaáætlanir og gögn sem tilheyra hverju mati.