Hátt í þrír af hverjum fjórum, eða 72% borgarbúa, eru jákvæðir í garð göngugatna í miðborg Reykjavíkur. Jákvæðni eykst gagnvart göngugötum og neikvæðum hefur verulega fækkað á síðustu árum eða úr 20% árið 2019 í 9% árið 2023. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir Reykjavíkurborg.
Þeim fjölgar sem finnst svæðið of lítið
Sem fyrr eru þau jákvæðust sem heimsækja göngugötur oftast og búa næst þeim. Engu að síður eykst jákvæðni í öllum hverfum. Eftir því sem fólk er yngra er það jákvæðara, sömuleiðis eru konur með aðeins jákvæðara viðhorf en karlar og loks eftir því sem menntun eykst er fólk jákvæðara.
Þeim fjölgar sem finnst svæðið of lítið eða 38% nú miðað við 19% árið 2019. Þeim hefur fækkað töluvert sem finnst svæðið of stórt en 19% telja svo vera nú miðað við 28% árið 2019.
Jákvæð áhrif á mannlíf, verslun og veitingastaði
Viðhorf fólks til áhrifa göngugatna á mannlíf er nokkuð stöðugt en síðustu ár telja í kringum 70% aðspurðra að göngugötur hafi jákvæð áhrif á mannlíf. Rúmlega helmingur telur þær hafa jákvæð áhrif á verslun og tveir af hverjum þremur telja þær hafa jákvæð áhrif á veitinga- og matsölustaði í miðborginni.
Könnunin var lögð fyrir Reykvíkinga í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 17. - 29. ágúst 2023 voru svarendur 979 talsins. Svarendur eru 18 ára og eldri í Reykjavík.