Borgarlínan

betri samgöngur - betra líf

Þróun borgarinnar

Samgöngur eru nátengdar borgarþróun en vaxandi borg þarf góðar almenningssamgöngur. Þess vegna er íbúða- og atvinnuuppbygging í takt við Borgarlínuna og um leið lögð áhersla á betri innviði fyrir hjólandi og gangandi. Þróunin stuðlar að hagkvæmum vexti og því að sem flestir geti farið ferða sinna með vistvænum hætti.

Uppbyggingarreitirnir í borginni raðast meðfram þróunarás sem hefur verið skilgreindur í aðalskipulagi í lengri tíma. Svona nýtist landrýmið betur og Reykjavík þróast á sama hátt og eftirsótt erlend borgarsvæði með því að bjóða uppá fjölbreyttari samgöngumáta og styttri vegalengdir fyrir fólk í hversdagslífinu.

Helstu uppbyggingarsvæði í Reykjavík

Kortasjá er hér fyrir neðan en líka er hægt að skoða húsnæðisuppbyggingu í sér glugga.

 

Lýðheilsa

Við uppbyggingu borgarinnar er mikilvægt að huga að lýðheilsu og vellíðan þeirra sem búa við breytingarnar. Með Borgarlínunni eykst notkun á almenningssamgöngum og virkum ferðamátum, eins og göngu og hjólreiðum. Þannig bætist hreyfing inn í hversdagslífið sem hefur í för með sér jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Samhliða fækkar ótímabærum dauðsföllum.

 

Lýðheilsa snýst líka um tengsl en með Borgarlínunni verður aðgengi að ýmsum áfangastöðum og þjónustu bætt, sem eykur enn fremur félagslega samheldni og jöfnuð. Góðar og aðgengilegar almenningssamgöngur koma í veg fyrir einangrun og útilokun ákveðinna hópa.

 

Reykjavíkurborg er leiðandi í lýðheilsumálum og var ákveðið í samstarfi við Betri samgöngur að gera fyrsta framsýna lýðheilsumatið á Íslandi.

Stelpa og strákur leika frisbígolf

Spurt og svarað

Fjölbreyttari samgöngur

Eitt af lykileinkennum Borgarlínunnar er að hún ferðast um að mestu í sérrými með forgangi á gatnamótum. Það þýðir að tafir verða í lágmarki og ferðatíminn styttist þar sem vagnar Borgarlínunnar munu bruna framhjá einkabílnum á háannatíma, ef miðað er við umferðina eins og hún er í dag. Ferðatíðnin verður einnig aukin frá því sem nú þekkist í almenningssamgöngum.

Mikilvægt er að bjóða upp á áreiðanlegt almenningssamgöngukerfi fyrir almenning því síðustu ár hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um í kringum 90 manns á viku, sem hefur þýtt fjölgun uppá 50 bíla í gatnakerfinu í hverri einustu viku. Það þýðir bara meiri umferðarteppu og mengun ef við breytum ekki hegðun okkar og förum að notast við fjölbreyttari samgöngumáta.

Í kringum 70% af allri losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík er vegna ökutækja sem notast við jarðefnaeldsneyti eins og bensín og dísel.

Loftslagsmál

Stærsti orsakavaldur gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík eru vegasamgöngur og þá einna helst í gegnum notkun einkabílsins. Það er því til mikils að vinna með því að fækka ferðum með einkabílnum eins og til dæmis með því að nota Borgarlínuna í ferðir til og frá vinnu eða skóla.

 

Markmið Reykjavíkurborgar er að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst á milli hraða losunar og bindingar af mannavöldum og nettólosun er því núll. Markmiðið er líka að aðlögun að loftslagsbreytingum verði með vistvænum og mannvænum hætti. 

 

Orkuskiptin eru líka hluti af þessu en stefnt er á að vagnar Borgarlínunnar verði rafmagnsvagnar.

Hjól á götu í Reykjavík

Borgarumhverfið

Borgarlínan bætir ekki aðeins samgöngur á höfuðborgarsvæðinu heldur hefur hún líka áhrif á  umhverfið í kringum línuna.

 

Áhugavert er að skoða hvernig Borgarlínan mætir borgarumhverfinu í kringum hana.

 

Gert er ráð fyrir góðum tengingum við Borgarlínustöðvarnar því leiðin þarf að vera greið að þjónustunni.

Teikning af Fjólu á leið í skólann ásamt fleiri nemendum og foreldrum

Spurt og svarað

Fyrir heimilisbókhaldið

Betri almenningssamgöngur hafa jákvæð áhrif á heimilisbókhaldið. Kaup og rekstur ökutækja er um það bil jafn stór útgjaldaliður og matur og drykkur.

 

Miðað við greiningu Hagstofunnar á einkaneyslu má ætla að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi að jafnaði varið um níu milljörðum króna á mánuði í kaup og rekstur eigin ökutækja síðustu árin.

 

Alls eru 1,7 einkabílar að meðaltali á hverju heimili og er því ljóst að mörg heimili geta sparað sér mikinn pening með því að losa sig við annan bílinn.

 

Enn fremur hefur tilkoma Borgarlínunnar jákvæð áhrif á fjárhag þeirra sem ná ekki að nýta sér almenningssamgöngur í dag þar sem hún verður aðgengilegri fleirum.

Sparnaður fyrir samfélagið

Fjárfesting í fyrsta áfanga Borgarlínunnar skilar samfélagslegum ábata upp á 26 milljarða króna. Arðsemi verkefnisins er metin rétt tæp 7%. Þetta kemur fram í félagshagfræðilegri greiningu á Borgarlínunni.

 

Greiningin tekur tillit til allra áhrifaþátta og er lagt mat á beinan og óbeinan kostnað og ávinning, frá kostnaði við framkvæmdir og rekstur, til tímasparnaðar og áhrifa á umhverfið.

 

Til að meta áreiðanleikann var gerð sérstök greining á ákveðnum kostnaðarþáttum, til viðbótar við 50% óvissuálag. Hún sýnir að verkefnið heldur samfélagslegum ábata, þrátt fyrir talsverðar breytingar.

Deiliskipulag Borgarlínunnar

Til þess að Borgarlínan verði að veruleika þarf að vinna deiliskipulag fyrir alla línuna. Í Reykjavík er um að ræða um það bil 20 deiliskipulög og einnig þarf að laga aðlæg deiliskipulög sem eru í kringum 30 fyrir þessa fyrstu lotu.

Innviðir Borgarlínunnar eru í hönnunarferli hjá Verkefnastofu Borgarlínunnar. Þar starfa innlendir og erlendir sérfræðingar með reynslu af sambærilegum verkefnum og alþjóðlegt hönnunarteymi. Borgarhönnun, samgöngur og skipulag vinna með Verkefnastofu Borgarlínunnar og Betri samgöngum að undirbúningi verkefnisins.

Deiliskipulagsferlið fer fram samhliða hönnunarferli Borgarlínunnar og er unnið í samvinnu við hönnunarteymi línunnar. Þú sem íbúi hefur möguleika á að koma með ábendingar og athugasemdir þegar viðkomandi deiliskipulag fer í auglýsingu.

Í auglýsingu:

Samgöngusáttmálinn

Ríkið og sex sveitarfélög undirrituðu árið 2019 sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulagið felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir allt svæðið. Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta, minnka tafir og stórefla almenningssamgöngur. Skrifað var undir uppfærðan samgöngusáttmála í ágúst 2024.

""

Græna planið

Heildarstefna Reykjavíkurborgar sem dregur upp framtíðarsýn borgarinnar til ársins 2030 og tengir lykilstefnur og áætlanir borgarinnar við þá sýn.

""

Skipulagsmál

Skipulag fjallar um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis. Deiliskipulag er nánari útfærsla á aðalskipulagi fyrir afmarkað svæði eða reit.

""

Loftslagsmál

Markmiðið er að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og að aðlögun að loftslagsbreytingum verði með vistvænum og mannvænum hætti.

""

Borgarlínan

Meira um Borgarlínuna sem hágæða almenningssamgöngukerfi og leiðanetið sem tengir sveitarfélögin saman.

""

Betri samgöngur

Framkvæmd Samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga er í höndum Betri samgangna ohf.

""

Vegagerðin

Vegagerðin er veghaldari þjóðvega og sér meðal annars um vegagerð, þjónustu og viðhald vega.