Sumarnámskeið
Á Frístundavefnum eru upplýsingar um alls konar sumarnámskeið fyrir börn og unglinga – hvort sem þau eru á vegum borgarinnar eða frjálsra félagasamtaka.
Félagsmiðstöðvar og frístundaheimili
Frístundamiðstöðvar borgarinnar bjóða upp á sumarnámskeið, á frístundaheimilum fyrir börn á aldrinum 6–9 ára yfir sumartímann. Einnig bjóða þær upp á smiðjur fyrir 10–12 ára börn og félagsmiðstöðvaopnun fyrir 13–16 ára unglinga.
Í sumarfrístund frístundaheimilanna fyrir 6–9 ára er greitt fyrir viku í senn fyrir dvalartímann 8:30–16:30. Í smiðjunum fyrir 10–12 ára er oftast greitt fyrir hverja smiðju sem stendur yfir í um það bil 2–6 klukkustundir.
Siglunes
Siglunes er í raun ævintýramiðstöð við sjóinn þar sem hressum og kjörkuðum krökkum gefst kostur á að finna kröftum sínum og ævintýraþrá farveg. Á sumrin er boðið uppá siglinganámskeið fyrir börn og unglinga á aldrinum 9–16 ára. Auk námskeiða er boðið uppá siglingaklúbb fyrir 10–16 ára unglinga sem hafa reynslu af siglingum og öðru bátasporti.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Dýranámskeið fyrir 10–12 ára krakka. Á námskeiðinu vinna krakkarnir með dýr garðsins og námskeiðið því upplagt fyrir krakka sem áhuga hafa á dýrum almennt. Þau taka þátt í verkum í fjárhúsi, hesthúsi, svínastíu og meðal villtu dýranna. Auk þess eru framandi dýr heimsótt.