Í Reykjavík má finna mörg svæði sem eru mikilvæg fyrir fugla. Út er komin skýrsla um fuglalíf í borginni á síðasta ári.
Í Reykjavík eru sex svæði sem eru skilgreind sem mikilvæg á landsvísu og jafnvel alþjóðlega mikilvæg. Allt eru það svæði við hafið, sjófuglabyggðir eða strandbúsvæði. Svæðin sex eru Akurey, Andríðsey, Skerjafjörður, Grafarvogur-Elliðaárvogur, Blikastaðakró-Leiruvogur og Kjalarnes (einkum Hofsvík).
Auk búsvæða við sjó má einnig telja vötn og ár innan borgarmarkanna, votlendissvæði og mólendi til mikilvægra búsvæða með hátt verndargildi.
Mikilvæg vöktun
Sumarið 2018 var sett af stað markviss vöktunaráætlun fyrir valin svæði í Reykjavík, til viðbótar við þá vöktun sem er til staðar við Reykjavíkurtjörn og í Heiðmörk. Vöktunin fólst í talningum á öllum fuglum sem sáust. Þeirri talningu var haldið áfram á sömu svæðum sumarið 2019 með örfáum breytingum.
„Vöktunin er sannarlega mikilvæg því það skiptir máli að fylgjast með því hvort breytingar verði á fjölda fugla sem dvelja á svæðunum og tegundasamsetningunni,“ segir Snorri Sigurðsson, annar höfunda skýrslunnar. „Ef það verður til dæmis mikil fækkun þarf að skoða hvað gæti valdið því og hvort grípa þurfi til aðgerða,“ segir hann.
Bæði eru vöktuð vatnasvæði og strandsvæði. Svæðin sem eru vöktuð eru Rauðavatn, Elliðavatn, Reynisvatn, Reykjavíkurtjörn og Vatnsmýrin, Elliðaárstífla, Grafarvogur, Fossvogur, Blikastaðakró og Hofsvík á Kjalarnesi.
Flórgoði á Rauðavatni
Hlýtt vor skapaði kjöraðstæður fyrir fuglalíf á Rauðavatni í maí og byrjun júní. Á undanförnum árum hefur flórgoði byrjað að nýta sér Rauðavatn aftur sem varpstað. Þegar mest lét sáust 18 flórgoðar á vatninu um miðjan júní, og fimm sem voru byrjaðir að liggja á hreiðri.
Samanborið við árið 2018 var varpárangur anda á Reykjavíkurtjörn og í Vatnsmýrinni mun betri. Fimm andartegundir sáust með unga.
Besti varpárangurinn var hjá skúfönd og voru ungahóparnir bæði stærri og fleiri en 2018. Mest sáust 28 ungar í júlí.
24 tegundir á leirunum
Grafarvogur – Elliðavogur er eitt af svæðunum sem er á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði í borginni þar sem fjöldi sendlinga nær yfir fjölda um alþjóðleg verndarviðmið á fartíma og gulönd yfir vetrartímann.
Innri hluti Grafarvogs er óspillt leira. Á vor og haustin eru fargestir áberandi á leirunum en þeir nýta sér hið fjölbreytta fæði sem þar er að finna. Alls sáust 24 tegundir á leirunum.
Margar tegundir nýta skjólið
Mörg önnur svæði í borginni eru rík af fuglalífi, til að mynda svæði sem hafa að miklu leyti verið mótuð af manninum svo sem almenningsgarðar, einkagarðar, landbúnaðarsvæði og skógræktarsvæði, hafnarsvæði og önnur athafnasvæði.
Fjölbreytileiki fuglalífsins er oft mikill í borgarumhverfinu því margar tegundir nýta sér þau tækifæri sem felast fyrir fæðuöflun og skjól í borginni allt árið um kring.
Stefna um líffræðilega fjölbreytni
Í stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni sem var samþykkt árið 2016 í borgarstjórn, er eitt meginmarkmiðið að safna eigi upplýsingum um líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík. Í aðgerðaáætlun með stefnunni sem var samþykkt árið 2017, er ein af lykilaðgerðum sem falla undir þetta markmið að regluleg vöktun eigi sér stað á lífríki borgarinnar og fuglasvæði tiltekin sérstaklega.
Vöktun á fuglasvæðum í Reykjavík hefur verið að mestu óregluleg með nokkrum undantekningum. Reykjavíkurtjörn og votlendið í Vatnsmýri sunnan Hringbrautar, sem í dag er friðland fyrir fugla, eru án efa þau fuglasvæði í borginni sem hafa verið mest vöktuð. Talningar á tegundum , fjölda verpandi
andarkolla og fjölda andarunga, hafa átt sér stað nær árlega frá 1973.