Spurt og svarað um frístundastyrk
Hér finnur þú algengar spurningar og svör um frístundakortið.
Frístundakortið
Hvað er Frístundakort og hvar sæki ég um?
Frístundakortið er styrkjakerfi í frístundastarfi fyrir 6–18 ára börn og unglinga með lögheimili í Reykjavík. Nota má styrk til þess að greiða niður hluta af þátttöku- og æfingagjöldum barnsins þíns.
Það þarf ekki að sækja sérstaklega um Frístundakortið en styrkinn er að finna á https://minarsidur.reykjavik.is/ undir kennitölu forsjáraðila með sama lögheimili og barnið. Styrknum er svo ráðstafað í gegnum aðildarfélagið sjálft. Um aðstoð við innskráningu á https://minarsidur.reykjavik.is/ sér þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 1111. Einnig er hægt að fá aðstoð við að ráðstafa í gegnum netfangið fristundakort@reykjavik.is.
Hvað þarf barnið að vera gamalt til að geta nýtt sér styrkinn?
Styrkurinn er fyrir 6-18 ára börn sem hafa lögheimili í Reykjavík. Miðað er við fæðingarár.
Styrkurinn gildir frá 1. janúar það ár sem barnið verður 6 ára og til áramóta það ár sem barnið verður 18 ára. Ef að einstaklingur verður 18 en hefur ekki ráðstafað Frístundakorti verður hann að skrá sig sjálfur á námskeið með sínum rafrænu skilríkjum.
Geta báðir foreldrar ráðstafað styrk fyrir barnið sitt?
Séu báðir foreldrar með sama lögheimili og barnið og sama fjölskyldunúmer í þjóðskrá geta þeir báðir ráðstafað. Sé um sameiginlegt forræði að ræða getur eingöngu það foreldri sem er með sama lögheimili og barnið ráðstafað.
Sum skráningakerfi félaga bjóða upp á að lögheimilis foreldri geti gefið öðrum heimilt til að ráðstafa.
Hvernig get ég ráðstafað styrknum?
Hægt er að ráðstafa frístundastyrk hjá aðildarfélögum frístundakortsins https://reykjavik.is/adildarfelog-fristundakortsins
Hvenær get ég í síðasta lagi ráðstafað styrknum til félags?
Það er í höndum hvers aðildarfélags fyrir sig að ákveða hvenær lokadagur ráðstöfunar er hjá félaginu á hverri önn. Það er því mikilvægt fyrir forráðamenn að kynna sér hvernig innheimtu er háttað hjá félaginu og hvenær síðasti ráðstöfunardagur er hjá því.
Frístundakortið fellur svo niður um áramót.
Hvers vegna get ég ekki ráðstafað á námskeiðið sem barnið mitt er/var á?
Ástæðurnar geta verið að félagið sé búið að loka fyrir ráðstöfun á tímabilinu eða nýtt tímabil sé hafið og búið að loka fyrir ráðstöfun fyrri tímabila. Félögum er heimilt að ákvarða sjálf lokadag ráðstöfunar á hverju tímabili svo hægt sé að ganga frá innheimtu eftirstöðva séu þær einhverjar. Best er að hafa samband við félagið til að spyrjast fyrir um ráðstöfun og innheimtu hjá því.
Hvers vegna birtist barnið mitt ekki undir mínu nafni á mínum síðum?
Ástæðurnar geta verið að barnið sé ekki skráð með sama lögheimili og foreldri. Sé um sameiginlegt forræði að ræða birtist nafn barns hjá því foreldri sem er skráð með sama lögheimili og sama fjölskyldunúmer í þjóðskrá. Ástæðan getur einnig verið að ekki sé búið að ganga frá breytingum í þjóðskrá sé viðkomandi að flytja til landsins eða að breytingar hafi orðið á fjölskylduhögum s.s. missir maka. Sé barnið orðið 18 ára er það komið með sérstakt fjölskyldunúmer og þarf því að skrá sig á https://minarsidur.reykjavik.is/ á sinni eigin kennitölu. Sé um flutning erlendis frá að ræða þarf að hafa samband við þjóðskrá.
Er hægt að færa frístundastyrkinn á milli systkina og/eða á milli ára?
Nei - styrkurinn er eyrnamerktur hverju barni og því ekki hægt að nýta hann á milli systkina. Frístundastyrkurinn færist ekki á milli ára og fellur niður um áramót sé hann ekki nýttur.
Er hægt að nota Frístundakortið vegna sumarnámskeiða?
Nei, ekki er hægt að nota Frístundakortið á hefðbundin sumarnámskeið sem eru á viku eða tveggja vikna grunni. Námskeið þurfa að vera að minnsta kosti 8 vikur samfelld til að vera styrkhæf.
Námskeið á vegum Reykjavíkurborgar
Er hægt að nýta Frístundakortið á Frístundaheimili?
Já, hægt er að greiða dvöl á Frístundaheimilum með Frístundakorti. Athuga þarf þó að Frístundakortið er ekki hægt að nýta í sumarfrístund Frístundaheimila.
Frístundakorti er ráðstafað í gegnum Völu vetrarfrístund sem er skráningakerfi frístundaheimila.
Er hægt að nýta Frístundakortið í starf í félagsmiðstöðvum?
Nei, starf í félagsmiðstöðvum er niðurgreitt af Reykjavíkurborg og kostar í flestum tilfellum ekkert. Sé um gjaldtöku að ræða er ekki hægt að greiða þann kostnað með Frístundakorti.