Frístundastyrkur - Frístundakortið

Teikning af persónu halda á stóru greiðslukorti með lógó Reykjavíkurborgar.

Frístundakortið er styrkjakerfi í frístundastarfi fyrir 6–18 ára börn og unglinga með lögheimili í Reykjavík. Styrkurinn er 75.000 krónur á ári og þú getur notað hann til þess að greiða niður hluta af þátttöku- og æfingagjöldum barnsins þíns. 

Hvenær á barnið mitt rétt á frístundastyrk?

Ef barnið þitt verður sex ára á árinu á það rétt á frístundastyrk frá 1. janúar það ár og út árið sem barnið verður 18 ára. Einstaklingar á 18 ári þurfa að skrá sig sjálfir til þess að ráðstafa styrknum.

Athugaðu að þú getur ekki flutt styrkinn á milli ára og ekki er heimilt að flytja hann á milli barna. Báðir forsjáraðilar barns geta nýtt Frístundakortið og er það gert rafrænt.

Markmið og tilgangur Frístundakortsins

Markmiðið er að öll börn og unglingar í Reykjavík á aldrinum 6–18 ára geti tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag og félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi.

Athugaðu að ekki þarf að sækja um styrkinn, hann er til ráðstöfunar undir kennitölu forsjáraðila.

Ráðstöfun styrks

  • Hægt er að ráðstafa frístundastyrk hjá aðildarfélögum Frístundakortsins.
  • Forráðamenn ráðstafa styrk í gegnum kerfi þeirra félaga sem barnið er skráð hjá. 
  • Opið er fyrir ráðstöfun frá 1. janúar til 31. desember. 
  • Innheimta aðildarfélaga er með ýmsum hætti og er mikilvægt að forráðamenn kynni sér hvernig er háttað hjá aðildarfélagi síns barns. Félögum er heimilt að ákveða sjálf lokadag ráðstöfunar á hverri önn svo hægt sé að ganga frá innheimtu eftirstöðva séu þær einhverjar. 
Athugaðu að ráðstöfun Frístundastyrksins fer nú eingöngu fram í gegnum skráningarkerfi félaga.
Athugaðu einnig að upplýsingar um stöðu eru aðeins aðgengilegar forsjáraðilum.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Fyrirspurnir, ábendingar eða kvartanir berist á netfangið fristundakort@reykjavik.is