Hverfadagar borgarstjóra 2025 - Árbær og Norðlingaholt

Hverfadagar borgarstjóra í Árbæ og Norðlingaholti

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri mun heimsækja hverfi borgarinnar næstu vikur og mánuði.

Á hverfadögum mun borgarstjóri heimsækja skóla og stofnanir borgarinnar, hitta starfsfólk borgarinnar í hverfinu, ræða við íbúa og fulltrúa félagasamtaka, íþróttafélaga og foreldrafélaga auk þess að bjóða upp á opna viðburði þar sem fólk getur rætt málin við hana og fulltrúa yfirstjórnar borgarinnar.

Hverfadagar verða haldnir í Árbæ og Norðlingaholti dagana 5.–9. janúar næstkomandi.

 

""

Sérkenni hverfisins

Árbær er næststærstur borgarhverfanna að flatarmáli og þar eru íbúar á þrettánda þúsund.

Árbær heitir eftir býli sem áður stóð þar sem nú er Árbæjarsafn, stærsta útisafn landsins. Þar eru varðveitt mörg söguleg hús Reykjavíkur og ávallt gaman að gleyma sér þar og láta hugann reika til gamalla tíma í borginni.

Árbæjarhverfið er með ótal tengingar við fallega náttúru. Má þar nefna Elliðaárdal og Heiðmörk með sín fjölbreyttu tækifæri til útivistar og hreyfingar. Rauðavatn er líka á næstu grösum og innan hverfisins er Víðidalur, hesthúsabyggð með reiðhöll og reiðvelli. Skíðasvæðið í Bláfjöllum er í stuttri akstursfjarlægð og í Ártúnsbrekkunni er skíðalyfta ætluð börnum og byrjendum.

Metnaðarfullt skóla- og félagsstarf er í hverfinu, ásamt frábærri íþróttaaðstöðu. Má þar nefna Fylkissvæðið þar sem aðstaða er til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar og hina sívinsælu Árbæjarlaug sem er frábærlega staðsett, efst í Elliðaárdalnum. Neðar í dalnum er svo Rafstöðin, sem fengið hefur nýtt hlutverk sem sannkölluð fræðslu- og menningarmiðstöð með fjölbreyttri þjónustu og skemmtilegu útileiksvæði. 

Dagskrá heimsóknar borgarstjóra

Á meðan á hverfadögunum stendur mun Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri heimsækja skóla í hverfinu. Hún mun funda með fulltrúum foreldrafélaga skólanna og spjalla við skólastjórnendur og annað starfsfólk. Þá mun hún kynna sér aðra starfsemi borgarinnar í hverfinu og funda með félagasamtökum, forsvarsfólki íþróttafélaga.

 

 

Árbær og Norðlingholt

Hverfadagar borgarstjóra verða haldnir í öllum hverfum borgarinnar.