Ungmennaráð

Ungmennaráðin eru vettvangur fyrir unglinga yngri en 18 ára til að taka virkan þátt í mótun samfélagsins og hafa áhrif í sínu nærumhverfi.

Sex ungmennaráð eru að störfum í hverfunum. Starfstími hvers þeirra er eitt ár í senn og hefst starfsárið 1. október ár hvert.

Ungmennaráðin hafa svo með sér samráðs- og samstarfsvettvang, Reykjavíkurráð ungmenna.

Tilgangur

Að ungmenni, yngri en 18 ára, hafi vettvang til að taka virkan þátt og hafa áhrif í samfélaginu þótt þeir hafi ekki kosningarétt. Starfsemi ungmennaráða gefur unglingum tækifæri á að láta í sér heyra, leggja fram tillögur til borgarstjórnar og vinna að málefnum ungs fólks á annan hátt.

Markmið

  • Að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila.
  • Að veita þátttakendum fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og vettvang til að þjálfa sig í þeim.

Kynnt fyrir unglingum 

Starfsemi ráða er kynnt fyrir nemendaráðum grunnskólanna á hverju hausti, ýmist af fulltrúum í ungmennaráði eða starfsmanni ráðsins. Jafnframt er verkefnið kynnt eftir aðstæðum og þörfum í hverju hverfi fyrir sig. Meðal annars eru haldnir opnir kynningarfundir þar sem gestir fá innsýn í starf ráðanna og margháttaðan árangur af því. 

Skipulag

Ungmennaráðin eru opinn vettvangur fyrir áhugasöm ungmenni  og ekki er gerð krafa um að viðkomandi sé kosinn eða tilnefndur af skóla- eða félagsmiðstöð til þess að geta tekið þátt í starfinu. Ráðin haga starfi sínu eftir því sem þau telja best til að ná markmiðum sínum hverju sinni. Ungmennaráð hvers hverfis tilnefnir tvo til fjóra fulltrúa til setu í Reykjavíkurráði ungmenna.

Helstu verkefni

Verkefni ungmennaráðanna mótast af málefnum líðandi stundar og þeim verkefnum sem berast ráðinu hverju sinni. Ungmennaráðin taka við ábendingum ungs fólks um málefni til að rýna í sem og annarra sem leita vilja til ráðanna vegna samstarfs eða samráðs. Ungmennaráðin vinna að því að koma ábendingum um það sem betur má fara til viðeigandi aðila. Ungmennaráðin eiga fulltrúa í bakhópum allra íbúaráða í Reykjavík.

Starfsfólk

Starfsfólk ungmennaráðs er jafnan starfsmaður frístundamiðstöðvar viðkomandi hverfis. Í flestum hverfum starfa tveir starfsmenn með ungmennaráði. Starfsmenn ungmennaráðs eru fulltrúum í ungmennaráðum til halds og trausts og því með reynslu af starfi með ungu fólki, sem og þekkingu á lýðræði og uppbyggingu Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurráð ungmenna

Tveir til fjórir fulltrúar hvers ungmennaráðs eiga sæti í Reykjavíkurráði ungmenna. Í ráðinu sitja 16 fulltrúar á aldrinum 13-18 ára. Reykjavíkurráðið fundar reglulega og ákveður hvaða viðfangsefni og verkefni það vinnur að á hverjum tíma.

Árlega funda fulltrúar Reykjavíkurráðsins með borgarstjórn og leggja fram tillögur um úrbætur í málefnum sem að þeim snúa. Reykjavíkurráð ungmenna á áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráði og fulltrúa í stjórn barnamenningarhátíðar. Fulltrúar Reykjavíkurráðs hafa frá upphafi tekið þátt í ráðstefnum, málþingum, vinnudögum og öðrum fjölbreyttum verkefnum á vegum Reykjavíkurborgar, menntamálaráðuneytisins, Umboðsmanns barna og fleiri.