Kannanir, mat og eftirlit
Kannanir, mat og eftirlit er reglulega unnið í leikskólum, grunnskólum og í frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Það er órjúfanlegur hluti af starfsemi þeirra og áhersla er lögð á að gögnin séu nýtt í innra mati starfsstaðanna.
Kannanir á högum og líðan barna
Hér má sjá niðurstöður kannana, mat á tilraunaverkefnum, upplýsingar um dagforeldraeftirlit og árlegt eftirlit í sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum.
Skólapúlsinn
Skólapúlsinn gerir árlega nemendakannanir í 1.-5. bekk og 6.-10. bekk. Spurningarnar snúa að þáttum eins og líðan barna í skólanum, virkni í námi og um skóla- og bekkjaranda. Nær allir grunnskólar í Reykjavík taka þátt í mælingum Skólapúlsins en lögð er áhersla á að niðurstöðurnar séu kynntar fyrir hagsmunaaðilum og að niðurstöðurnar séu nýttar til umbóta.
Rannsóknir og greining
Rannsóknir og greining gerir árlega nemendakannanir í 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Spurningarnar snúa að þáttum í lífi barna og unglinga eins og andlegri og líkamlegri heilsu, tengslum nemenda við jafnaldra, notkun þeirra á netmiðlum, lestri bóka og viðhorfi þeirra til jafnréttis. Megináhersla er á að greina áhættuhegðun og verndandi þætti eins og virkni og tengsl. Allir grunnskólar í Reykjavík taka þátt í mælingum Rannsókna og greiningar en lögð er áhersla á að unnið sé með niðurstöðurnar með starfsfólki skóla, félagsmiðstöðva og verkefnisstjórum forvarna og þær kynntar og ræddar með nemenda- og foreldrahópnum, sé þess þörf.
- Hagir og líðan nemenda í 8.-10. bekk – Rannsóknir og greining, haust 2023
- Hagir og líðan nemenda í 5.-7. bekk – Rannsóknir og greining, haust 2023
- Vímuefnanotkun nemenda í 8. – 10. bekk – Rannsóknir og greining 2023
Íslenska æskulýðsrannsóknin
Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) er rannsókn sem Háskóli Íslands framkvæmir fyrir mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli 12. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Markmið rannsóknarinnar er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna en könnun Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar hófst skólaárið 2021-2022. Rannsóknin er lögð fyrir vor hvert í grunnskólum í 4., 6., 8. og 10. bekk. Niðurstöðurnar sýna stöðu þátta er varða líðan, heilsuhegðun og viðhorf grunnskólanemenda. Skólar og sveitarfélög fá niðurstöðurnar og er markmiðið að þær geti stutt við stefnumótun hvers skóla og sveitarfélaga í heild.
- Íslenska æskulýðsrannsóknin 2024, helstu niðurstöður í Reykjavík
- Íslenska æskulýðsrannsóknin 2024, mælaborðsbreytur í Reykjavík
- Íslenskar æskulýðsrannsóknir – Farsældarvísar í Reykjavíkurborg vor 2023
Matsferill
Matsferill er safn matstækja til að meta námsárangur grunnskólabarna sem að hluta eru valkvæð og að hluta skylda. Matsferli er ætlað að gefa heildstæða mynd af stöðu og framvindu hvers barns í námi, jafnt og þétt yfir skólagönguna. Upplýsingarnar eiga að nýtast nemendum og forráðamönnum og stuðla að samtali og trausti í samstarfi heimila og skóla um nám við hæfi hvers barns. Auk þess á matsferill að afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild, með skyldubundnu samræmdu námsmati, þannig að stefnumótandi aðilar, sem og aðrir, geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir, bæði í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu.
Lesferill er matstæki sem metur grunnþætti læsis, s.s. lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Mælt er með því að lesferill sé lagður fyrir alla nemendur reglulega í 1.-10. bekk en núna er hann valfrjáls möguleiki. Þegar fram líða stundir verður lesferill hluti af matsferlinum.
Lesmál er matstæki sem metur lestur, lesskilning og réttritun nemenda í 2. bekk. Prófið skiptist í átta undirþætti sem mynda eftirfarandi fjóra yfirþætti: umskráningu, lesskilning, hraðlestur og réttritun. Reykjavíkurborg birtir skýrslu fyrir borgina í heild en auk þess fær hver skóli sína skýrslu.
Milli mála - málþroskakönnun
Milli mála – málþroskakönnun er fyrir nemendur sem dvalið hafa tvö ár eða lengur á Íslandi eða íslenska nemendur sem hafa dvalið 5 ár eða lengur erlendis. Tilgangur prófsins er að meta hvort börn sem hafa annað móðurmál en íslensku hafi nægilega góð tök á íslensku til þess að fylgjast með skólastarfi í þeim bekk sem þau eru í. Efni prófsins er að miklu leyti byggt á orðaforða, setningagerð og málfari sem notað er í kennslubókum í íslenskum skólum. Prófið er lagt fyrir í upphafi grunnskólagöngu, síðan í lok 4., 7. og 9. bekkjar.
Málþroskaskimanir í leikskóla
Misjafnt er hvaða málþroskaskimanir leikskólar nota, það er val leikskóla.
EFI-2 er málþroskaskimun á málskilningi og máltjáningu barna sem eru á 4. ári, ætluð þeim sem koma að sérkennslu barna í leikskólum. EFI-2 málþroskaskimun gefur markvissar niðurstöður til að meta hvort þörf sé á frekari greiningu fagaðila.
Hljóm-2 er aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málvitund barna í elsta árgangi leikskólans. Skimunin er framkvæmd í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu vegna lestrarerfiðleika þegar formlegt lestrarnám hefst.
Orðaskil er ætlað að mæla orðaforða barna og vald þeirra á beygingarkerfi og setningargerð frá 18 mánaða til 3 ára. Það er oftast notað ef grunur leikur á að um seinkaðan málþroska sé að ræða. Foreldrar fylla út listann.
TRAS er skráningartæki, notað til þess að skrá og fylgjast með málþroska 2-5 ára barna. Hvert og eitt barn á sitt skjal og fyllt er út í reitina tvisvar sinnum á ári frá tveggja ára aldri út leikskólagönguna.
Foreldrakannanir
Foreldrakannanir skóla- og frístundasviðs eru gerðar meðal foreldra barna í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi Reykjavíkurborgar annað hvert ár. Lögð er áhersla á að niðurstöður séu rýndar, þær kynntar hagsmunaaðilum og unnið sé með þætti sem þarfnast umbóta í kjölfarið.
Starfsmannakönnun Reykjavíkurborgar
Starfsmannakönnun Reykjavíkurborgar, Stofnun ársins, er gerð meðal allra starfsmanna borgarinnar á hverju ári. Tilgangur könnunarinnar er að styrkja starfsumhverfi í opinberri þjónustu og til að veita ítarlegar upplýsingar um stöðu mála, þ.e. styrkleika og áskoranir í starfsumhverfinu. Lögð er áhersla á að niðurstöður séu kynntar starfsfólki, samræður eigi sér stað um niðurstöðurnar og unnið sé með þætti sem þarfnast umbóta.
Reykjavíkurborg/Skóla- og frístundasvið: Stofnun ársins 2023
Mat á tilraunaverkefnum
Fyrr á frístundaheimili 2023 og 2024
Mat á tilraunaverkefninu Fyrr í frístundaheimili 2023
Mat á tilraunaverkefninu Fyrr í frístundaheimili 2024
Eftirlit í sjálfstætt starfandi leikskólum
Samkvæmt reglugerð um mat og eftirlit í leikskólum (nr. 893/2009) er Reykjavíkurborg skylt að fylgjast með leikskólastarfi allra leikskóla sem reknir eru í borginni. Farið er yfir gögn leikskólans árlega og stjórnendur leikskólanna svara könnun um fjölda barna og starfsfólk, innritun og opnunartíma, öryggismál, foreldrasamvinnu og uppeldis- og menntastarf, sem eftirlitsaðilar yfirfara. Ef athugasemdir eru gerðar við eftirlitið er málum vísað til fagskrifstofu leikskólamála og/eða fagskrifstofu fjármála á skóla- og frístundasviði, sem vinnur áfram með viðkomandi leikskóla að úrlausn mála.
Eftirlit í sjálfstætt starfandi grunnskólum
Samkvæmt reglugerð (658/2009) er Reykjavíkurborg skylt að fylgjast með grunnskólum sem reknir eru í borginni. Farið er yfir gögn grunnskólans árlega, m.a. starfsáætlun og skólanámskrá, upplýsingar um fjölda barna og starfsfólk, húsnæði og fjármál. Eftirlit SFS gagnvart sjálfstætt reknum grunnskólum í borginni getur einnig falist í því að bregðast við ábendingum á sama hátt og gagnvart öðrum grunnskólum í borginni. Ef athugasemdir eru gerðar er fagskrifstofu grunnskólamála og/eða fagskrifstofu fjármála á skóla- og frístundasviði falið að vinna með viðkomandi grunnskóla að úrlausn mála.
Dagforeldraeftirlit
Dagforeldrar starfa sjálfstætt en Reykjavíkurborg sinnir eftirliti með daggæslu og fer í þrjár óboðaðar eftirlitsheimsóknir árlega á hvern starfsstað. Í eftirlitsheimsóknum eru viðmið um gæðastarf höfð að leiðarljósi, m.a. eru tekin út öryggismál og uppeldis- og leikaðstæður kannaðar. Einnig er farið í að minnsta kosti eina boðaða ráðgjafaheimsókn á ári, oftar ef þurfa þykir og ef dagforeldrar leita eftir ráðgjöf. Foreldrar barna í daggæslu fá könnun annað hvert ár sem og dagforeldrarnir sjálfir. Brugðist er við ábendingum sem berast vegna daggæslu barna í heimahúsum en fagstjóri leikskóla í Suðurmiðstöð, leikskólaskrifstofa og lögfræðiþjónusta SFS vinna að úrlausn mála. Ef málin eru þess eðlis eru þau tilkynnt og/eða unnin í samvinnu við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.