Meirihluti jákvæður í garð göngugatna og neikvæðum fækkar mikið

Borgarhönnun Göngugötur

Göngugötusvæði á Laugavegi.

Meirihluti Reykvíkinga er jákvæður gagnvart göngugötum í miðborginni. Verulega hefur dregið úr neikvæðu viðhorfi gagnvart göngugötum á síðustu fjórum árum. Sem fyrr eru þau jákvæðust sem heimsækja göngugötur oftast og búa næst þeim. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir Reykjavíkurborg.

Alls eru 64,5% Reykvíkinga jákvæðir gagnvart göngugötum en 12,3% neikvæðir. Um þriðjungi, eða 33,4% aðspurðra, finnst göngugötusvæðið vera of lítið.

Íbúar Vesturbæjar og miðborgar jákvæðastir

87,5% þeirra sem heimsækja göngugötur vikulega eða oftar eru jákvæð í garð göngugatna samanborið við 64,4% þeirra sem heimsækja þær 1-3 sinnum í mánuði og 37,9% þeirra sem fara sjaldnar en mánaðarlega á göngugötusvæði miðborgarinnar. Í öllum flokkum hefur fjölgað talsvert í hópi þeirra sem eru í meðallagi jákvæðir eða neikvæðir. Íbúar Vesturbæ (79,6%) og miðborg (77,8%) eru jákvæðastir gagnvart göngugötum í miðborginni.

Meirihluti telur göngugötur hafa góð áhrif

Meirihluti Reykvíkinga telur að göngugötur hafi góð áhrif á mannlíf og veitinga- og matsölustaði miðborgarinnar. 69,1% telur svæðin hafa jákvæð áhrif á mannlíf, 51% jákvæð áhrif á verslun og 63,9% jákvæð áhrif á veitinga- og matsölustaði. Þau sem eru með neikvætt viðhorf eru á bilinu 12-26% hópsins.

Könnunin var lögð fyrir Reykvíkinga í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 12. - 17. ágúst 2022. Svarendur eru 18 ára og eldri úr öllum hverfum Reykjavíkurborgar.